þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Velkominn aftur Mido!

Þegar ég fékk fréttir af því í vor að við myndum ekki kaupa Mido var ég í öngum mínum. Mido var í raun eini maðurinn í Spurs sem virkilega sýndi ást á klúbbnum og var allur af villja gerður. Hann átti eins og allir vita dramantískt augnarblik sem hann átti erfitt með að vinna úr. Nú er Mido kominn aftur ( ég er fullviss um að hann fái atvinnuleyfi) og fær nú aðeins meiri samkeppni um sæti í liðinu en frá Rasiak í fyrra. Nú erum við komin með tvö álíka góð sóknarpör. Þá er spurningin hvað er sterkasta sóknarparið?

Litli framherjinn er að sjálfsögðu Keane miðað við framistöðu undanfarin misseri.

Stóri maðurinn verður í mínu tilfelli að vera Mido. Ég hreifst svo að honum á síðasta tímabili að ég verð að taka hann fram yfir Berbatov. Ég hugsa að flestir séu ósammála mér. Berbatov er líklega af hlutlausum aðilum talinn betri leikmaður (sést líka á verðmiðanum) en stundum heldur maður bara meira með sumum leikmönnum.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Jol dottinn í það?

Ég hafði stundum orð á því í fyrra að Jol væri líklega á lyfjum. Ástæða þess að ég dró stundum þá ályktun var vegna ýmissa ummæla og ákvarðana. Þetta var stundum komið út í algjöra vitleysu. Well he's at it again! Þetta er að vísu bara á léttu nótunum í þetta skiptið og gæti jafnvel verið um lélega blaðamennsku að ræða. En hér er linkurinn á þetta viðtal. Hérna eru nokkrar setningar sem ég rak augun í

Spurs boss Martin Jol admitted his side had a lack of balance on the
left-side of their midfield after the surprise 2-0 home loss to
Everton.

Aaron Lennon was kept in check by Gary Naysmith all afternoon and, as
Jol pointed out, they had no outlet on the left flank to stretch the
visitors.


Bíddu nú við? Á hann við að við séum ekki með neinn alvöru vinstri kanntmann til að teygja á vörn andstæðinganna? En hvað með ..... nei heyrðu? Það er líklega eitthvað til í þessu, okkur vantar líklega vinstri kanntmann. Ég veit ekki hvar við værum ef við værum ekki með stjóra sem gæti komið auga á vandamálin um leið og þau koma upp. (kaldhæðni)

The Dutch coach said: "After the sending off you got the feeling that it
could be easier than you thought, but I always knew that it could be difficult.

Bwahahaha! Hvað er hann að segja? Kannski er enskukunnáttan mín að trufla mig eitthvað, en þessi setning er með öllu óskiljanleg fyrir mig.

But despite the setback, Jol had no complaints about his side's
work-rate and effort.


HA? Er Jol bara sáttur við þetta tvennt? Ég hef einmitt hellings "complaints" yfir þessu!

laugardagur, ágúst 26, 2006

Tottenham 0 - Everton 2

Það er alveg sama hvernig við höfum spilað undanfarin ár gegn Everton. Það við byrjum hvern leik með hreint blað. Þó svo að við höfum haft tak á Everton undanfarin ár er Everton liðið nú einfaldlega mörgum númerum of stórt fyrir lið Spurs. Ég hef samt litlar áhyggjur af fallslagnum. Þó svo að við séum aðeins að slípa þetta svona í byrjun held ég að við munum alltaf halda okkur í þægilegri fjarlægð frá fallsætunum. En það er ekkert sjálfgefið. Við þurfum að berjast fyrir öllu í þessari deild því við fáum ekkert gefins.
COYS

föstudagur, ágúst 25, 2006









Tottenham        Gegn      Everton


Laugardaginn 26 ágúst. Kl: 14:00 á WHL.


Everton
*Stofnað: Árið 1878 (undir nafninu St. Domingo fc.)
*Gælunafn:The Toffies (Karamellurnar)
*Heimavöllur: Goodison Park (rúmar 40.569 manns)
*Nágrannar: Liverpool
*Knattspyrnustjóri: David Moyes


Everton er eitt af þeim 12 liðum sem stofnuðu ensku deildarkeppnina árið 1888. Everton hefur um margt merkilega sögu. Þeir eru eina liðið á Englandi sem hefur verið yfir 100 ár (samamlagt) í efstu deild. Everton spiluðu fyrst um sinn á Anfield eða allt til ársins 1891. Þá keypti maður að nafni John Houlding Anfield. Hann ákvað að hækka leiguna á Anfield upp í 250 pund á ári. Þetta sættu Everton sig ekki við og ákváðu því að fara yfir á Goodison Park. Það vekur ómælda ánægju fyrir Evertonmenn að Liverpool skuli spila á gamla heimavelli þeirra og segja í gríni að Poolararnir geti fengið Goodison Park þegar þeir byggji nýjann leikvang.
Goodison Park
Goodison Park.

Everton
Á síðusta leiktímabili lenti Everton í 11 sæti eftir að hafa náð 4.sæti tímabilið áður. Everton voru að strögla allt síðasta tímabil og spiluðu leiðinlegann bolta. Þeir voru meðal þeirra liða sem skoruðu hvað fæst mörkin í deildinni. Þeir náðu aðeins að setj'ann 34 sinnum (ekki einusinni mark í leik).
     Everton byrjaði síðasta tímabil á forkeppni í CL á móti Villareal. Þeir töpuðu því einvígi og duttu þá niður í UEFA Cup. Þar mættu þeir Dinamo Bucharest og töpuðu því einvígi 5-2 samanlagt. Þar með lauk evrópuævintýri Everton það tímabilið. Það má því segja að tímabilið hafi verið vonbrigði allt frá upphafi.
     Við mættum Everton tvívegis á síðasta leiktímabili. Í fyrra skiptið mættum við þeim á heimavelli lau. 15 okt.
Tottenhamklúbburinn var með skipulagða ferð á þennann leik í tilefni 10 ára afmælis Tottenhamklúbbsins á Íslandi. Þar sáu þeir sem mættu okkar menn vinna Everton á WHL 2-0. Mido og Jenas skoruðu mörkin á 5 mínútna kafla í seinni hálfleik. Við unnum svo útileikinn 0-1.
     Þó svo að það sé margt okkur í hag í þessum leik skulum við ekki vanmeta Everton. Þeir hafa styrkt sig í sumar og því til stuðnings má geta þess að þeir hafa keypt markahrókinn Andy Johnson frá Crystal Palace. Þeir unnu Watford 2-1 á heimavelli í sínum fyrsta leik og gerðu svo jafntefli við Blackburn í vikunni á útivelli.

Liðsuppstilling í síðasta leik:
Hægri                                                       Vinstri
---------------------Howard--------------------------
Yobo--------Neville--------Stubbs------Naysmith
Carsley------Arteta------Osman--------Kilbane
-------------Beattie-------Johnson-------------------

Myndbönd
Ég hef nú ákveðið að brjóta odd af oflæti mínu og sleppa því að fara yfir síðasta sigurleik og koma með tvö myndbrot í staðinn. Það fyrra eru mörkin í 5-2 sigri okkar á Everton á nýársdag árið 2005.
Tottenham 5 - Everton 2
Seinna myndbrotið er líklega eitt fallegasta mark sem við höfum séð okkar menn skora á móti Everton
F. Kanoute

Tottenham
Fyrstu 20-30 mínúturnar í síðasta leik var ég gjörsamlega að missa mig yfir því hversu vel við vorum að spila. Það var ekki veikur punktur í liðinu okkar á þessum mínútum. Robbie Keane hækkaði standardinn all svakalega á þessum hálftíma. Nú er bara að vona að hann geti spilað fullann leik í svona formi. Ef Robbie getur spilað svona í heilt tímabil erum við pottþéttir í meistaradeildina. En það var ekki bara Keane sem var að spila vel þessar mínútur. Það var allt liðið í heild sinni að spila háklassa knattspyrnu. Seinni hálfleikur var hálfgerð vonbrigði eftir þessa frábæru byrjun. Við vorum ekki að spila neitt illa í seinni hálfleik en gæðamunurinn á fyrri og seinni hálfleik var svo mikill að maður varð hálf leiður á að horfa á okkur leggja 70% í leikinn.
     Að leiknum á laugardaginn. Við erum með alla leikmenn leikfæra nema King. Þannig að liðsuppstillingin ætti að vera keimlík því sem við höfum séð í undanförnum leikjum. Ég held að ég geti sagt það án hlutdrægni að sá mannskapur sem við höfum úr að velja fyrir þennann leik sé töluvert sterkari en leikmannalisti Everton. Þar sem ég hef verið frekar slakur í að giska á byrjunarliðið okkar í síðustu leikjum ætla ég að láta það vera í þetta sinn.

Af hverju munum við vinna?
VIÐ HÖFUM ALDREI TAPAÐ FYRIR EVERTON Á WHL Í ÚRVALSDEILDINNI!!!!

Við höfum aðeins tapað 2 fyrir Everton í 28 leikjum í úrvalsdeildinni!!!

Við getum því verið vongóðir fyrir leikinn. Það er enginn vafi í mínum huga að við vinnum Everton á laugardaginn. WHL er nánast óvinnandi vígi fyrir gesti og því getum við nánast bókað heimasigur.

COYS!


PS' Þessi upphitun var skrifuð undir mikilli tímapressu. Ég lofa alvöru upphitun fyrir leik okkar gegn Man U.......... og endilega skiljið eftir ykkur Komment ;-)

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Spurs 2 - Sheff. Utd. 0

Við unnum Blades 2-0 í leiknum í kvöld. Svolítið skondið að þessi leikur spilaðist nákvæmlega eins og síðasti leikur fyrir utan að nú var þetta okkur í hag. Við náum 2-0 forustu á fyrstu 20 mínútunum og erum betri aðilinn allann leikinn. Ég ætla ekkert að missa mig í neinum fagnaðarlátum. Við vorum nú ekki að rústa einhverju stórliðinu. Þessi úrslit voru náttúrulega bara krafa. Við vorum betri aðilinn og spiluðum vel. Robbie Keane var gjörsamlega stórkostlegur fyrsta hálftímann. Enginn leikmaður okkar var að spila verr en upp á 7 í einkun. Þó svo ég sé ekkert að missa mig er ég samt mjög ánægður með að við skulum hafa rifið okkur upp eftir síðasta leik. Nú er bara að vona að þessi leikur sé upphafið af einhverju enn stærra.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Upphitun Spurs - Blades









Tottenham gegn Sheffield Utd.



Þriðjudaginn 22. ágúst kl 19:00 á White Hart Lane



Saga Sheffield Utd.

Stofnað: Árið 1889

Gælunafn: The Blades (vegna sverðana á merkinu)

Heimavöllur: Bramall Lane(svipaður að stærð og WHL)

Nágrannar: Sheff. Wed.

Knattspyrnustjóri: Neil Warnock (frá árinu 1999)


Þar sem margir vita ekki mikið um þetta félag (þ.a.m ég) hef ég ákveðið að leggjast í sögubækur og lesa mér til um þetta félag.
Borgin Sheffield (í suður Yorkshire) er ein af mestu íþróttaborgum Englands. Sheffield er oft lýst sem höfuðborg knattspyrnunnar. Knattspyrnusagan þar nær allt aftur til 1793 þar sem spilað var 6 á móti 6. Heimavöllur Sheffield Utd Bramall Lane er líka einn af elstu íþróttaleikvöngum Englands. Bramall lane er byggður árið 1855 og var upphaflega krikketleikvangur. Fyrsti fótboltaleikurinn sem fór fram á þessum leikvangi var í desember árið 1862 þegar Sheffield utd. Cricket Club spilaði á móti Hallam. Þetta þótti á þeim tíma einn glæsilegasti völlur landsins og fjölmargir úrslitaleikir sem áttu að fara fram á hlutlausum velli voru leiknir á Bramall Lane. Sheffield utd. Cricket Club spiluðu fótbolta yfir vetrartímann til að halda sér í formi yfir vetrarhléið í Krikket. Þetta var ansi skrautlegur hópur. William "Fatty" Foulke var að sjálfsögðu sjálfkjörinn markmaður liðsins þar sem hann þótti fylla ágætlega út í það. William þessi var um 140kg. Þess má auk þess geta að Sheffield Utd Cricket Club var fyrsta íþróttafélagið til að nota nafnið United.
Árið 1889 var svo ákveðið að búa til alvöru fótboltalið upp úr Sheffield utd.Cricket Club. Þeir leikmenn sem voru í fótboltaliðinu en ekki í krikket liðinu gengu til liðs við Sheffield Utd Fc liðsins sem var aðeins fótboltalið. krikketliðið hélt þó áfram að spila fótbolta undir merkjum Sheffield Utd. CC yfir vetrartímann.
Það er rétt tæp öld síðan Sheff. Utd unnu sinn eina Englandsmeistaratitil. Á þessari öld hafa þeir alltaf verið svona jójó lið milli deilda. Tímabilið 1981-82 voru þeir að spila í fjórðu deildinni 9 tímabilum síðar voru þeir komnir í efstu deild. Þeir náðu að halda sér í efstu deild í 4 tímabil áður en þeir féllu 1994. Síðan þá hafa þeir verið í næst efstu deild þar til nú.


Sheffield Utd.

Sheff.utd hefðu nú eflaust kosið að byrja tímabilið á aðeins auðveldari nótum svona fyrirfram. Fyrstu tveir leikirnir eru á móti Lfc og Spurs. Sheffield mætti Liverpool á heimavelli sínum á laugardaginn. Fyrirfram hefði maður að sjálfsögðu veðjað á útisigur þar. Leikmenn Sheffield voru hinsvegar ekkert að sýna of mikla virðingu og stóðu í hárinu á Lfc allann leikinn. Flestir leikmenn Sheffield voru að spila sinn fyrsta úrvalsdeildarleik og stuðningsmenn liðsins voru að mæta á fyrsta úrvalsdeildarleik Sheffield í 12 ár. Stemmingin var því öll þeirra megin. Sheffield spiluðu leikkerfið 4-5-1 með Hulse fremstann.Sheffield komst yfir á 46 mínútu með skallamarki frá Hulse eftir aukaspyrnu. Robbie Fowler jafnaði svo metin úr umdeildri vítaspyrnu sem Gerrard fiskaði. Lokatölur 1-1. Það eru greinilega leikmenn þarna sem kunna eitthvað fyrir sér í fótbolta. Þeirra stærsta stjarna er Phil Jagielka. Jagielka þessi var valin besti leikmaður næstefstu deildar í fyrra. JagielkaÉg tók samt ekki mikið eftir honum en hann er svona sópari á miðjunni (líkt og Makelele). Þeir sem mér fannst standa sig hvað best voru David Unsworth (vinstri bakvörður), Chris Armstrong (ekki hinn eini sanni, hægri kanntur), Danny Webber (eldfljótur miðjumaður) og Hulse (framherjinn sem skoraði markið). Einnig er í þessu liði leikmaður sem kannski einhverjir þekkja. Keith Gillespie sem spilaði á tímabili með Man U. Fréttaþulirnir á Sky segja að Gillespie sé sá leikmaður í sögu Sheff. Utd sem oftast hefur komið inná sem varamaður.

Ég á fastlega von á því að Sheffield Utd spili sama kerfi með sama mannskap í leiknum gegn okkur.

Hægri                                                       Vinstri
-------------------Kenny----------------------------

Geary-------Bromby--------Morgan----Unsworth

Armstrong---Ilfil--Jagielka--Tonge--Webber

-----------------------Hulse---------------

Tottenham
Tímabilið byrjaði ekki jafn byrlega fyrir okkur og Sheff.Utd. Við vorum hreint út sagt arfaslakir á móti Bolton í okkar fyrsta leik. Það er alveg ljóst að leikmenn okkar verða að taka sig til í andlitinu fyrir þennann leik. Það er ljóst að ef við eigum ekki topp leik á þriðjudaginn munum við tapa fleirri stigum. Við erum sterkari en þeir á pappírunum, en fótbolti er ekki pappírsvinna. Okkar akkílesarhæll er að við eigum oft í miklum vandræðum með minni liðin.
      Nú skulum við aðeins færa okkur yfir á jákvæðari nótur. Það er ekki hægt að segja að fyrsta umferðin gefi góða mynd af því sem koma skal. Við sjáum það á leikjum eins og Sheff.Utd - Liverpool og Arsenal - Aston V. að þetta eru ekki marktækir leikir til að dæma um stöðu liða. Á laugardaginn kepptum við á móti liði sem tapaði aðeins 3 af 27 heimaleikjum sínum á síðasta tímabili. Við vorum ekki að keppa á móti neinum byrjendum í fótboltanum. Það er nokkuð ljóst að leikmenn Spurs munu ekki vilja spila annann svona leik fyrir framan stuðningsmenn sína á heimavelli. Þess vegna býst ég við heimasigri á þriðjudaginn.
     Ég á ekki von á að Jol breyti liðinu mikið á þriðjudaginn. Ég þó von á að Gardner komi inn í liðið á kostnað Davenport. Ég vona innilega að Tainio komi inn í liðið í stað annaðhvort Jenas eða Davids, en mig grunar að það verði þó ekki. Svona býst ég þá við að liðið líti út á Þriðjudaginn.
Hægri                                                        Vinstri

---------------Robinson-------------------

Lee-----Gardner--------Dawson-------Ekotto

Lennon---Jenas---------Zokora-------Davids

---------Berbatov------Defoe-------------

Því miður get ég ekki rifjað upp síðasta sigurleik þar sem það eru komin þó nokkuð mörg ár síðan hann fór fram og heimildir mínar ná ekki svo langt til baka.

Staðreyndir
Við höfum mætt Sheff.Utd.4 sinnum í úrvalsdeild og í þessum 4 leikjum hafa verið skoruð að meðaltali 4 mörk í leik.

Við höfum mætt Sheff.Utd 42svar á heimavelli okkar og:
Unnið 26
Tapað 6
jafnt 10
Þannig að tölfræðin er okkur í hag.

Við höfum einusinni spilað við Sheff.Utd á dagsetningunni 22 ágúst. Það var á heimavelli líkt og nú og unnum við leikinn 2-0.

Að lokum
Þó að við séum enn sárir eftir síðasta leik þá er alveg ástæða til þess að vera bjartsýnn fyrir leikinn. Við erum feiknar sterkir á heimavelli og Tottenham leikmennirnir munu leggja sig alla fram um að sína áhangendum sínum að síðasti leikur var aðeins feilspor. Ég er nokkuð öruggur allavega á að við vinnum þennann leik.

COYS!!!!!

laugardagur, ágúst 19, 2006

Bolton 2 - Tottenham 0

Fyrsti leikur okkar í deildinni boðar ekki gott. Það vantaði svona eitt og annað í okkur í dag.



*Við vorum 11 einstaklingar að spila á móti 11 manna liði. Bæta það.

*Það vantaði ákveðni í sóknarleikinn hjá okkur. Bæta það.

*Það vantaði ákveðni í miðjuna okkar. Bæta það.

*Það vantaði ákveðni í vörnina. Bæta það.

*Leikmönnum vantaði yfirsýn. Bæta það.

*Leikmenn voru ekki að koma með hlaup án bolta. Bæta það.

*Sendingarnar voru hugmyndasnauðar og ónákvæmar. Bæta það.

*Leikmenn voru að "hlaupa" of mikið úr stöðum sínum. Bæta það.

*Leikmenn sendu boltan nánast undantekningalaust í fæturna á Berbatov en gáfu háa skallabolta á Davids. Bæta það.

*Ekotto getur ekki séð bæði um varnar- og sóknarleikinn vinstrameginn. Bæta það.

*Það var enginn tilbúinn að taka af skarið og berja liðið saman á vellinum. Bæta það.

*Við nýttum föstu leikatriðin illa. Bæta það.

*Enginn leikmaður spilaði nógu vel til að verðskulda yfir 6 í einkun. Bæta það.



Fyrir utan þetta var þetta alveg sæmilegt hjá okkur. Við höfum alveg 3 daga til að leysa þessi vandamál þannig að það er ekkert að örvænta.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Bolton - Tottenham









Bolton      Gegn       Tottenham

Laugardaginn 19 ágúst kl 16:15 á Reebook stadium


Loksins!!! Fyrsti leikurinn er á næstu dögum. Ég held að sálfræðingar landsins megi nú alveg fara skoða þann möguleika að áhugi á enska boltanum gæti verið besta lausnin við skammdegisþunglyndi. Á sumrin getur maður vart beðið eftir vetrinum (leiktímabilinu). En nú loksins fer biðin að taka enda og spennan fer ört vaxandi. Við þurfum ekki að bíða lengi eftir fyrsta prófsteininum. Við erum að fara keppa við lið sem hefur okkur í heljargreipum á heimavelli sínum.


Bolton

Það ætti öllum að vera orðið ljóst að Bolton er ekki auðvelt viðureignar. Bolton hefur sannað sig sem lið sem á erindi í deild þeirra bestu. Þeir áttu gott tímabil í fyrra og enduðu í 8. sæti deildarinnar og stóðu sig ágætlega í Uefa keppninni. Þrátt fyrir góðan árangur undanfarin ár ætla ég samt að spá þeim slöku gengi í ár. Ég á von á að þeir verði fyrir neðan miðju í lok tímabilsins. Ástæðan er sú að þeir hafa ekki verið duglegir í leikmannakaupum þrátt fyrir að hafa misst nokkra góða leikmenn. Þeir hafa m.a misst menn eins og Matt Jensen, Fadiga, N'Gotty, Okocha og Nakata sem ákvað að leggja skóna á hilluna 29 ára gamall. Þeir hafa bætt við sig Fortune og Meite (veit ekkert um hann nema hann var svona sæmilegur í frönsku deildinni í fyrra). Því held ég að mér sé óhætt að segja að þeir eru með veikara lið en í fyrra. Því til stuðnings má geta þess að Bolton hafa verið gjörsamlega hörmulegir á undirbúningstímabilinu og tapað öllum 4 leikjum sínum á undirbúningstímabilinu (skv. SSN). A Faye, H Pedersen, N Hunt, R Gardner eru meiddir og geta samkvæmt mínum heimildum ekki tekið þátt í leiknum. Þarna eru nokkrir sterkir leikmenn sem Bolton mun sakna sárt á laugardaginn. J O'Brien, K Davies, S Giannakopolous eru allir spurningamerki fyrir leikinn. Þetta eru að mínu mati 3 af 5 bestu leikmönnum Bolton og það mun vera risa stórt skarð í liði þeirra ef þeir ná ekki að jafna sig fyrir leikinn. Hvernig sem þessi meiðslamál fara hjá þeim megum við eiga von á erfiðum leik. Bolton liðið mun ekki gefa tommu eftir í þessum leik.


Tottenham

Hlutirnir eru í aðeins bjartara ljósi í herbúðum okkar þessa dagana. Okkur hefur gengið afskaplega vel á undirbúningstímabilinu okkar og unnið hvert stórliðið af fætur öðru. Við erum nokkra nýja menn í okkar herbúðum sem hafa verið að smella glymrandi vel inn í liðið á undirbúningstímabilinu. Berbatov hefur verið iðinn við að koma boltanum í markið og Ekotto hefur verið hreint út sagt frábær undanfarna leiki. Zokora virðist ætla að vera fljótur að finna fjölina einnig. Fyrir söluna á Carrick var markmiðið að komast í meistaradeildarsætið þetta tímabilið. Ég átti þá helst von á að við myndum halda Man U. fyrir utan hana en nú þegar við höfum styrkt lið Man U held ég að krafan sé að ná minnst 5. sætinu aftur. Meistaradeildarsætið er samt ekkert óhugsandi og innst inni er það það sem maður dreymir um. Það er alveg vel hugsandi að við gætum komist í 4. sætið á kostnað Arsenal þar sem að vörnin þeirra er spurningamerki. Það eru líka skörð hoggin í lið Spurs í þessum fyrsta leik okkar. King er að jafna sig eftir uppskurð og Keane er meiddur og litlar líkur á að hann spili leikin eftir því sem ég kemst næst, einnig eru Reid, Tainio og Routhledge tæpir.


Liðsuppstilling Spurs

Þetta eru bara pælingar úr mínu höfði og líklega verða liðin eitthvað öðruvísi.

Tottenham

Hægri                                                 Vinstri

                                  Robinson

Lee          Dawson          Davenport            Ekotto

Lennon            Jenas            Zokora            Davids

                        Defoe            Berbatov

Treysti mér ekki til að gera liðsuppstillingu Bolton á þessari stundu þar sem ég hef enga alvöru viðmiðun. Ég mun samt reyna að gera liðsuppstillingu andstæðinganna skil í upphitunum þegar líður á tímabilið og ég átta mig á hvaða leikkerfi og leikmenn liðin hafa notast við í síðustu leikjum.


Fyrri viðureignir

Eins og hefur komið fram höfum við ekki riðið feitum hesti frá Reebok Statium undanfarin ár. Við höfum ekki unnið deildarleik gegn Bolton á útivelli í 10 ár (tapað 5 af 6 leikjum okkar og eitt jafntefli). Við eigum nú harma að hefna frá síðustu heimsókn okkar til Bolton. Þeim leik töpuðum við 1-0. Í þeim leik var við ofurefli að etja. Línuvörður leiksins hefur líklega lagt mikið undir Boltonsigur í þessum leik. Ég tók upp þennann leik og ákvað að horfa á hann aftur bara til að skoða dóma línuvarðarins. Það var einn dómur sem var vafaatriði og ég ætla að láta línuvörðinn njóta vafans þar, restin voru rangar ákvarðanir. Hann meira að segja tók fullkomnlega löglegt mark af Defoe. Við unnum svo heimaleikinn á móti Bolton 1-0.

Ég hef það fyrir sið að rifja upp einn sigurleik í hverri upphitun og ég mun ekki breyta því.


Whorthngton Cup 11 des 2001


Tottenham 6 – Bolton 0

Viku fyrir þennan leik höfðum við spilað á móti Bolton í deildarkeppninni og unnið 3-2 á WHL. Bolton hvíldi nokkra af byrjunarliðsmönnum sínum í þessum leik, þar á meðal Guðna. En Tottenham ætlaði sér sigur og tefldi fram sínu sterkasta liði. Við byrjuðum leikinn vel og sóttum stíft að marki Bolton. Á 21 mín. byrjaði svo markaregnið. Simon Davies skoraði fallegt mark og staðan 1-0. Ferdinand var aðeins viku frá 35 ára afmæli sínu og ákvað að sýna kjúklingunum að aldur er svo sannarlega afstæður. Hann fullkomnaði þrennuna á aðeins 9 mínútum. Hann skoraði á 29,30 og 38 mín. og staðan í leikhléi 4-0. Hoddle ákvað þá að taka hann útaf í hálfleik. Í síðari hálfleik skoraði svo John Barness sjálfsmark og Iversen rak smiðshöggið á stórsigri Tottenham. Til marks um yfirburði Spurs í leiknum sást Neil Sullivan halla sér nokkrum sinnum upp að tréverkinu til að láta fara betur um sig meðan hann horfði á leikinn. Þegar áhorfendur voru að týnast af vellinum syngjandi og stoltir og hugsuðu með sér þessi dagur getur ekki batnað. Þá glumdi í kallkerfinu úrslit úr öðrum leik BLACKBURN 4 – ARSENAL 0. Það brjálaðist allt á vellinum! Seinna á tímabilinu unnum við svo Bolton í FA bikarnum 4-0.

Hoddle stillti upp í 3-5-2 og skipaði stöður á eftirfarandi vegu:

--------------------Sullivan------------
--------------King----Perry----Gardner--------
Davies-----Freund----Andreton----Poyet-----Taricco
-------------Sheringham----Ferdinand-------


Tölfræði og staðreyndir

Viðureignir frá upphafi PL
Bolton 6

Spurs 5

Jafnt 3


Við höfum spilað 14 leiki á dagsetningunni 19 ágúst og
Unnið 8

Tapað 4

Jafnt 2


Við höfum leikið alls 87 leiki við Bolton og aðeins einusinni hafa leikmönnum ekki tekist að skora, það var tímabilið 1923-24 þannig að við meigum eiga von á marki/mörkum.


Að lokum
Þó svo að tölfræðin sé okkur ekki í hag í þessum leik er ástæða til bjartsýni. Getumunurinn hefur sjaldan verið jafn mikill og nú á liðunum. Við erum á fljúgandi siglingu á meðan hvorki gengur né rekur hjá Bolton. Ef ég ætti að leggja aleiguna undir þennann leik myndi ég ekki hika við að setja allt á útisigur. Ég ætla að vera raunsær og spá leiknum 0-2.

COYS

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Óleyst vandamál

Ég er á þeirri skoðun að tímabilið í fyrra hafi verið allt í lagi tímabil fyrir okkur. Framfarir á sumum sviðum, staðnaðir á öðrum sviðum og svo var líka afturför á sumum sviðum. Framfarirnar eru að sjálfsögðu árangur okkar í deildinni og þ.a.l evrópukeppni í ár. En við rituðum okkur líka á spjöld sögunar sem það lið í úrvalsdeild sem hefur átt lélegasta bikartímabilið.

Eftir tímabilið var það hlutverk klúbbsins að hlúa að því sem vel var gert og bæta það sem miður fór. Ef við teljum upp hvað vantaði í hópinn í fyrra var það þetta:

1)Stór framherji í toppklassa.
2)Minnst einn vinstri kanntmaður.
3)Góðann varnarmann sem backup fyrir Daws og King.

Þetta voru augljósustu vandamálin. Þetta átti maður von á að væri farið strax í að redda. Svo náttúrulega átti maður alveg von á að fá menn í hinar og þessar stöður (t.d hægri bakvörðinn) til að styrkja hópinn fyrir komandi tímabil þar sem að stefnan er sett hærra en að tapa báðum bikarleikjunum.

Hvað hefur svo verið gert í sumar til að leysa þessi vandamál?

1)Erum við með tvo stóra framherja í toppklassa?
2) Erum við búnir að kaupa toppklassa vinstri kanntmann?
3)Erum við búnir að kaupa toppklassa backup fyrir Daws og King?

Ég er ekki enn búinn að sjá nein vandamál leyst í sumar. Nú er ég alls ekki að gera lítið úr þeim leikmönnum sem hafa komið í sumar. Berbatov lítur rosalega vel út á undirbúningstímabilinu og ef Ekotto heldur áfram að spila eins og hann hefur verið að gera erum við komnir með einn besta vinstri bakvörð í deildinni í dag. Ég geri ráð fyrir að Zokora sé ágætis leikmaður líka. En þeir eru ekki að leysa þau vandamál sem voru á síðasta tímabili.

Berbatov getur að öllum líkindum fyllt skarð Mido í sókninni. En hver á að vera stóri framherjinn okkar ef Berbatov skildi nú lenda í slæmum meiðslum og vera frá í nokkra mánuði? Mér finnst það algjört lykilatriði að við höfum alltaf möguleika á að setja inn stórann mann í sóknina. Einhæfur sóknarleikur er ekki leiðin að árangri fyrir okkur.

Vinstri kanntmaður var okkar stærsta vandamál í fyrra. Það er algjörlega fáránlegt að ekki hafi verið lögð meiri áhersla á að leysa þetta vandamál í sumar.

Okkur vantar líka varamann fyrir King og Daws. King er mikið meiddur og þó Dawson hafi verið nánast meiðslalaus í fyrra þá á hann mikla meiðslasögu að baki sér. Ég vill bara alls ekki sjá Gardner spila annann leik í Spurstreyju. Að mínu áliti er Gardner mjög óheiðarlegur leikmaður og mjög klaufskur. Hann er ungur en langt frá því að vera efnilegur. Ef eitthvað er finnst mér hann fara versnandi með hverju árinu. Hann sýndi það líka í fyrra að þetta er ekki leikmaður sem við viljum treysta mikið á.

Það eru bara rúmar tvær vikur sem við höfum til að kaupa leikmenn. Ég er ekki að sjá okkur komast í 8 liða úrslit í Uefa og ná meistaradeildarsætinu (bara mínar væntingar) með þessi vandamál óleyst. Auðvitað getur Jol reddað sér með því að setja menn í stöður sem þeir eru ekki vanir að spila og svoleiðis, en það mun ekki skila tilætluðum árangri. Ef ekkert verður aðhafst í þessum málum fyrir tímabilið mun ég líta á það sem metnaðarleysi.

Ég vill minna menn á sem eru nú að farast úr bjartsýni vegna undirbúningstímabilsins að það endurspeglar ekki raunveruleigan styrk okkar. Á síðasta undirbúningstímabili unnum við lið eins og Lyon og gerðum jafntefli við Bocca Juniors. En þegar við mættum stórliðunum í deildinni var lítið um sigra. Við unnum engan leik á móti toppliðunum 4. Í raun unnum við aðeins 4 leiki af 18 á móti liðunum í topp 10. Þannig að undirbúningstímabilið er ekki góður mælikvarði á styrkleika liða.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

Leikaraskapur

Það er ekki mikið að gerast hjá Spurs núna. Ég horfði aðeins á leikinn gegn Dortmund og fannst það sem ég sá vera leiðinlegt. Ég vill helst kenna þulunum um það. Þeir möluðu út í eitt allann leikinn á þýsku.

Ég horfði hinsvegar á Man U - Porto á föstudaginn. Þar voru "Rooney Toons" og Scholes reknir af velli með "beint" rautt spjald. Bæði brotin réttlættu spjöldin. Ferguson var hinsvegar ekki á sama máli eins og sjá má á þessari frétt (fótbolti.net). Þarna talar Ferguson mikið um að leikaraskapur sé að eyðileggja leikinn. Þetta segir hann á sama tíma og hann er að reyna halda Ronaldo hjá félaginu. Það er einhver hræsni við þessi ummæli hans. Ég held að flestir séu sammála um að Ronaldo sé með einhverja mestu brauðfætur í boltanum í dag. Brotið sem Ferguson er að tala þarna um sem varð þess valdandi að Rooney fékk að líta rautt. Var kannski ekkert ljótt brot þannig séð. Hann stekkur upp í skallabolta og slær klárlega viljandi í andlit andstæðingsins. Maður gat séð að þetta var viljandi vegna þess að hendin stóð of útrétt við höggið. Leikmaðurinn (fórnarlambið) gerði sitt til að láta þetta líta eins illa út og mögulegt væri en engu að síður var þetta ásetningsbrot og það verðskuldar rautt.

Talandi um leikaraskap og Ronaldo, þá velti ég þessu mikið fyrir mér á meðan HM stóð. Ég hef alltaf verið mikið á móti leikaraskap í fótboltanum og er enn. Ég skildi það samt allt í einu á HM að leikaraskapur er hluti af leiknum og verður að vera það að einhverju leiti.

Þegar ég var krakki svona um 4-5 ára var það leikur á leikskólanum mínum að fara uppá hól þar sem átti sér stað þykjustu skotleikur. Leikurinn snérist um að fara upp á hólinn þar sem við áttum að hafa verið skotin og sá sem gæti látist á sem raunverulegasta mátann vann. Það var mikið um leikræna tilburði og menn veltu sér marga hringi og tóku kollhnýsa og fleirra niður hólinn með tilheyrandi dauðaöskrum. Yfirleitt var það nú dramatískasti dauðdaginn sem var fyrir valinu. Einhvernveginn finnst mér eins og sumir fótboltaleikmenn hafi dottið það í hug að blanda þessu inn í fótboltann. Stundum fannst mér eins og Portúgal á HM væri með fótboltaleikara í liðinu, svona combo af leikurum og fótboltamönnum. Dramatíkin var stundum yfirþyrmandi. Þegar ég tala um að leikaraskapur sé stundum hluti af leiknum er þetta ekki það sem ég á við, eða hvað?

Af hverju þarf leikaraskapur að vera hluti af leiknum?
Ég sá líka önnur lið en Portúgal á HM. Í þeim liðum voru ekki allir með brauðfætur. Eitt atriði er mér í fersku minni. Ég man að það var Þýskaland og eitthvað annað lið að keppa. Leikmaður Þýskalands var kominn í skyndisókn og var sloppinn innfyrir. Varnarmaður hins liðsins kemur á harðaspretti til baka og reynir skriðtæklingu. Hún heppnaðist ekki betur en svo að hann rétt náði að snerta fæturna á sóknarmanninum. Sóknarmaðurinn er rétt fyrir utan vítateig og reynir að standa þetta af sér en nær ekki nógu góðu jafnvægi svo að markmaðurinn nær boltanum. Það var ekkert dæmt á þetta brot (sem er klárlega brot). Ég er hinsvegar handviss um að ef hann hefði hent sér niður í stað þess að reyna standa þetta af sér þá hefði hann fengið aukaspyrnu, og jafnvel rautt spjald á varnarmanninn. Það hefði auðvitað verið leikaraskapur að detta.En dómarinn sér kannski ekki þessa litlu snertingu nema hún sé sett úr samhengi með góðum leikrænum tilburðum. Þess vegna finnst mér að það sé í sumum tilvikum í lagi að leika smá til að ná athygli dómarans. Ég fór að taka eftir því að svona brot sem leikmenn reyndu að standa af sér er sjaldnast dæmt á. Þannig að í raun eru dómarar að ýta undir leikaraskap. Leikmenn verða því að ákveða hverju sinni hvort þeir vilji reyna að standa brotið af sér og gefa þá frá sér auka/vítaspyrnuna eða láta sig detta og þyggja hana.

Svo er til önnur gerð af leikaraskap. Þetta er leikaraskapur sem allir vilja sjá úr leiknum. Þetta er leikaraskapurinn þar sem leikmenn henda sér niður án þess að komið sé við þá. Þetta eru hlutir sem verða til þess að oft verður maður reiður og pirraður að horfa á leiki. Ég vill sjá 6 leikja bann við svona hegðun. Aganefndin á að horfa á upptökur eftir leiki og senda menn umsvifalaust í langt bann við að reyna skemma leikinn. Þetta verður að vera forgangsmál í boltanum í dag. Sem betur fer sá ég ekkert svona atvik hjá okkar mönnum í fyrra og er stoltur af okkar mönnum fyrir það.

Svo er þriðja gerðin samanbland af þessu tvennu. Leikmenn sem ákveða að detta við lítið brot og þykjast meiddir. Það eru tvær hliðar á þessu. Önnur er sú að leikurinn er mjög hraður í dag. Leikmenn liggja oft niðri og biðja um sjúkraliðana til þess að leikmenn geti kastað mæðinni og fengið sér vatn. En þegar maður situr á barnum með drykkinn og horfir á leikinn er maður oft harður og skilur ekki svona aumingjaskap.
En það er líka önnur ástæða fyrir þessari hegðun. Menn gera þetta stundum til að fiska spjöld. "Fórnarlömbin" láta þessi litlu brot líta út eins og líkamsárás í þeirri von um að dómarinn sjái þetta jafn dramantískum augum og "fórnarlambið". Þetta er náttúrulega eitthvað sem við viljum líka sjá úr boltanum. Það er skrýtið þegar maður horfir á 22 karlmenn spila fótboltaleik er mikið meira drama í kringum öll brot en í leik þar sem 22 kvenmenn spila leik. Prófið að horfa á kvenaleik á næstunni og sjáið hvað þær eru mikið harðari en margir leikmenn í ensku deildinni.

Niðurstaðan er þá sú að leikaraskapur á rétt á sér svo lengi sem hann er bara til að vekja athygli á brotinu. En þegar leikmenn eru að leika til að fá eitthvað dæmt sem þeir eiga ekki skilið er það það leiðinlegasta sem maður sér.

Þetta er allavega mín skoðun á þessu máli öllusaman.

föstudagur, ágúst 04, 2006

Flöskudagshúmor

Já Arsenal er nú að reyna að finna mann sem getur tekið við af Lehmann í markinu. Fréttir herma að hann sé nú fundinn. Eftir að hafa séð myndbrot frá þessum markmanni á Wenger víst að hafa látið félagslið hans hafa ávísun með óútfylltri upphæð. Þetta þýðir að Wenger er tilbúinn að borga hvað sem er fyrir hann og ætlar því að láta núverandi félagslið markmannsins ákveða upphæðina sjálfir og fylla út ávísunina eftir því. Wenger sagði við blaðamenn að markmaðurinn hefði nákvæmlega þá hæfileika sem hann leitaði eftir og smellpassaði inn í leikstíl liðsins. Eftir smá rannsóknarvinnu komst ég að því hvaða myndbrot hann sá af markverðinum. Hér er myndbrotið

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Pascal Chimbonda

Hérna er eitt nafn sem ég er orðinn ansi þreyttur á að heyra "Chimbonda". Ég vona svo innilega að þær fréttir um að Spurs hafi nú ákveðið að hætta við kaupin séu sannar. Chimbonda (sem ég kalla hér eftir PC) er líklega fjári góður leikmaður. Hann komst meðal annars í draumaliðið á síðustu leiktíð. Þótt hann hafi ekki sannfært mig í þeim 4 leikjum sem ég sá hann er hann líklega leikmaður sem myndi styrkja Spurs.

Af hverju er ég þá ánægður með að Spurs séu líklega hættir við? Jú, ég fæ reglulega flashback þegar ég velti þessu fyrir mér. Þarna er um að ræða leikmann sem við höfum verið á eftir í nokkra mánuði. Muna ekki allir eftir eitthverju svipuðu í fyrra sumar? Hringir nafnið Dirk Kuyt einhverjum bjöllum? Þar var leimaður sem við reyndum allt sumarið að ná í. Við reyndum svo mikið að við gleymdum að hugsa það til enda ef hann kæmi nú ekki. Svo kom á daginn rétt fyrir lokun leikmannamarkaðarins að hann myndi ekki koma. Þá fór allt í háa loft og the amazing race í leit að stórum framherja var sett í gang. Við þurftum að sætta okkur við pólskan leikmann að nafni Raziak til að verða okkar fjórði framherji. Þetta má bara ekki gerast aftur!!!

Ef við fáum PC núna er ég ánægður. Ég vill samt ekki sjá Levi, Comolli og Jol setja öll eggin í sömu körfuna. Nú verða þeir að segja "við erum búnir að reyna í 2 mánuði og ekkert hefur gerst. Við verðum að snúa okkur að öðrum möguleikum". Þetta er ástæða þess að ég vona að fréttirnar um að Spurs hafi endað þennann skrípaleik séu sannar, en ekki vegna þess að ég vilji ekki PC. Spurning hvort við snúum okkur að Gallas? ;)

Var salan á Carrick góður díll?

Jæja önnur færsla um Carrick. Ég má til þar sem Carrick er nú búinn að skrifa undir. Nú hefur margt skýrst í þessum málum öllum og reiðin runnin af mér. Við seldum Carrick fyrir 16 millj £ sem geta hækkað (og munu að öllum líkindum hækka) upp í 18,4 millj £. Það hefur líka komið í ljós að West Ham fá ekkert af þeim peningum.

Nú hef ég ekki heyrt neinn Spursara segjast vera óánægður með þetta. Þannig að ég sit uppi einn með þá skoðun. Tottenhammenn segja að þetta sé meiri peningur en þeir gátu látið sig dreyma um að fá fyrir Carrick og að við séum með Zokora sem geti fyllt skarðið hans Carricks og svo framvegis. Menn eru líka svo ánægðir yfir klókindum Levi að hafa ekki viljað taka það í mál að hafa söluprósentu í kaupsamningnum.

Ég vill hinsvegar meina að góður díll hefði verið ef Man U hefði keypt hann á minnst 30 millj £. Mér sýnist allir vera að gleyma því að Man U, Arsenal, Liverpool og Chelsea hafa verið að hirða meistaradeildarsætin undanfarin ár. Við vorum svo nálægt því í fyrra að komast inn og komandi tímabil er/var okkar tækifæri. Hugsunin við að veikja liðið okkar og styrkja eitthvert þessara liða meikar ekki sens fyrir mér. Ef Carrick hefði farið erlendis fyrir 15 milljónir hefði ég verið fullkomnlega sáttur. En ef við komumst ekki í meistaradeild að ári getum við reiknað með að við missum af tekjum upp á c.a 15 milljónir (hef ég heyrt nefnt). Á meðan við erum ekki í meistaradeild mun það líka reynast okkur erfitt að ná í stórstjörnur og því myndi ég ætla að 18.4 milljónir séu bara ekkert svo góður díll. Þetta var skref aftur á bak. Ef Jol tekst ekki að ná í menn sem eru í toppklassa fyrir tímabilið verður þetta þungur róður fyrir okkur. Ég verð samt að éta öll þessi orð ofan í mig "big time" ef við náum Cl á næstu leiktíð. Ég er bara ekki að sjá það gerast.

Varðandi söluprósentuna sem West Ham fær ekki verð ég að segja að ég sárvorkenni þeim. Mér finnst þetta rosalega hart fyrir þá. Á sínum tíma var Carrick að verða samningslaus hjá West Ham. Carrick var í viðræðum um nýjann samning hjá Hömrunum þegar Spurs sýnir áhuga. Líkt og nú sá Carrick eitthvað glitra og ekki var aftur snúið. West Ham var þá milli steins og sleggju. Þeir gátu ekki farið fram á mikinn pening og höfðu lélegann samningsgrundvöll. Ef þeir myndu fæla Spurs frá samningsborðinu var hætta á að Carrick myndi fara frítt. Spurs vissu þetta líklega og settu W.H líklega afarkosti. Þeir neituðu að kaupa hann með klásúlu um framtíðar söluprósentu. West Ham þurfti að kyngja því vegna lélegrar samningstöðu og þurfa nú að horfa upp á þetta. Ég sárvorkenni öllum West Ham mönnum.