Það hefur nú gerst það sem ég óttaðist, en vonaði að myndi aldrei gerast. Stuðningsmenn Spurs eru margir hverjir dottnir niður á það lága plan sem oft hefur einkennt stuðningsmenn Liverpool. Nú er ég að tala um íslenska stuðningsmenn og ekki alla sem einn.
Þetta fylgir oft góðum árangri tímabilsins á undan. Stuðningsmenn verða gráðugir og búast við að nú komi risastórt stökk upp á við. Það muna kannski einhverjir eftir því þegar Liverpool tókst hið ómögulega. Þeir unnu meistaradeildina þrátt fyrir að þeir hafi verið það lið í Englandi og líklega meistaradeildinni líka sem áttu við hvað mest meiðslavandræði að stríða. Þeir unnu svo úrslitaleikinn með einhverjum dramatískasta hætti sem hægt er að hugsa sér. Fyrir tilstilli þessa afreks mun ég alltaf virða Liverpool FC. Svo byrjaði næsta tímabil og þegar aðeins 10 deildarleikir voru búnir af tímabilinu voru margir af þeirra áðdáendum (minni enn og aftur á að ég er að tala um íslensku aðdáendurna) farnir að heimta uppsökn Benitez þar sem liðið var ekki að vinna alla sína leiki. Þeir vildu sjá hæfari þjálfara taka við. Þessi hópur fólks sem kallaði sig aðdáendur Liverpool fékk mig til að missa nánast allt álit á þeim öllum. Þvílík hneysa og heimska. Þarna voru þeir með þjálfara sem gerði kraftaverk, svo stórt kraftaverk að Liverpool hefðu átt að bjóða honum æviráðningu.
Ég hef nú gert mér grein fyrir því að það er alltaf þessi vanþakkláti hópur aðdáenda til í hverju félagi. Hann virðist hinsvegar vera ógnarstór og áberandi hjá Liverpool. Á þessu tímabili hefur þetta að sjálfsögðu haldið áfram hjá þeim. Í byrjun gekk illa hjá Liverpool í deildinni. Maður þurfti ekki að bíða lengi eftir að menn vildu aftur sjá Benitez hverfa frá störfum. Þessi hópur að sjálfsögðu þagnar alltaf jafn skjótt og vel gengur, en eru jafnfljótir að gleyma velgengninni ef leikur tapast. Þetta á ekki aðeins við um þjálfarann. Ef leikmaður á slæman leik er þessi hópur tilbúinn að ata leikmanninn skít og krefjast þess að nýr leikmaður verði keyptur í staðinn. Hlægjilegasta dæmið hvað þetta varðar var í fyrra þegar umræða hóps Liverpoolmanna um að Reyna markvörður væri ekki nægjilega góður og vildu fá annað hvort Dudek eða nýjann markvörð. Þetta er auðvitað hlægilegt af þeim ástæðum að Reyna stóð sig mjög vel á síðasta tímabili og var m.a sá markvörður sem náði að halda hreinu markinu í flestum leikjum. Hann hélt minnir mig hreinu í 20 af 35 leikjum sínum. How much is enough?
Nú er ég ekki að segja að aðdáendur eigi bara að brosa falsbrosi þegar illa gengur. Að sjálfsögðu er hluti af leiknum að hafa skoðun á hlutunum. Það má auðvitað gagnrýna það sem manni finnst hafa mátt gera betur og þar fram eftir götunum. En gagnrýnin verður þá líka að vera réttmæt. Það sér það hver maður að þessi hegðun þessa hóps stuðningsmanna Liverpool er auðvitað ekki réttmæt. En ég vill ljúka umræðu minni um Liverpool með að benda á að það eru ekki allir stuðningsmenn þeirra hér á Íslandi sem haga sér svona. Það eru fjölmargir þeirra sem standa við bakið á leikmönnum og þjálfara sinna manna, jafnvel þó hlutirnir séu ekki að ganga upp á akkúrat þeim tímapunkti. Þeir stuðningsmenn hljóta virðingu fyrir mínum augum.
Nú víkur sögunni að Spurs.
Þessi hópur stuðningsmanna sem vill stórbrotinn árangur ellegar brottrekstur þjálfara og sölu leikmanna hefur nánast ekki þekkst hjá stuðningsmönnum Spurs. Ég gerði mér þó alltaf grein fyrir að þetta gæti komið upp hjá stuðningsmönnunum eftir að hafa náð góðum árangri í fyrra. En ekki í þessum mæli. Þegar ég horfi til baka yfir það sem af er þessu tímabili er árangurinn frábær. Það er í raun ótrúlegt að við skulum hafa náð þessum árangri. Við skulum átta okkur á því að við skiptum út næstum því helmingnum af liðinu okkar fyrir þetta tímabil! Leikmenn eins og Cimbonda, Ekotto, Ghaly, Zokora, THUDD, Steed og Berbatov komu allir nýjir inn (THUDD telst sem nýr leikmaður í byrjunarliðinu). Það er auðvitað ekki við því að búast að liðið nái að vinna eins og smurð vél þar sem allir leikmenn gjörþekkja allar hreyfingar samherjanna svona til að byrja með. Það er því eftir á að hyggja hægt að segja að "slæm byrjun" á mótinu hafi verið nokkuð eðlileg. Ég set slæm byrjun innnan gæsalappa, því mér finnst tímabilið hafa spilast ágætlega, jafnvel vel. En mjög margir eru mér ekki sammála. Horfum nú á hvað hafði gerst á sama tímabili í fyrra. Við höfðum startað bestu byrjun Spurs frá upphafi úrvalsdeildar. Þetta var magnaður árangur! Það er kannski til of mikils ætlast finnst mér að ætla að gera slíkt hið sama annað árið í röð. Hins vegar höfðum við staðið okkur algjörlega ömurlega í keppnum utan PL. Það er reyndar bara um eina að ræða og þar duttum við út á móti liði sem var á mörkum þess að vera atvinnulið (Grimsby). Það var því ætlast til þess að við myndum gera betur á þeim vetvangi.
Horfum nú á þetta tímabil. Við höfum verið að strögla á útivöllum í vetur. Það er í raun það eina sem hægt er að setja út á liðið. Við höfum unnið hvern einn og einasta leik í evrópukeppninni og flugum í gegnum riðlakeppnina, langefstir! Við höfum spilað svo vel að það er hátíð í hverjum einasta leik. Við höfum líka spilað í keppninni þar sem við duttum út í fyrstu umferð í fyrra. Við höfum þar líka unnið hvern og einn einasta leik og erum komnir í undanúrslit. Við unnum Chelsea í vetur. Þvílíkur draumur. Við höfum ekki unnið top 4 í fjöldamörg ár og voru menn orðnir ansi þreyttir á því að geta aldrei unnið neitt af þessum topp liðum. Við höfum unnið okkar fyrsta stórsigur í 1 og 1/2 ár þetta tímabilið þegar við unnum Charlton 5-1. Það eru í raun bara 5 stig í að við náum 4. sætinu sem við sátum í fyrra.
Það er því nokkuð ljóst að liðið hefur verið að standa sig ansi vel þrátt fyrir allt og að mínu mati betur heilt yfir en í fyrra. Það er svakalega gott ef við tökum mið af því að liðið er gjörbreytt og að á sama tímabili í fyrra vorum við að setja félagsmet í úrvalsdeildinni. En þrátt fyrir þetta er kominn þessi hópur stuðningsmanna sem ég var að tala um í sambandi við Liverpool. Það eru að spretta upp umræður hvort það sé tímabært að reka Jol og leikmenn fá skítkastið ef þeir standa sig ekki. Ef við byrjum á að skoða hvort þetta sé réttmætt varðandi Jol. Jol er sá stjóri sem hefur lang besta sigurhlutfallið af öllum stjórum Spurs frá upphafi úrvalsdeildar. Hann er í raun með 6. besta sigurhlutfallið af öllum stjórum Spurs frá stofnun félagsins. Hann náði að fara með Spurs upp í nýjar hæðir á síðasta tímabili og er einn snjallasti stjórinn á leikmannamarkaðnum sem ég man eftir að Spurs hafi haft. Hann er að gera góða hluti á þessu tímabili, þó auðvitað hafi ekki hlutirnir verið að ganga upp á útivöllunum. Auðvitað er þetta þvílík vitleysa að annað eins er fáheyrt, nema auðvitað hjá þessum hóp Liverpoolmanna. Ef maður ber saman þessi vandræði á útivöllunum miðað við allt annað, sjá náttúrulega allir að það réttlætir auðvitað ekki brottrekstur þjálfarans.
Svo er hitt sem ég hef minnst á, óþolinmæði gagnvart leikmönnum. Þeir eru margir sem hafa mátt þola óvægna og á stundum óréttláta gagnrýni ákveðins hóps stuðningsmanna sinna. Defoe, Keane, Zokora, Ekotto og Robinson eru þeir sem hafa mátt þola óréttmæta gagnrýni á þessu tímabili. Þessir leikmenn hafa kannski ekki alltaf staðið undir væntingum, og sumir hafa bara ekki verið að standa sig yfir höfuð. En á meðan við erum stuðningsmenn þessara leikmanna fynnst mér að við ættum að gagnrýna þá á sanngjarnann hátt en ekki ráðast á þá á stundum með svívirðingum. Stuðningsmenn Spurs á Englandi eru ekki taldir einir þeir bestu á Englandi vegna þess að þeir ráðast á eigin leikmenn. Þeir hljóta þessa virðingu vegna þess að þeir standa með sínum mönnum.
Það sem gerði kannski útslagið með að ég skrifaði þennann pistil var aðför stuðningsmanna að stolti okkar Spursaðdáanda. Eno, eða Englands number one; Paul Robinson fékk heldur betur að heyra það á spjallborði Spurs.is eftir leikinn gegn Newcastle. Robbo greyjið hefur verið að strögla svolítið það sem af er tímabili. Hann hefur líka fengið að heyra það. Það er svosem í lagi að menn bendi á staðreyndir og þurfa ekkert að fara undir rós með það. Hann hefur hinsvegar verið að koma til nú í desember og spilað mjög vel. Hann átti stórkostlegan leik gegn Man. City. Eins og við var að búast voru menn ekkert að heimta bekkjasetuna á hann á meðan hann spilar svona vel. En um leið og hann misstígur sig (líkingamál) í einum leik eru sumir stuðningsmenn tilbúnir að stökkva á hann líkt og hýenur á hræ.
Ég er ekki að segja að Robinson hafi ekki átt óvægna gagnrýni skilið. Stuðningsmenn vænta þess að leikmenn leggji sig alla fram í leikjum. Ekki aðeins vegna þess að þeir þyggi milljónir í laun fyrir það heldur líka af því að þeir eru þeirra forréttinda aðhljótandi að fá að spila með liði sem sérhvern ungann markmann dreymir um að spila með. En um leið og við tökum það að okkur að gagnrýna verðum við alltaf að spurja okkur að því hvort gagnrýnin sé réttmæt. Ég ætla að leyfa mér að byrta nokkrar setningar af þræði spurs.is spjallsvæðisins um leik Newcastle og Tottenham. Þetta var skrifað eftir leikinn. Ég ætla ekki að fara setja út á hluti sem sagðir eru í hita leiksins.
Robinson - leikurinn hefði kannski endað með jafntefli ef hann hefði ekki ákveðið að vera svona feitur og með lokuð augun.
Fyrst þurfti ég að horfa uppá liðið mitt áskæra hrauna í sig þökk sé lélegasta markverði deildarinnar sem var besti maður Newcastle í dag
Þetta finnst mér vera dæmi um óréttmæta gagnrýni. Ég er þó ekki endilega að setja höfunda þessara innleggja í hópinn með þessum óþreyjufullu stuðningsmönnum. Þetta eru aðeins dæmi. Svona árásir eiga heima hjá stuðningsmönnum keppinautana. Mér finnst það felast í orðinu stuðningsmaður að þú styður þitt lið og þína leikmenn. Eins og ég kom inná áðan hafði Robbo verið búinn að standa sig mjög vel það sem af var mánaðar. Ég er svolítið hræddur um að verða misskilinn með að það megi ekki gagnrýna. Ég endurtek því að það er munur á réttmætri gagnrýni og óréttmætri. Ég sé ekki að holdafar Robbo hafi neitt með mistök hans í þessum leik að gera. Mér finnst það líka óréttmæt gagnrýni að kalla hann lélegasta markvörð deildarinnar. Það gæti alveg verið hægt að rökstyðja það að Robbo hafi átt mjög slæmt tímabil á sanngjarnann hátt. En það er enginn rökstuðningur á bakvið þessar ásakanir.
Ég er lönguhættur að reyna að stjórna því hvernig stuðningsmenn eiga að haga sér og hvernig þeir eiga ekki að haga sér. Þessi færsla er því ekki tilraun til þess. Færslan lýsir hinsvegar minni skoðun á þeim hópi sem "styðja" lið sitt með þessum hætti. Ég hef eflaust einhverntíma dottið í þá gryfju að dæma með óréttmætum hætti, ég reyni þó alltaf að fara yfir gagnrýnina og spurja mig að því hvort hún sé réttmæt. Það sem varð til þess að ég ákvað upphaflega að taka þátt í umræðum á netinu um Spurs var það hvað stuðningsmenn Spurs voru yfirleitt málefnalegir og sanngjarnir í gagnrýni sinni á liðið og leikmenn. Vonandi heldur það áfram.