sunnudagur, ágúst 06, 2006

Leikaraskapur

Það er ekki mikið að gerast hjá Spurs núna. Ég horfði aðeins á leikinn gegn Dortmund og fannst það sem ég sá vera leiðinlegt. Ég vill helst kenna þulunum um það. Þeir möluðu út í eitt allann leikinn á þýsku.

Ég horfði hinsvegar á Man U - Porto á föstudaginn. Þar voru "Rooney Toons" og Scholes reknir af velli með "beint" rautt spjald. Bæði brotin réttlættu spjöldin. Ferguson var hinsvegar ekki á sama máli eins og sjá má á þessari frétt (fótbolti.net). Þarna talar Ferguson mikið um að leikaraskapur sé að eyðileggja leikinn. Þetta segir hann á sama tíma og hann er að reyna halda Ronaldo hjá félaginu. Það er einhver hræsni við þessi ummæli hans. Ég held að flestir séu sammála um að Ronaldo sé með einhverja mestu brauðfætur í boltanum í dag. Brotið sem Ferguson er að tala þarna um sem varð þess valdandi að Rooney fékk að líta rautt. Var kannski ekkert ljótt brot þannig séð. Hann stekkur upp í skallabolta og slær klárlega viljandi í andlit andstæðingsins. Maður gat séð að þetta var viljandi vegna þess að hendin stóð of útrétt við höggið. Leikmaðurinn (fórnarlambið) gerði sitt til að láta þetta líta eins illa út og mögulegt væri en engu að síður var þetta ásetningsbrot og það verðskuldar rautt.

Talandi um leikaraskap og Ronaldo, þá velti ég þessu mikið fyrir mér á meðan HM stóð. Ég hef alltaf verið mikið á móti leikaraskap í fótboltanum og er enn. Ég skildi það samt allt í einu á HM að leikaraskapur er hluti af leiknum og verður að vera það að einhverju leiti.

Þegar ég var krakki svona um 4-5 ára var það leikur á leikskólanum mínum að fara uppá hól þar sem átti sér stað þykjustu skotleikur. Leikurinn snérist um að fara upp á hólinn þar sem við áttum að hafa verið skotin og sá sem gæti látist á sem raunverulegasta mátann vann. Það var mikið um leikræna tilburði og menn veltu sér marga hringi og tóku kollhnýsa og fleirra niður hólinn með tilheyrandi dauðaöskrum. Yfirleitt var það nú dramatískasti dauðdaginn sem var fyrir valinu. Einhvernveginn finnst mér eins og sumir fótboltaleikmenn hafi dottið það í hug að blanda þessu inn í fótboltann. Stundum fannst mér eins og Portúgal á HM væri með fótboltaleikara í liðinu, svona combo af leikurum og fótboltamönnum. Dramatíkin var stundum yfirþyrmandi. Þegar ég tala um að leikaraskapur sé stundum hluti af leiknum er þetta ekki það sem ég á við, eða hvað?

Af hverju þarf leikaraskapur að vera hluti af leiknum?
Ég sá líka önnur lið en Portúgal á HM. Í þeim liðum voru ekki allir með brauðfætur. Eitt atriði er mér í fersku minni. Ég man að það var Þýskaland og eitthvað annað lið að keppa. Leikmaður Þýskalands var kominn í skyndisókn og var sloppinn innfyrir. Varnarmaður hins liðsins kemur á harðaspretti til baka og reynir skriðtæklingu. Hún heppnaðist ekki betur en svo að hann rétt náði að snerta fæturna á sóknarmanninum. Sóknarmaðurinn er rétt fyrir utan vítateig og reynir að standa þetta af sér en nær ekki nógu góðu jafnvægi svo að markmaðurinn nær boltanum. Það var ekkert dæmt á þetta brot (sem er klárlega brot). Ég er hinsvegar handviss um að ef hann hefði hent sér niður í stað þess að reyna standa þetta af sér þá hefði hann fengið aukaspyrnu, og jafnvel rautt spjald á varnarmanninn. Það hefði auðvitað verið leikaraskapur að detta.En dómarinn sér kannski ekki þessa litlu snertingu nema hún sé sett úr samhengi með góðum leikrænum tilburðum. Þess vegna finnst mér að það sé í sumum tilvikum í lagi að leika smá til að ná athygli dómarans. Ég fór að taka eftir því að svona brot sem leikmenn reyndu að standa af sér er sjaldnast dæmt á. Þannig að í raun eru dómarar að ýta undir leikaraskap. Leikmenn verða því að ákveða hverju sinni hvort þeir vilji reyna að standa brotið af sér og gefa þá frá sér auka/vítaspyrnuna eða láta sig detta og þyggja hana.

Svo er til önnur gerð af leikaraskap. Þetta er leikaraskapur sem allir vilja sjá úr leiknum. Þetta er leikaraskapurinn þar sem leikmenn henda sér niður án þess að komið sé við þá. Þetta eru hlutir sem verða til þess að oft verður maður reiður og pirraður að horfa á leiki. Ég vill sjá 6 leikja bann við svona hegðun. Aganefndin á að horfa á upptökur eftir leiki og senda menn umsvifalaust í langt bann við að reyna skemma leikinn. Þetta verður að vera forgangsmál í boltanum í dag. Sem betur fer sá ég ekkert svona atvik hjá okkar mönnum í fyrra og er stoltur af okkar mönnum fyrir það.

Svo er þriðja gerðin samanbland af þessu tvennu. Leikmenn sem ákveða að detta við lítið brot og þykjast meiddir. Það eru tvær hliðar á þessu. Önnur er sú að leikurinn er mjög hraður í dag. Leikmenn liggja oft niðri og biðja um sjúkraliðana til þess að leikmenn geti kastað mæðinni og fengið sér vatn. En þegar maður situr á barnum með drykkinn og horfir á leikinn er maður oft harður og skilur ekki svona aumingjaskap.
En það er líka önnur ástæða fyrir þessari hegðun. Menn gera þetta stundum til að fiska spjöld. "Fórnarlömbin" láta þessi litlu brot líta út eins og líkamsárás í þeirri von um að dómarinn sjái þetta jafn dramantískum augum og "fórnarlambið". Þetta er náttúrulega eitthvað sem við viljum líka sjá úr boltanum. Það er skrýtið þegar maður horfir á 22 karlmenn spila fótboltaleik er mikið meira drama í kringum öll brot en í leik þar sem 22 kvenmenn spila leik. Prófið að horfa á kvenaleik á næstunni og sjáið hvað þær eru mikið harðari en margir leikmenn í ensku deildinni.

Niðurstaðan er þá sú að leikaraskapur á rétt á sér svo lengi sem hann er bara til að vekja athygli á brotinu. En þegar leikmenn eru að leika til að fá eitthvað dæmt sem þeir eiga ekki skilið er það það leiðinlegasta sem maður sér.

Þetta er allavega mín skoðun á þessu máli öllusaman.

Engin ummæli: