miðvikudagur, janúar 31, 2007

Ögrandi umfjöllun á morgun.

Klukkan orðin of margt og ég á eftir að gera svo mikið í kvöld þannig að ég þarf að geyma skoðun mína á leiknum til morguns. En bara til að setja línurnar strax, þá ætla ég mér að halda áfram að vera jákvæður í mínum skrifum, jafnvel þó að hlutirnir gangi ekki upp eftir mínu höfði. Nú hugsa ég að svartsýnisseggirnir bíði spenntir eftir því að vita hvað ég sé jákvætt við leikinn :)

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Arsenal - Tottenham (CC)

Fyrri leikur

Tottenham 2 - Arsenal 2
Berbatov, 12 - Babtista, 63
Babtista (s.m), 20 - Babtista 77

Þeir sem lásu ekki upphitunina fyrir síðasta leik er bent á að kíkja á hana hér.

Nú er komið að mikilvægasta leik okkar á tímabilinu til þessa. Í þessum leik ræðst það hvort það verður Arsenal eða Spurs sem spila til úrslita gegn Chelsea. Eftir að hafa aðeins náð jafntefli í gegn þeim á WHL í fyrri umferðinni og tapað á Emirates 3-0 fyrr í vetur er ekkert ósennilegt að stuðningsmenn Spurs séu ekkert alltof bjartsýnir. Ekki hjálpar það til að það virðist okkur með öllu ógerlegt að sigra leiki á útivelli. En ég er langt því frá svartsýnn á þennann leik. Ég er eiginlega frekar bjartsýnn á sigur í þessum leik. Nú er Babtista meiddur og gífurlega ólíklegt að hann spili þennann leik. Svo er Persie einnig meiddur þannig að ég held að Wenger fari ekki að splæsa Henry í þennann leik. Henry spilaði allann leikinn á sunnudaginn og Wenger lét hafa það eftir sér að hann væri orðinn ansi hræddur við leikjaálagið, enda er meiðslalistinn þeirra að stækka ansi ört þessa dagana. Ekki mun hann setja Hleb í liðið enda er hann meiddur. Rosicky og Adebayor spiluðu líka allann leikinn á sunnudaginn og þurfa að vera í toppstandi á laugardaginn auk þess sem styttist í að meistaradeildin fari aftur að rúlla.

Ég tel það skipta okkur gríðarlegu máli að Babtista verði ekki með. Maðurinn er náttúrulega búinn að skora 6 mörk samanlagt í síðustu tveimur leikjum í CC (reyndar 7 ef sjálfsmarkið er talið með:)).

Ég er nokkuð viss um að leikmenn leggi sig alla fram í þessum leik. Ég heyrði ansi skemmtilega setningu í útvarpinu í dag um landslið íslands í handboltanum. Þar sagði Siggi Sveins að "þegar menn eru komnir svona langt í keppninni þarf þjálfarinn ekkert að mótívera leikmenn." Það held ég að séu orð að sönnu. Ef að leikmenn okkar iða ekki í skinninu eftir leiknum þá er þetta vonlaust. Þannig að við getum alveg búist við að fá að sjá okkar leikmenn gera sitt allra besta. Þegar við spilum eins og vel og við getum tel ég að unglingarnir í Arsenal eigi ekki séns.

Liðið

---------------------Robbo------------------
Chimb.---Dawson----Gardner---Ekotto
Steed-----THUDD------Jenas------Lennon
-------------Defoe---------Mido--------------

Jæja eflaust einhverjir ekki sáttir við að sjá Gardner þarna í stað Rocha, og einhverjir ósáttir við að sjá Lennon á vinstri. Ég held einfaldlega að Gardner muni spila. Ég held Jol hugsi sem svo að Gardner veit upp á hár hvað er að gerast. Hann þekkir ríginn við Arsenal og veit hvað hann þarf að gera. Gardner er held ég líklegri til að spila með hjartanu fyrir klúbbinn. Gardner spilaði ekki síðasta leik þannig að hann ætti ekki að vera þreyttur. Ég er samt engann veginn að gefa það í skyn að Gardner sé betri leikmaður en Rocha. Það er ómögulegt að segja fyrirfram hvor leikmaðurinn er betri í þennann slag. En Dawson er pottþétt hinn miðvörðurinn í liðinu.

Lennon held ég að sé eiginlega bara betri á vinstri kanntinum en þeim hægri. Steed finnst mér betri á hægri en vinstri þannig að ég vona að þetta verði svona.

Ég held reyndar að Jenas muni ekki spila leikinn (set hann samt inn því ég vona það). Hann er nýkominn úr meiðslum og vann gríðarlega vel í síðasta leik. Mér finnst líklegra að Zokora verði þarna með THUDD. Ef Zok á annann leik eins og hann átti á laugardaginn verður miðjan ansi öflug með þá tvo.

Berbatov mun auðvitað spila ef hann verður fit. Ég reyndar efast um það þannig að ég set Mido þarna inn. Það er nokkuð öruggt ef að Berbatov spilar ekki að Mido spilar. Defoe mun spila þennann leik, pottþétt. Jol hvíldi hann á laugardaginn fyrir þennann leik.

Ég skal vera sáttur við að skíttapa fyrir Man U næstu helgi ef þessi leikur vinnst. Allavega vona ég að leikmenn fari nú ekkert að spara sig á morgunn. Þessi leikur er svo miklu mikilvægari en Man U leikurinn. Ég vona að menn séu ekki enn að horfa á hvernig seinnihálfleikurinn fór hjá okkur í fyrri leiknum. Ég vona frekar að menn horfi á hvernig við spiluðum fyrri hálfleikinn gegn þeim. Ef við náum að spila báða hálfleikina eins og þann fyrri erum við komnir áfram. Það er líka vonandi að Leikmenn Spurs séu búnir að finna tempóið eftir síðasta leik gegn Southend.

Ég spái leiknum 2-3 fyrir okkur. Arsenalmenn eiga svo eftir að vera brjálaðir vegna þess að það var klár rangstaða í einu marki okkar. þvílíkur draumur það yrði.

sunnudagur, janúar 28, 2007

Fréttir og slúður.

Jæja nú er félagaskiptaglugginn að fara loka (31 jan). Það er ávísun á að slúðurblöðin sleppi sér. Nú er talað mikið um að Crouch sé jafnvel á leiðinni. Ég er 95% viss á því að það muni aldrei gerast. Ég sé ekki gulrótina fyrir Crouch sem á að leiða hann í herbúðir okkar. Hann mun taka við hlutskipti Mido þ.e sitja á bekknum og koma inn í þessum ómerkilegri leikjum. Ég tel Crouch eiga meiri möguleika í að spila Kuyt (stafs) út úr liðinu heldur en að spila Berbatov út úr liðinu. Ég tel að þetta slúður sé tilkomið vegna þess Martin Jol hefur sagt að hann sé aðdáandi Crouch og slúðurblöðin hafa enn og aftur reynt að gera sér mat úr þessu.

Ætli allir hafi nú ekki heyrt brandarann með Bale. Hann er einhvernveginn svona:

Hvað kostar 17 ára unglingur hjá liði utan úrvalsdeildar?
Svar: 10 milljónir punda ~hahahaha~

Hvað ætli THUDD myndi þá vera metinn á? 40 milljónir punda og Lennon á 60 millur?

Ég man þegar Arsenal keypti Walcott í fyrra sagði Jol að verðið væri brandari. Ég er nokkurnveginn alveg sammála því. Það er auðvitað hægt að nefna fjöldamörg dæmi um leikmenn sem hafa verið keyptir á þessum aldri á svipuðu verði og hafa staðið undir væntingum. En þegar við horfum á leikmenn eins og King, Lennon, Huddleston og fleirri sem kostuðu aðeins brot af þessu verði sér maður að það framtíðin er óútreiknanleg. Ætli Lennon hefði verið seldur á undir milljón punda ef Leeds hefðu geta séð hversu góður hann ætti eftir að verða. Ætli THUDD hefði komið til okkar fyrir 1,5 milljónir ef menn hefðu getað séð það fyrir hvað hann ætti eftir að verða góður í Pl? Nei! Að kaupa svo unga stráka er alltaf áhætta sem annað hvort borgar sig eða ekki. Við erum ekki með sama fjármagn og Chelsea og því finnst mér mjög hæpið að fara henda 10 mills upp á von og óvon.

Mér er alltaf minnistæð þau orð sem ég heyrði frá einum spursaranum sem sagði mér að þegar Gardner var að stíga sín fyrstu spor í úrvalsdeildinni við hlið Campbells var talað um að Gardner hafi verið betri en Campbell var á sama aldri. Það er engin regla að menn verða bara betri með aldrinum þegar þeir eru unglingar.

Nú í dag var svo minnst á að Beattie gæti verið á leiðinni. Með fullri virðingu fyrir þeim manni segji ég "nei takk".

Svo er Davids farinn frá okkur til Ajax. Ég er mjög feginn því að hann hafi komið á sínum tíma. Það beindi svolítið augum manna að Spurs og við fengum okkar 15 mínútna heimsfrægð. En ég held að þetta hafi verið farsælast fyrir alla aðila. Davids fékk lítið sem ekkert að spila og hann ákvað að rotna ekki á bekknum heldur halda áfram að spila fótbolta. Þó hann hafi verið baráttuhundur og allt það held ég að frá honum hafi stafað leiðinlegur andi. Hann hefur tvisvar tekið reiðikast á Jol og tvisvar efnt til slagsmála meðal liðsfélaga sinna. Ég óska honum alls hins besta hjá nýju félagi og þakka honum fyrir þann tíma sem hann helgaði líf sitt Tottenham.

laugardagur, janúar 27, 2007

Tottenham 3 - Southend 1

Já frábær 3-1 sigur í frábærum leik.

Jæja nú getur maður vonandi loksins fengið að lesa eitthvað af viti á netinu. Það má alls ekki líta á þetta sem einhvern skildusigur. Það er um að gera að nefna allt sem vel var gert í þessum leik og því vill ég fara yfir það mann frá manni.

Cerny: Það er hægt að telja leikina sem hann hefur fengið að spila í vetur á fingrum annara handar. Þrátt fyrir það átti hann mjög góðann leik og gerði engin afdrifarík mistök (þó samspil hans og Dawson hefði geta orðið afdrifaríkt í seinni hálfleik).

Stalteri: var nýstiginn upp úr meiðslum og byrjaði að æfa í vikunni. Hann hefur lítið fengið að spreyta sig í vetur og því bjóst ég við að hann yrði mjög slakur. Annað kom á daginn því hann var bara nokkuð góður. Það voru örfá skipti sem hann var svolítið óöruggur í vörninni en heilt yfir spilaði hann langt fram úr björtustu vonum.

Dawson: Miðað við hvað þessi maður er búinn að spila marga leiki í röð er hreint út sagt með ólíkindum að hann skuli hafa orku í að spila jafn vel og hann er að gera. Þó svo að hann hafi nú ekki spilað sinn besta leik í dag kemst hann nálægt því að vera maður leiksins eða tímabilsins með framistöðu sinni í undanförnum leikjum miðað við aðstæður.

Rocha: Hann hafði frekar hljótt um sig í leiknum enda kannski ekkert mikið álag á vörninni í dag. Ég veit eiginlega ekkert hvernig ég á að dæma þennann mann þar sem ég þekki ekkert til hans og veit ekki við hverju ég á að búast. En hann var alls ekkert að klúðra neinu eða neitt í þá áttina, og það er nokkurn veginn það mesta sem hægt er að ætlast til af manni sem er búinn að vera í Englandi í minna en viku.

Lee: Bara nokkuð sprækur. Southend var aðeins að sækja upp vinstri kanntinn í upphafi leiks en síðan ekki söguna meir. Það er því varla hvorki hægt að setja neitt útá eða hrósa honum fyrir varnarleikinn. Hann var eins og vanalega nokkuð sókndjarfur og var bara nokkuð góður í sóknarleiknum.

Ghaly: Þessi maður er margklofinn. Ég í raun veit ekkert hvað mér á að finnast um hann lengur. Hann getur sýnt tilþrif mánaðarins í einni sókninni en klúðrað öllu öðru í leiknum. Hann var einmitt þannig í dag. Í fyrri hluta fyrrihálfleiks var hann rosalega skeinuhættur og átti nokkur hlaup inn í teiginn og var hrikalega ógnandi. Restina af leiknum var hann bara í ruglinu. Það er enskt orð yfir þennann leikmann sem smellpassar við Ghaly það er orðið "wild card", sem þýðir eiginlega óútreiknanlegur leikmaður.

Jenas
: ÞVÍLÍKUR LEIKUR HJÁ HONUM!!! Hann var að spila sinn fyrsta leik eftir að hafa verið meiddur í um 1 og hálfann mánuð og nýbyrjaður að æfa. Miðað við það var hann stórkostlegur í dag. Það er hægara sagt en gert að koma inn í lið í lélegri þjálfun og í engri leikæfingu og spila jafn vel og hann gerði. Einn af bestu mönnum leiksins í dag.

Zokora: Þrátt fyrir að hann hafi ekki verið okkar besti maður í dag vill ég titla hann mann leiksins. Að sjá loks Zokora spila stórleik er eitthvað sem ég hef beðið eftir lengi. þrátt fyrir að hann hafi verið stórkostlegur á móti Chelsea vill ég meina að hann hafi spilað sinn besta leik í dag fyrir Spurs. Hann varðist mjög vel og var stöðugt ógnandi í skyndisóknunum þegar hann geystist upp völlinn. Hann er því maður leiksins í mínum huga því eftir þessu hef ég beðið of lengi til að veita honum ekki viðurkenninguna.

Lennon: Í allri sanngirni ætti hann að vera maður leiksins þar sem hann spilaði manna best í dag. Þetta Southend lið hentaði honum líka fullkomnlega þar sem allir leikmenn liðsins voru með lítinn hraða og hann gat því skotist framhjá þeim þegar hann vildi. Eftir þennann leik er ég ekki viss hvor kannturinn hentar honum betur. Hann átti tvær frábærar fyrirgjafir með vinstrifætinum auk þess sem hann á auðveldara með að skjóta á markið þegar hann spilar á vinstri kanntinum. En hann var frábær í dag. Fær 10 í einkun, besta framistaðan á árinu.

Keane: Góður leikur hjá honum. Við fengum að sjá svolítið frá Keane sem hefur lítið borið á þetta tímabil; markagræðgi. Hann var rosalega ákveðinn í sóknarleiknum og stóð sig mjög vel. Það eina sem ég hef út á hann að setja er að hann var á stundum aðeins of gráðugur. Í nokkrum tilvikum kom sending inn í teig og í stað þess að láta boltann fara á dauðafríann mann tók Keane boltann í mjög erfiðri aðstöðu og klúðraði. En aftur miðað við að hann er í lítilli leikæfingu og er enn að komast í líkamlegt form eftir meiðsli var þetta frábær framistaða. En mikið svakalega var hann reiður eftir að dómarinn dæmdi ekki vítið. Hann er litlu skárri en Defoe.

Mido: Var fínn í þessum leik. Hann er að sjálfsögðu enn að jafna sig eftir meiðsli og skortir leikæfingu. Þrátt fyrir það átti hann ágætis leik og skoraði mikilvægt mark. Þetta mark á eflasut eftir að hjálpa honum að ná því sjálfstrausti sem honum vantar. Sú staðreynd að hann spilaði leikinn tel ég binda enda á vangaveltur um framtíð hans hjá Spurs... í bili.

Jol: Verð að taka hann með í þessu. Frábær liðsuppstilling og fínar innáskiptingar. Hann fær þá pásu frá bölsýnismönnunum í bili. Það eina sem hægt er að setja út á hjá honum er hversu lengi hann hafði Lennon inná. Það er spurning hversu ferskur hann verður þá á móti Arsenal.

Þetta er mikill gleðidagur fyrir íslenska stuðningsmenn Spurs þar sem við fengum að sjá frábærann leik hjá Tottenham í dag og svo fengum við íslenskann sigur í handboltanum. Nú er bara að vona að leikmenn Spurs hafi fundið bragðið af velgengninni og vilji meira þegar að leik Arsenal og Spurs kemur á miðvikudaginn.

Coys!!!

föstudagur, janúar 26, 2007

Upphitun eða ekki upphitun?

Ég var með það í hausnum að við værum að fara spila við Southend á sunnudaginn en svo er víst ekki. Það verður því að falla niður upphitunin í þetta skiptið. En nokkur orð um leikinn.

Einhvernveginn er mér orðið alveg sama um þennann FA bikar. Við fáum gott tækifæri til að vinna CC og það er nóg. Ég vill eignilega helst sjá okkur leggja allt í að klára Arsenal í Carling. Ég einfaldlega held að breiddin hjá okkur sé ekki næg til að geta spilað í FA, CC, Uefa cup og PL. Þetta er alltof mikið álag fyrir okkur. Heldur vill ég sjá okkur vinna eina bikarkeppni en að komast í undanúrslit í þeim öllum og klúðra málunum í deildinni. Við erum búnir að gera betur í FA en í fyrra og það er nóg.

Spáið í því ef við dettum úr FA á morgunn þá eigum við allt undir Carling bikarnum. Það þýðir tvennt gott. Leikmenn leggja sig extra mikið fram um að vinna leikinn gegn Arsenal því þeir vita að Uefa sæti er í boði fyrir það lið sem vinnur bikarinn. Ef að við komumst ekki áfram í FA eða CC þýðir það að leikmenn hafa bara deildarkeppnina til að tryggja sér áframhaldandi evrópuævintýri á næsta ári og leggja sig enn meira fram í deildinni með óþreyttann mannskap, því það er æði langt í næsta evrópuleik hjá okkur.

Ég vill samt alls ekki sjá okkar leikmenn reyna að tapa þessum leik. Ég vill helst sjá Jol setja inn strákana sem fá ekki tækifæri með aðalliðinu í þennann leik. Leikmenn eins og Mido, Davids, Murphy, Ziegler og þessa gaura (veit reyndar ekki hvort einhver þeirra sé meiddur). Jol á bara að segja þessum mönnum "hérna er tækifæri ykkar til að sanna ykkur, nýtið það sem best". Það er allavega mitt mat að ef við spilum á svipuðum mannskap og í síðasta leik getum við kvatt báðar bikarkeppnirnar með nokkurra daga millibili. Þessir leikmenn voru örmagna í síðari hálfleik í síðasta leik og eru ekki búnir að hvíla nóg. Það þýðir að þeir munu verða örmagna líka í þessum leik og þeim næsta. Þannig að ég held að það sé skynsemi í að hvíla sterkustu og þreyttustu mennina fyrir Arsenalleikinn og spila þá á aðeins veikara liði gegn Southend og vona að þessir leikmenn standi sig.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Tottenham 2 - Arsenal 2

Mig langar að byrja á smá reiðipistli áður en ég fer í leikinn sjálfann.

Nú hef ég verið að reyna að minnka heimsóknir mínar á spursspjallið þar sem mér ofbíður svartsýnin og það orðbragð sem haft er um leikmenn, þjálfarann og liðið sem ég elska. Mér er svosem sama þó að aðrir séu að röfla og bölva á spursspjallinu enda er enginn tilneyddur til að lesa það. Því hef ég verið að lesa svolítið á NewsNow og einhverjar svona síður sem ég get sloppið undan því að lesa um hvernig fólk upplifir vonleysið. En nú er fokið í flest skjól þar sem allir virðast vera á sömu línunni. Maður þarf því bara að bíða eftir sigurleik til að geta fengið að lesa eitthvað sem lýtur út eins og þar sé Tottenhamaðdáandi að skrifa um Tottenham. Akkúrat núna virðast allir stuðningsmenn Spurs skrifa eins og Arsenalmenn um Spurs. Mér er nokkuð sama um hverjar væntingar okkar eru og þó að það sé hægt að draga upp ansi svarta mynd af stöðu mála. Það eiga að vera stuðningsmenn andstæðinganna sem vellta sér uppúr því. Það þarf enginn að halda að ég sé að meina að það eigi allir að vera glaðir þegar illa gengur, enda snýst stuðningur ekki bara um gleði. Þannig að til að veita mótvægi við alla þessa rosalegu svartsýni ætla ég eingöngu að skoða hina hliðina. Reiðipistli lokið!

Fyrir leikinn virtust flestir búast við tapi okkar manna og vonuðust margir í besta falli eftir jafntefli. Það er svosem eðlilegt að menn hafi ekki verið að búast við miklu þegar við höfum þurft framlengingu til að klára leiki á móti liðum eins og Port Vale, Southend og Cardiff (annar leikur) í bikarnum á meðan Arsenal hefur verið að fella út úrvalsdeildarlið á 90 mín. En liðið sýndi heldurbetur karakter í fyrri hálfleik og við virtumst vera að yfirspila þá á köflum. Í fyrsta sinn í keppninni voru Arsenal í þeirri stöðu að vera tveimur mörkum undir í hálfleik. Þetta var einhver skemmtilegasti fyrrihálfleikur sem ég hef horft á í langann tíma. Það var rosaleg barátta í okkar mönnum og við vorum að sækja grimmt.

Það gerðist svo það sem ég óttaðist í seinni hálfleik. Leikmenn voru orðnir þreyttir. Þegar maður sá baráttuna og viljann til að leggja sig alla í leikinn í fyrrihálfleik fór maður að óttast það að óþreyttir leikmenn Arsenal myndu ná yfirhöndinni á vellinum þegar liði á leikinn. Við höfum verið að spila nú nánast stöðugt á sama mannskapnum ansi lengi og ansi þétt, enda breyddin ekki mjög mikil hjá okkur þessa stundina. Það sama verður ekki sagt um Arsenal sem var með "unglingaliðið" sitt á vellinum. Meðalaldur liðsins var um 21 ár og þeir voru með 5 leikmenn í byrjunarliðinu sem voru 20 ára eða yngri. Þarna voru 6 leikmenn sem ekki höfðu náð meira en 10 leikjum í byrjunarliði Arsenal í PL þetta tímabilið. Þannig að það er óhætt að fullyrða að Arsenal var með minna þreytt lið. Eins og kom fram hægðist nokkuð á leik okkar í seinni hálfleik og því fór sem fór í seinni hálfleik. Það má því segja að skynsemin hafi vikið fyrir ákefð, vilja og baráttugleði í fyrrihálfleik.

Þeir leikmenn sem ég var mjög sáttur við í gær voru:
Dawson: Líklega maður leiksins hjá okkar mönnum.
Gardner: Kemur skemmtilega á óvart þessa dagana. Ég átti ekki von á neinu frá honum en hann hefur staðið sig ágætlega hingað til.
Ekotto: Frábært að fá að sjá hann aftur. Hann stóð sig ágætlega, en hann þarf að ná fyrri leikæfingu til að ná aftur að vera jafn góður og hann var fyrir áramót. Þetta var þó betri frammistaða en Lee hefur sýnt hingað til.
Zokora: Fín barátta hjá honum og engin mistök.
THUDD: Enginn stórleikur miðað við það sem maður hefur séð frá honum. En hann var þó fínn. En mikið rosalega, svakalega er hann hægur (varð mjög augljóst á móti þessum snöggu gaurum hjá Arsenal). Hann þarf að auka snerpuna, þegar hún kemur verður hann einn sá besti.
Berbatov: Á meðan hann var inná var hann frábær.

Menn meiga ekki afskrifa okkur of fljótt. Í síðari leiknum getum við jafnvel fengið að sjá King, Jenas og Berbatov með liðinu. Við erum ekkert búnir að tapa þessu strax!!!!

mánudagur, janúar 22, 2007

Tottenham - Arsenal (undanúrslit CC)




Tottenham
VS
Arsenal


Miðvikudaginn 24.jan kl. 20:00 á WHL



Úr eldri upphitun

Áður en við byrjum
Það ríkir mikil óvild og jafnvel hatur í garð Arsenal meðal stuðningsmanna Spurs. Ég ætla mér ekki að vera með neitt skítkast í garð Arsenal í þessari upphitun. Það á bara ekki við mig. Þetta þýðir samt ekki að mér þyki svo vænt um Arsenal að ég geti ekki fengið mig til að skrifa neitt slæmt um þá.


Arsenal
Arsenal var stofnað árið 1886 Sem Dial Square. Þeir breyttu nafninu svo í Arsenal Woolwich þegar þeir urðu atvinnumannalið. Það voru starfsmenn Arsenal Royal sem stofnuðu félagið í Woolwich í suð-austur London. Thames áin var ekki brúuð á þeim tíma sem varð til þess að lítil aðsókn var á heimaleikina. Þetta varð til þess að félagið lennti í fjárhagserfiðleikum og ákvað að flytja sig yfir ánna. Árið 1913 fluttu þeir sig yfir á Highbury í aðeins nokkra kílómetra fjarlægð frá WHL. Þetta varð til þess að nágrannarígurinn myndaðist. Þegar þeir fluttu yfir afmáðist Woolwich af nafninu og eftir stóð Arsenal F.C. Þeir eru þar með 1 af 2 "professional" liðum sem bera ekki nafn af hverfi eða borg.
     Oft hefur verið talað um nágrannaríg Tottenham og Arsenal sem þann ofsafengnasta sem þekkist á Englandi. Ástæðuna má ekki aðeins rekja til nálægðarinnar heldur einnig skandals sem átti sér stað árið 1919. Fyrir þann tíma voru 20 lið í úrvalsdeild og tvö sem féllu ár hvert. Þetta ár var hinsvegar ákveðið að fjölga liðum í úrvalsdeild um 2. Tottenham og Chelsea voru þau lið sem áttu að falla en Chelsea fékk að vera uppi (enduðu í 19 sæti) Hitt sætið hefði því með réttu átt að fara til Spurs. Ef ekki Spurs þá allavega til liðsins í þriðja sæti í annarri deild. Henry Norris stærsti hluthafinn í Arsenal sat þá í stjórn knattspyrnusambandsins og fékk hann því framgengt að Arsenal sem endaði í 5. sæti annarar deildar fengi hitt sætið í úrvalsdeild. Margar samsæriskenningar eru uppi um þennann skandal. Ein er sú að árið 1915 komst upp um að stjórar Liverpool og Manchester Utd. hafi hagrætt úrslitum í lokaleik umferðarinnar til að koma í veg fyrir að Liverpool félli. Norris á þá að hafa boðið þeim að berjast gegn því að þeim yrði vikið úr fyrstudeildinni í staðinn fyrir stuðning þeirra í að koma Arsenal upp á kostnað Spurs. Þetta hefur að sjálfsögðu alltaf sett svartann blett á Arsenal í augum stuðningsmanna Tottenham og var aðeins til að kasta olíu á eld nágrannarígsins.
      Í sumar fluttu Arsenal sig yfir á nýjann leikvang þar sem Highbury stóðst m.a ekki evrópustaðla. Nýji leikvangurinn ber nafnið Emrirates Stadium eftir flugfélaginu Emirates Airline. Emirates er ekki stuðningsaðili Uefa og þar með viðurkenna þeir ekki nafnið og kalla hann annað hvort Arsenal Stadium eða Ashburton Grove

Arsenal hefur spilað nú í samfleytt 80 ár í efstudeild, sem er met í ensku deildinni. Arsenal á einnig metið yfir flesta leiki í röð án þess að tapa (49). Á áttunda og níunda áratuginum þótti Arsenal spila einkar leiðinlegan fótbolta þar sem leikur liðsins byggðist mestmegnis upp á sterkum varnaleik. Á þeim tímapunkti byrjuðu stuðninsmenn annara liða að syngja söngva um "boring, boring Arsenal". Þó svo að leikur Arsenal hafi breyst mikið á frá þeim tíma og þeir farnir að spila meiri sóknarbolta eru margir enn á því að þeir spili leiðinlegann bolta þar sem leikmenn eru sakaðir um að spila leikinn óheiðarlega með dýfingum og öðrum óþverrabrögðum. Stjóri Arsenal Arsene Wenger hefur að mörgu leyti tileinkað sér þennann stíl í viðtölum þar sem hann er oft mjög ósanngjarn og óheiðarlegur í garð andstæðinganna og dómarans.

---------------------------------------------------------------------------
Saga liðanna í deildarbikarnum.
Arsenal.
Arsenal hefur 5 sinnum leikið til úrslita í deildarbikarnum en aðeins unnið tvisvar. Þeir unnu bikarinn 1987 og 1993. Þeir hafa hinsvegar tapað úrslitaleik gegn Luton 1988, Swinton 1969 og Leeds 1968.

Tottenham hefur einnig leikið 5 sinnum til úrslita í deildarbikarnum og unnið þrisvar.

Við unnum deildarbikarinn fyrst þann 27 febrúar 1971 gegn Aston Villa 2-0. Það var goðsögnin Martin Chivers sem skoraði bæði mörkin. Árið eftir töpuðum við svo í undanúrslitum deildarbikarsins gegn Chelsea.

Annar titillinn kom í hús árið 3 mars 1973 þegar við unnum Norwich 1-0 með marki frá Ralph Coates.

Það var svo 21 mars árið 1999 sem okkur tókst að tryggja okkur þennann bikar í þriðja skiptið. Þá sigruðum við lið Leichester (sem felldi okkur úr fa cup í fyrra) 1-0 með marki Alan Nilsen.

Við erum að spila í 10 skiptið í undanúrslitum deildarbikarsins. Við höfum hingað til 5 sinnum komist áfram í gegnum það en fjórum sinnum verið stöðvaðir þar. Það sem verst er að Arsenal hefur tvisvar komið í veg fyrir það að við spiluðum úrslitaleikinn. Arsenal vann okkur í undanúrslitum fyrst árið 1968 og endurtóku svo leikinn í undaúrslitum árið 1987. Þeir stöðvuðu okkur reyndar líka í þriðju umferð árið 1983. Við höfum aðeins einusinni slegið Arsenal út úr þessari keppni og það var árið 1980 þegar við unnum þá í fjórðu umferðinni.

Leiðin í undanúrslitin.
Arsenal.

24.okt. West Brom 0-2 Arsenal
8.nóv. Everton 0-1 Arsenal
9.jan. Liverpool 3-6 Arsenal

Tottenham.
25.okt. Milton Keynes Dons 0-5 Tottenham
8.nóv. Tottenham Hotspur 3-1 Port Vale (eftir framlengingu)
20.des. Tottenham Hotspur 1-0 Southend United (eftir framlengingu)

Það er óhætt að segja að Arsenal hafi verið töluvert meira sannfærandi í þessum leikjum. Þeir hafa ávallt klárað sína leiki á 90 mínútum og keppt heilt yfir við sterkari andstæðinga. Ég horfði á leik Arsenal gegn Liverpool og þó svo að ég hafi viljað sigur Liverpool í þessum leik gat ég ekki annað en hrifist af leik Arsenal. Það eru ekki mörg lið sem ná að skora 6 mörk á Anfield, og enn færri sem ná því með varaliðinu. Það er því skiljanlegt að margir stuðningsmenn Spurs séu frekar svartsýnir fyrir þessa leiki.

Að leiknum sjálfum...
Ég tel það nokkuð víst að Arsen Wenger eigi eftir að halda áfram að spila ungu strákunum í þessari keppni. Eftir framistöðu þeirra gegn Liverpool hlýtur Wenger að treysta þeim til að spila þessa leiki einnig. Annað sem rennir stoðum undir þá kenningu er að Arsenal eru með ansi þétt leikjaprógram (eins og við reyndar) og því nauðsynlegt að hvíla leikmenn aðalliðsins. Það skiptir hinsvegar okkur ekki máli hvort Arsenal spili á varaliðinu eða aðalliðinu. Bæði liðin þeirra eru feiknarsterk og flestir leikmenn varaliðsins ættu greiða leið inn í flest úrvalsdeildarlið á Englandi ef miðað er við framistöðuna gegn Liverpool. En kannski hefði hvaða leikmaður sem er virkað sem súperstjarna á móti Liverpool þennann dag. Það er einnig ljóst að stemmingin er öll Arsenalmegin. Þeir unnu Man U. um helgina 2-1 og unnu þann leik með 2 mörkum á síðustu 10 mínútum leiksins. Ef það er ekki eitthvað til að rífa upp stemmingu þá er það ekki hægt.

Ég á hinsvegar von á því að Jol muni stilla upp sínu sterkasta liði. Þó svo að Arsenal stilli ekki upp sínu sterkasta liði þýðir það ekki að við höfum efni á því. Það er því fátt sem vinnur með okkur í þessum leikjum. Það er kannski stærsta vonarglætan að við eigum fyrsta leikinn á heimavelli og þar erum við sterkir. Það er líka morgunljóst að á þessum leikjum er stuðningurinn mestur. Það er því eflaust viðbrygði fyrir unga leikmenn Arsenal að mæta í svona svakalega stórann leik með 35,000 kolvitlausa áhorfendur. Allavega vonum við það. Leikmönnum Spurs er enn í fersku minni ófarirnar gegn Arsenal í byrjun desember þegar við töpuðum 3-0 á "Flugvellinum". Menn vita það að stuðningsmennirnir ætlast til að sjá leikmenn spila alvöru bolta í þessum leik.

Ég ætla allavega að spá okkur sigri í þessum leik og jafntefli í seinni og að við spilum úrslitaleikinn gegn Chelsea. Ég veit að það er ofboðsleg bjartsýni og sumir myndu jafnvel kalla það heimsku, en auðvitað er maður bjartsýnn fyrir hönd sinna manna. Það er í sjálfu sér ekkert ógerlegt því við getum unnið hvaða lið sem er á heimavelli. Ef við náum upp svipaðri stemmingu og við náðum gegn Chelsea, munum við vinna þetta lið með minnst tveimur mörkum. Það er algjör óþarfi að halda að við séum að fara mæta heimsmeisturum. Allavega finnst mér ég vera raunsær með að spá okkur sigri. Leikurinn á Emirates er svo seinnitíma vandamál.

Liðin.
Ég veit ekkert hvaða leikmenn spila leikinn fyrir Arsenal. Ég ætla hinsvegar að byrta lið Arsenal sem mætti Liverpool, þar sem ég tel að liðið sem mætir okkur verði í svipuðum dúr.

-----------Almunia---------------
Hoyte - Toure - Djourou - Traore
Walcott---Song--Fabregas--Denilson
-----Aliadieré---Baptista---------

Þetta voru allavega leikmennirnir sem spiluðu leikinn. Ég held að þessu sé rétt stillt upp hjá mér. Í þessum umtalaða Liverpoolleik fór Baptista á kostum og skoraði 4 mörk. Að mínu mati var þó maður leiksins Aliadiere. Mig minnir að hann hafi átt 4 stoðsendingar og eitt mark. Hann niðurlægði varnarmenn Liverpool gjörsamlega. Í raun var ekki einn leikmaður Arsenal sem átti slakan leik. En til að búa ekki til eitthvað vonleysi hjá ykkur er rétt að geta þess að lið spilar aldrei betur en andstæðingurinn leyfir. Liverpool voru arfaslakir og hefði skipt litlu máli hvaða lið hefði spilað gegn þeim, það hefðu öll lið unnið þá á þessum degi. Ég skal lofa ykkur því að þeir munu ekki ná að yfirspila okkur á heimavelli.

Tottenham.
----------------Robinson---------------
Chimb.-----Gardner----Dawson----Ekotto
Lennon-----Thudd------Jenas-----Steed
-----------Keane------Berbatov---------

Meiddir
Ledley King
Teemu Tainio
Edgar Davids (tæpur)
Hossam Mido
Paul Stalteri
Lee Barnard
Jeramain Jenas (tæpur)

Sem fyrr spái ég að Ekotto spili leikinn. Á móti svona léttleikandi liði verðum við að hafa mann sem getur varist vel í bakverðinum. Þó margir efist um ágæti Ekotto þá held ég að það sé alveg klárt að hann sé betri varnarmaður en Lee. Ég setti svo Jenas inn í liðið þar sem Tainio er meiddur. Þetta er reyndar hrikalega ólíklegt þar sem hann er rétt nýbyrjaður að æfa. Líklegra er að Ghaly eða Zokora spili þarna. Ég set svo Keane í framherjann með Berbatov þar sem Defoe spilaði um síðustu helgi þannig að ég býst við að Jol vilji hafa óþreyttann mann frami. Auk þess sem Defoe var með einhvern skæting um síðustu helgi við Jol og því eðlilegt að hann sitji hjá.

Þetta lið getur hæglega tekið þessa pjatta hjá Arsenal í bakaríið. Við erum á heimavelli eins og ég hef margoft tuggið á og óharnaðir Arsenalmenn með litla reynslu eiga ekki eftir að leika sér mikið undir þeim kringumstæðum.

Mín spá
Við tökum þennann leik 3-2. Þetta á eftir að verða rosalega skemmtilegur leikur. Svo náum við jafntefli á "flugvellinum", og viti menn við erum að fara spila úrslitaleikinn.

Úff! Skrifaði þetta á mettíma. Eflaust eitthvað um stafsetningavillur, endurtekningar og mótsagnir. En hundruðasti pósturinn staðreynd. Kem með eitthvað gott líka þegar ég næ 1000 póstum ;)

COYS!!!

Hitt og annað

Jæja nú er hitt og annað búið að gerast í kringum Spurs sem ég hef ekki komist í að nefna. Defoe tók eitthvert kast á Jol í síðasta leik þegar honum var skipt útaf. Þetta kemur mér ekki á óvart þar sem hann hefur verið mjög pirraður í leikjum okkar upp á síðkastið. Ég byrjaði að taka eftir þessu á móti Portsmouth svo aftur í fyrri leiknum gegn Cardiff og svo í umræddum leik. Ef að eitthvað tókst ekki hjá honum þá fórnaði hann höndum í átt að einhverjum liðsmanna sinna eins og hann væri að kenna þeim um það sem miður fór. Jol hefur gert lítið úr atvikinu og sagt þetta bara vera keppnisskapið í honum og ætlar að ræða eitthvað við hann. Mín skoðun er sú að hann þurfi að fá refsingu fyrir þetta. Þá er ég ekki að meina að Jol eigi að kippa honum úr liðinu í nokkra leiki, heldur bara fjársektir eins og Keane fékk í fyrra eða eitthvað í þeim dúr. Jol verður að krefjast virðingar frá leikmönnum sínum og á ekki að láta svona hluti líðast. Þjálfari sem leikmenn virða ekki nær engu út úr liðinu. Annars er þetta bara svona léttvægt mál sem gleymist strax. No Biggy!

Svo eru fréttir þess efnis að við höfum náð samkomulagi við Benfica um kaup á miðverði að nafni Rocha. Ég þekki ekkert til mannsins en býst við að Jol sé að kaupa þarna ágætis mann. Vona allavega að hann hafi snerpu til geta myndiað par við Dawson þegar King er meiddur.

Ég ætla svo að vona að Jol haldi áfram að kaupa þessa ungu efnilegu leikmenn. Hann er bestur í því.

Nú er Jenas að snúa aftur úr meiðslum sínum. Ég hlakka mikið til að sjá Jenas og THUDD spila saman. Ég held að það sé mjög gott dúó.

Ég ákvað að skrifa þennann póst svo að upphitunin sem kemur vonandi í kvöld verði póstur nr. 100. Þetta verður stór upphitun skrifuð á mettíma.

laugardagur, janúar 20, 2007

Fulham 1 - Spurs 1

Já Fulham að verða nýja Wimbeldon liðið í úrvalsdeildinni. Jafnteflin eru orðin æði mörg hjá þeim núna. En það voru jákvæðir og neikvæðir punktar í þessum leik. Ég vona að menn leggi sig jafn mikið fram núna um að hrósa Robbo og þeir hafa verið við að útúða honum. Hann var rosalega góður í þessum leik og líklega okkar besti maður í dag. Hann átti nokkrar stjörnumarkvörslur og tók allt sem honum bar að taka. Montella skilst mér að sé annáluð vítaskytta og það er ekki hægt að gera þá kröfu á markmann að hann verji víti. Þannig að hann var mjög góður. Chimbonda var fínn líka. Gardner var að spila framar mínum vonum, þó þetta hafi nú ekki verið neinn stórleikur hjá honum. Lee var sæmilegur einnig. Malbranque var mjög góður. Það var í raun enginn að spila neinn stjörnuleik (Robbo kemst næst því) og enginn að spila afleitlega (Ghaly kemst næst því).

Framan af fannst mér vera jafnræði með liðunum. Fulham áttu hættulegri færi en mér fannst hvorugt liðið stjórna leiknum. Mér fannst við þó ná yfirhöndinni þegar þeir misstu Heiðar útaf. Við vorum ekkert að yfirspila þá neitt en vorum meira í sókn og líklega meira með boltann eftir það. Okkur hinsvegar tókst ekki að nýta okkur liðsmuninn til fulls. Það má líka segja að leikmenn Fulham hafi bara lagt sig ennþá meira fram eftir að þeir urðu einum færri. Svo kom höggið...

Nú reyndi ég hvað ég gat að sjá í endursýningu hvort Dawson hafi verið með hendina upp að líkamanum eða hvort hann hafi viljandi sett hendina í boltann, eins og dómarinn mat það. Mér reyndar sýndist boltinn fara í brjóstið á Daws. Ég get ekki sagt til um það með algjörri vissu en mér fannst þetta ekki vera víti. En sóknin á að njóta vafans og því kannski eftir þeirri meginreglu sem dómarinn tók þessa ákvörðun. En ég ætla að reyna að sjá einhver video af þessu og vonast eftir betri myndum til að dæma eftir.

Til allrar lukku náðum við þó að jafna leikinn undir lokin. Mark Chimbonda verður nú varla gefið út á videospólu en það telur jafn mikið og hin.

Enn vantar okkur þó fyrsta sigur ársins 2007 í Pl. Hann þarf að koma sem fyrst.

Nú er bara málið að hugsa um landsleikinn í dag og vera kátur. Það er stundum þægilegt að hafa svona púða til að detta á þegar hlutirnir ganga ekki fullkomnlega upp.

föstudagur, janúar 19, 2007

Fulham - Spurs

Það kunna einhverjir að vera hugsa að nú sé næstum því öruggt að útisigur nr. 2 komi hjá okkur. Það er um að gera að vera jákvæður en við skulum ekki búast við auðveldum leik. Fulham hefur ekki tapað leik síðan 9 desember, og ekki tapað heimaleik síðan í nóvember. Við höfum hinsvegar ekki unnið leik í PL á þessu ári, og aðeins unnið einn útileik allt tímabilið. Við vorum að missa Davenport til West Ham og King er ekki leikfær. Það má því kannski búast við að vörnin verði ekkert sérstaklega sterk. Það er auðvitað ekki góðs viti á móti liði sem hefur skorað 7 mörk í síðustu 2 leikjum. Við höfum ekki unnið þá á heimavelli í 5 ár. Við erum að fara mæta Arsenal í undanúrslitum bikarsins 4 dögum seinna og því spurning um hvort okkar leikmenn nái að halda einbeitingu og hvort eða hverjir verða hvíldir í þessum slag.

Það þýðir heldur ekkert að vera svartsýnn á leikinn. Þó Fulham hafi skorað 7 mörk í síðustu 2 leikjum hafa þeir líka fengið á sig 6 mörk í þessum leikjum. Leikmenn Spurs hafa spilað mjög vel í síðustu tveimur leikjum og unnum við t.a.m Cardiff í síðasta leik með 4 mörkum gegn engu. Það er vonandi að það virki sem lyftistöng á sjálfstraust leikmanna. Þó Fulham séu ósigraðir í meira en mánuð er rétt að geta þess að Þeir eiga líka eftir að vinna Pl leik á árinu. Reyndar hafa þeir ekki unnið leik síðan 18 des. Þannig að það hefur verið ansi mikið um jafntefli á þeim bænum. Fulham hefur verið að berjast við mikil meiðsli upp á síðkastið og eru enn. Ég held að við getum alveg staðhæft það að við séum með sterkara lið en Fullham. En útivellirnir eru okkur ansi erfiðir. Það má þá líka orða það sem svo að hungrið í sigur á útivelli magnast með hverjum leiknum. Það einfaldlega hlýtur að vera kappsmál hjá leikmönnum að fara að bíta í skjaldarendur í þessum útileikjum. það má kannski segja að miðað við allt ættum við að sætta okkur við jafntefli. Ég hef hinsvegar trú á því að okkar menn ætli sér allt annað og meira en jafntefli og býst því við sigri okkar manna.

Smá um Fullham

Hjá Fullham leika nokkur kunnugleg andlit. Heiðar "okkar" leikur með þeim. En spurning hvort hann hafi betur í samkeppninni við Montella um sæti í liðinu við hlið McBride. Wayne Routhledge er í láni hjá Fullham en spilar ekki leikinn í ljósi ákvæða í lánssamningi. Svo er þarna fyrrum Spurs leikmaður sem ég hafði alltaf miklar mætur á. Michael Brown var seldur í fyrra til Fulham og verður gaman að sjá hann aftur.

Liðið

------------------Robbo---------------
Chimb.-------Gardner----Dawson----Ekotto
Lennon-------THUDD------Zokora----Steed
-------------Keane-------Berbatov-------

Svona vill ég allavega hafa liðið. Þeir sem eru ekki öruggir tel ég að séu Ekotto, Zokora og Keane. Það hlaut að koma að því að Ekotto fengi séns. Hann spilaði leikinn gegn Cardiff og stóð sig af því sem ég hef heyrt stórkostlega. Hann var gríðarlega öruggur í vörninni auk þess sem hann átti stoðsendingu á Steed í þeim leik. Ég vona svo sannarlega að ég fái að sjá hann spila þennan leik, og þá skuluð þið efasemdarmenn fylgjast með honum (úff stilli sjálfum mér upp við vegg). Ég tel Zokora vera betri kost þarna en Tainio. Þetta verður svakalegur baráttuleikur og því veitir ekki af einum baráttuhundi þarna inn. það gæti líka verið skemmtilegt að sjá Ghaly þarna með THUDD, hann myndi örugglega ná að fiska eitt víti eða svo. Ég spá því að Keane verði settur í framherjann þó það meigi færa góð rök fyrir því að hann ætti ekki að vera þar. Keane sem var nýstiginn upp úr meiðslum spilaði bróðurpartinn af leiknum fyrir 3 dögum gegn Cardiff og því væri kannski eðlilegast að hvíla hann. Ég er hinsvegar að vellta því fyrir mér hvort Jol muni ekki vilja eiga Defoe frískann í leiknum gegn Arsenal? Þess vegna spái ég að Keane muni spila sinn þrjúhundruðasta leik fyrir Spurs og hundraðogfimmtugasta deildarleik sinn fyrir Spurs gegn Fulham. Svo er auðvitað eins og ég kom inná spurning hvort einhverjir verði hvíldir fyrir bikarleikinn á miðvikudaginn.

Dómari leiksins verður Mike Dean sá hinn sami og dæmdi leikinn okkar gegn Charlton í síðasta mánuði sem við unnum 5-1. Vonum að hann færi okkur sömu lukku í þessum leik.

Ég spái leiknum 0-1 fyrir Spurs. Þetta verður barátta þar til leikurinn verður flautaður af og jafnvel lengur.

COYS!

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Upphitun fellur niður.

Það er smá tímaskortur hjá mér núna og því kemst ég ekki í upphitun. Það ætti líka að sleppa þar sem leiknum er ekki sjónvarpað. En svo ég hendi nú inn spá, þá komumst við áfram, mér er sama hvernig við tryggjum okkur áframhald í FA bara að það gerist. segi því 2-1. Ég sé til hvort eitthvað sé um leikinn að segja í kvöld.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Tottenham 2 - Newcastle 3

Úff ég veit ekkert hvernig mér á að líða, hvað þá heldur hvað ég eigi að skrifa.

Við vorum klárlega betri aðilinn í leiknum og okkar menn mættu heldur betur til leiksins með rétt hugarfar. Mér fannst við vinna nánast hverja einustu tæklingu og leikmenn voru svo sannarlega að spila til sigurs. Nema kannski vörnin. Ég held reyndar að það hafi ekkert með hugarfar að gera eða neitt þannig. Eins og ég kom inná í upphituninni grunaði mig að vörnin myndi ekki halda. Í fjarveru King hefur vörnin verið ansi ótraust. Þó einstaklingarnir spili ágætlega spilar vörnin ekki sem heild.

Svo verð ég nú bara að fá útrás fyrir eitt atriði hérna. HVERSU LÉLEGUR TELUR JOL EKOTTO VERA???? Mér finnst það svo svakalega fáránlegt að hann skuli ekki vilja spila með vinstri bakvörð að það nær engri átt. Þó Lee hafi verið stillt upp sem bakverði á skjánum fyrir leik spilaði hann sem vinstri vængmaður. Ég veit vel að bakverðir hafa það hlutverk að hlaupa upp kanntana þegar við erum í sókn, en það er ekki það sem ég er að meina. Þegar Newcastle var í sókn var hann að reyna verjast henni á miðlínunni eða á þeirra vallarhelmingi og svo hljóp hann á eftir mönnum. Það er þannig sem vængmenn spila en ekki bakverðir. Svo þegar Lee fékk bolltann fórnaði hann oftar en ekki höndum eins og hann væri að segja "ætlar enginn að koma að sækja boltann" svo gaf hann boltann til baka. Það er auðvitað fásinna að láta Lee spila sem vængmann þar sem líklega innan við 1% fyrirgjafa hans rata á samherja. Sko Lee er langt því frá lélegur leikmaður. Hann hefur hinsvegar ekki verið að finna sig undanfarið og því furðulegt að Jol telji Lee í lægð betri en Ekotto. Ég er heldur ekki að kenna Lee um hvernig fór. Ég varð bara að koma þessu frá mér. Ég hef verið að spái í hvort Ekotto og Jol hafi nokkuð lennt saman, það er í raun eina rökrétta skýringin sem ég sé á fjarveru Ekotto.

Eflaust eru menn á spursspjallinu að rasa út um hversu lélegur Robbo er og allt það. Mér fannst hann samt ekki vera ábyrgur fyrir neinu markana. Ég get þó viðurkennt það að Robbo í sínu besta formi á það til að verja skot sem eru "óverjandi". Þess vegna get ég tekið undir það að hann er ekki að spila sitt besta tímabil sem komið er, en ég styð hann heilshugar í markinu og bið bara til guðs að hann komist í sitt besta form sem fyrst. Hann er þó langt því frá í mínum huga búinn að vera skelfilegur þetta tímabil. Hann er kannski á einum yfir pari eins og golfararnir segja.

En ég er allavega svolítið svekktur að hafa tapað þessum leik. Það er sárt að uppskera ekki því sem maður sáir. Ef að fótboltinn væri sanngjarn hefðum við unnið leikinn, en því miður getur allt gerst í fótbolta. Þessi leikur hlýtur að verða til þess að þeir mæti brjálaðir á næsta leik gegn Cardiff og skili sigri til okkar stuðningsmannanna á heimavelli.

laugardagur, janúar 13, 2007

Tottenham - Newcastle

Þá er komið að 23 umferðinni. Leikur okkar er gegn Newcastle á heimavelli. Eins og flestir muna skellti Newcastle okkur fyrir jól á heimavelli sínum 3-1. Staðan er örlítið breytt frá því sem var. Fyrir þann leik höfðu Newcastle unnið 5 af 6 leikjum sínum í deildinni. Nú hinsvegar hefur Newcastle aðeins unnið 1 af síðustu 6 leikjum sínum í öllum keppnum (leikinn gegn okkur). En við erum svosem lítið betur settir þannig séð. Við höfum einnig aðeins unnið tvo leiki af síðustu 6 í öllum keppnum. En það sem skiptir öllu máli nú er að við erum að spila á heimavelli. Þar höfum við unnið 11 af síðustu 12 leikjum. Við höfum unnið Newcastle nú í þrjú ár í röð á WHL. Við höfum nú að mínu mati töluvert sterkari hóp en við höfðum gegn þeim fyrir jól, þar sem nokkrir mikilvægir leikmenn eru stignir upp úr meiðslum frá þeim tíma. En að sama skapi hafa þeir einnig verið að endurheimta leikmenn úr meiðslum upp á síðkastið. Þannig að heilt yfir þá held ég að það verði heimavöllurinn sem skili okkur sigri.

Liðið

-----------------Robbo----------------
Chimb.------Daws-----Davenport----Ekotto
Lennon------THUDD----Zokora-------Steed
------------Keane----Berbatov----------

Þeir sem eru spurningamerki eru: Ekotto, Zokora og Keane. Annað held ég að sé nokkuð borðleggjandi. Ég reyndar held að Lee spili leikinn, en ég ætla samt setja Ekotto þarna. Ég skal þó hlífa ykkur við fyrirlestrinum um ágæti Ekotto í þetta skiptið. Ég er kannski ekkert 100% á því að THUDD spili leikinn. Það er svona glæta að Tainio komi inn fyrir hann og spili með Zokora. En mér finnst líklegra að Tainio berjist við Zokora um sætið við hlið THUDD. Það er heldur ekkert víst að Keane spili frammi með Berbatov. Það er allt eins líklegt og kannski eðlilegra að Defoe spili leikinn. En ég hef einhvernveginn það á tilfinningunni að Keane muni spila leikinn. Svo eru King, Jenas og Stalteri meiddir og Mido er tæpur.

Það gætir svolítils óöryggis í öftustu víglínu hjá okkur. Allavega finnst mér síðustu tveir leikir einkennast af óöryggi og þ.a.l mistökum í öftustu víglínunni. Fjarvera King er eðlilegasta skýringin á því. Ég á því ekki von á að við náum að halda hreinu í þessum leik. Það er með ólíkindum að við hljótum þann vafasama heiður að vera það lið í deildinni sem hefur spilað flesta leiki í röð án þess að halda hreinu. Það eru komnir 12 leikir í röð sem við höfum fengið á okkur mark. Það mun ekkert ergja mig neitt ógurlega ef við fáum á okkur mark svo lengi sem við skorum fleirri mörk en við fáum á okkur. Því spái ég leiknum 2-1.

Dómari leiksins verður Stve Bennett.
COYS!

þriðjudagur, janúar 09, 2007

Tottenham - Arsenal (CC)

Jæja þá er ljóst að við eigum leik gegn Arsenal í Carling bikarnum. Arsenal unnu Liverpool 3-6 í kvöld. Ég horfði á seinni hálfleikinn og ég verð að segja að ég er ekki að farast úr bjartsýni. Þó svo að ég sé ekkert fyrir það að rakka niður lið, þá hef ég held ég aldrei dásamað Arsenal. En ég tek svo sannarlega ofan fyrir þeim fyrir framistöðuna í kvöld. Það lið sem getur mætt á Anfield með unglingaliðið (nb. Það voru 7 leikmenn 19 ára og yngri sem komu við sögu í liði Arsenal) og ekki bara unnið heldur skorað 6 mörk á móti liði sem fær örsjaldan á sig mark á heimavelli, fær mína virðingu. Það er nokkuð ljóst á þessum tveimur leikjum sem ég hef séð þá spila á móti Liverpool að þeir eru sjóðandi heitir. Ég hélt að það myndi vinna með okkur að leikjaálagið á Arsenal myndi verða til þess að Wenger myndi mæta með unga og óreynda leikmenn í leikina. Núna hinsvegar sér maður að það skiptir engu máli.

Ég er þó langt því frá búinn að afskrifa okkur. Það eru nokkrir hlutir sem munu vinna með okkur í þessum leikjum og ég hef enn fulla trú á að okkur takist að vinna þessa keppni. En nóg um það að sinni ég fer betur í þessa leiki þegar nær dregur.

sunnudagur, janúar 07, 2007

Cardiff 0 - Spurs 0 (FA)

Ekki tókst okkur að komast upp úr þriðju umferðinni í dag. Þetta var slakur leikur af okkar hálfu og vorum við stálheppnir að fara með stöðuna 0-0 inn í hálfleik. Síðari hálfleikur var aðeins skárri þó leikmenn hafi verið langt frá sínu besta. Það var reyndar mikil meiðsli í leikmannahóp okkar. Ghaly,Mido,King og Jenas stóðust ekki læknisskoðun og Lennon og Keane voru ekki búnir að ná sér af fullu þó þeir hafi komist á bekkinn. Það kannski afsakar ekki slæma spilamennsku okkar leikmanna en kannski skýrir hana af hluta til. Varnarlínan var óhemju ótraust og var eins og gatasigti. Lee var að mínu mati að spila ömurlega í þessum leik. Hann má teljast stálheppinn að hafa ekki átt stoðsendingu á leikmann Cardiff á 15 mín. Ég græt þá ákvörðun Jol mikið að treysta ekki Ekotto í þessa stöðu.

Tainio var heldur ekki að gera góða hluti þannig séð. Hann fær 10 fyrir að reyna en einhvernveginn var lokasnertingin ekki heppnast hjá honum. Murphy stóð heldur ekki undir væntingum í þessum leik. Defoe kom greinilega mjög illa upplagður í leikinn því frá fyrstu mínútu var hann að pirrast og skammast. Í rauninni er eiginlega bara skemmst frá því að segja að enginn leikmaður var að spila á pari við getu, jah nema kannski Davenport. Það kann að skýrast af tvennu. Aðstæður á vellinum voru mjög slæmar þar sem helliringdi látlaust út allann leikinn. Það kann líka að skýrast af því að Cardiff voru að spila frábærlega. Allir leikmenn liðsins voru staðráðnir í því að láta úrvalsdeildarliðið hafa fyrir hlutunum. Baráttan var til algjörrar fyrimyndar. Cardiff á skilið klapp á bakið fyrir leikinn.

En við tökum þá í bakaríið þegar næsti leikur verður spilaður þann 16 jan minnir mig.

laugardagur, janúar 06, 2007

Cardiff - Spurs (FA)

Jæja nú er komið að fyrsta leik okkar í FA bikarkeppninni. Við komum sem fyrr inn í bikarkeppnina í þriðju umferð. Andstæðingar okkar eru Cardiff frá Veils (Welsh). Já FA bikarkeppnin samanstendur af liðum frá Englandi og Veils. Við munum spila þennann leik s.s á Ninjan Park heimavelli Cardiff. Cardiff er eina liðið utan Englands sem hefur unnið þessa keppni. Áhangendur þeirra eru einhverjir þeir ófriðasömustu sem finnast á Bretlandseyjum og er ávallt mikil löggæsla í kringum bikarleikina þeirra. Fyrir sléttu ári spiluðum við í sömu keppni á móti Leichester. Eftir að hafa náð 2-0 forustu náðum við að klúðra málunum og þegar leikurinn var flautaður af höfðu Leichester náð að skora 3 mörk. Lokatölur 3-2 fyrir Leichester og þar með var ljóst að liðið hafði sett félagsmet. Aldrei fyrr höfðum við átt jafn slæmt bikarár og í fyrra. Það má eiginlega segja að þessi leikur hafi verið ákveðinn verndipunktur á síðasta ári. Næstu tveir mánuðirnir skiluðu aðeins einum sigri í hús.

Nú virðist öldin vera önnur. Við höfum nú unnið alla okkar leiki utan PL, engin jafntefli heldur bara sigrar!!! Það er algjört grundvallarmál í mínum huga að vinna þennann leik. Það bara verður að gerast. Ef við náum að vinna þennann leik skiptir framhaldið ekki jafn miklu máli í mínum huga. Aðalmálið er að ná að gera betur í þessari keppni en í fyrra. Ég veit það líka að ef leikmenn ætla sér að vinna þennan leik þá munu þeir bara gera það, jafnvel þó við séum á útivelli. Það held ég að sé borðleggjandi að leikmenn ætla sér að gera betur en í fyrra. Þess vegna er sigur eina útkoman sem ég sé að geti komið úr þessum leik.

Liðið


-----------------Robbo------------------
Stalteri----Daws-----Davenport-----Ekotto
Ghaly------Zokora---Tainio--------Steed
------------Defoe----Berbatov-----------

Ég er svona að gera ráð fyrir að Jol vilji leyfa þeim sem spiluðu hvað mest í jólatörninni að hvílast aðeins lengur. Hann hefur þá samt örugglega á bekknum ef við skyldum lenda í vanda. Ég ætla að skjóta á að Jol hafi ekki verið að refsa Zokora í Pompey leiknum fyrir framistöðuna á móti Liverpool heldur hafi hann verið að hvíla hann. Þessvegna spái ég að THUDD fái smá hvíld. Annars er þetta bara skot í myrkri. Við stöndum á tímamótum nú í meiðslamálum þar sem flestir eru að ná sér af meiðslum. Lennon, Keane, Mido, King og Jenas eru allir annaðhvort byrjaðir að æfa eða við það að byrja að æfa. Það er því spurning hvort einhverjir af þeim fái ekki smá tíma inná vellinum gegn Cardiff.

Ég spái þessu 1-3 fyrir Spurs
COYS!

miðvikudagur, janúar 03, 2007

Liðið (Vinstri Bakvörður)

Vinstri bakvarðastaðan hefur oft verið vandamálastaða hjá okkur. Sú hugmyndafræði sem ég hef um bakvarðastöðuna er sú að bakverðirnir báðum megin verði að vera mjög álíkir. Það sem ég á við með þessu er að bakvörðurinn hægrameginn má ekki vera til baka þegar bakvörðurinn vinstrameginn er sókndjarfur. Þetta þótti mér vanta á síðasta tímabili. Lee og Stalteri voru alltof ólíkir. Lee var jafnvel sókndjarfari en flestir miðjumenn okkar á meðan Stalteri var mun ragari við að hætta sér fram. Færslan á liðinu var því í mjög ójöfn. Ég veit ekki hvort ég er að fara með hlutina of langt og þú sem lest hugsar "rólegur, þetta er bara fótbolti".
Í þessum skrifum nota ég skammstafanir úr ensku, sem margir þekkja úr CM leikjunum. (dc) þýðir þá "defence - Center" (lb) Þýðir þá "left back" eða vinstri bakvörður o.s.frv.
Eins og ég kom inná var Lee að sinna v-bakverðinum í fyrra. Nú virðist hann ekki eiga jafn öruggt sæti með komu Ekotto. Við skulum nú fara yfir leikmennina sem sinna þessari stöðu og taka það svo saman hvort staðan sé sterkari nú en í fyrra.

Benoit Assou-Ekotto (32)
Ekotto er 22 ára gamall Frakki/Kamerúni. Hann er fæddur 24 mars árið 1984 í Arras í Frakklandi. Foreldrar hans eru frá Kamerún og hefur því Ekotto tvöfalt ríkisfang. Ekotto fékk kall frá liðið Kamerún í Afríkukeppnina fyrr á þessu ári en hafnaði tilboðinu af persónulegum ástæðum. Margir vilja meina að hann hafi hafnað tilboðinu af þeirri ástæðu að hann setji markið á franska landsliðið.

Ekotto hóf atvinnumannaferilinn af alvöru 20 ára gamall þegar hann spilaði sinn fyrsta leik með Lens í Frakklandi gegn PSG. Ekotto kom upp í gegnum unglingastarf Lens. Hann spilaði 66 leiki með Lens og var á síðasta tímabili einn besti vinstri-bakvörðurinn í frönsku deildinni. Hann átti fast sæti í liði Lens á síðasta tímabili sem endaði í 4. sæti í deildinni. Eftir tímabilið voru mörg stór lið á eftir kappanum. Hann var talinn eitt mesta efnið í Frakklandi. Það var þó draumur hans um að spila á Englandi sem varð til þess að aldrei var spurning í hans huga á hvaða blað hann ætti að skrifa nafn sitt. Í júní skrifaði hann svo undir samning við okkur og var kaupverðið um 3,5 millj punda. Ekotto þykir fjölhæfur leikmaður og spilaði þar til fyrir 2 árum alltaf stöðu miðjumanns (mc) hann var svo fenginn eitt sinn til að leysa stöðu v-bakvarðar og vakti mikla athygli með framistöðu sinni. Hann þykir einnig liðtækur sem vinstri vængmaður.

Ekotto hefur að mínu viti tekið svolítið við hlutskipti Stalteri í fyrra (fyrrihluta tímabils). Hann er mjög yfirvegaður og er ekki mest áberandi maðurinn á vellinum. Það kann að skýra það að hann hefur ekki fengið það hrós sem hann á skilið. Hann hefur skilað varnarvinnunni mjög vel það sem af er tímabili. Þessi gagnrýni kann líka reyndar að skýrast af hluta til af því að hann er að spila í skugganum af besta hægri-bakverði í deildinni Chimbonda. Við skulum ekki gleyma því að þetta er leikmaður sem er 22 ára gamall og spilaði sinn fyrsta "top flight" (kann einhver íslenskt orð yfir þetta?) fótbolta fyrir tveimur árum. Hann kemur frá Frakklandi þar sem fótboltinn er gjörólíkur enskum fótbolta. Það er því undravert miðað við þetta hversu fljótur hann er að aðlagast liðinu. Ég tel mig sjá það í leik hans að hann gæti myndað mjög gott mótvægi við Chimbonda. Mér finnst ég sjá það á leik hans að hann er mjög góður framávið þó hann hafi ekki enn fullt sjálfstraust til að beyta sér mikið framávið. Það er í raun sorglegt að umræðan var nánast engin fram að Arsenalleiknum en eftir hann hefur hann mátt sæta mjög harðri gagnrýni.

Samantekt
Að mínu viti hefur Ekotto spilað með miklum ágætum það sem af er tímabili. Ef við tökum það með í dæmið að þetta er leikmaður sem hóf að spila alvöru fótbolta fyrir tveimur árum við gjörólíkar aðstæður er hann búinn að spila frábærlega. Við skulum ekki gleyma því að þessi leikmaður er ekki á hátindinum. Hann er enn bara ungur og efnilegur. Hann á bara eftir að verða betri. Hann er að mínu viti okkar besti kostur í vinstri-bakvörðinn. Ef hann og Chimbonda eiga eftir að ílengjast hjá liðinu eiga þeir eftir að verða okkur ómetanlegir. Ég hvet alla sem efast um leikmanninn að veita honum meiri athygli í leikjunum og horfa á hann án allra fordóma.


Young Pyo-Lee (3)
Lee er suður-kóreskur landsliðsmaður. Hann er fæddur 23 apríl 1977 og er því 29 ára gamall. Hann er 178 cm á hæð og um 70kg. Lee var keyptur frá Psv Eindhoven í ágúst árið 2005 á tæpar 1,4 millj punda. Hann er líkt og Ekotto mjög fjölhæfur leikmaður sem getur spilað hægra og vinstramegin á vellinum. Áður en hann kom til Psv spilaði hann mikið sem miðjumaður (mc). Lee býr yfir miklum hraða og ég held að hann búi einnig yfir mikilli knatttækni. Mér þykir Lee ekki enn hafa sýnt sitt besta með Spurs. Hann má eiga það að hann er ekki latur og var svolítið ranglega gagnrýndur á síðasta tímabili. Það var kannski til of mikils ætlast af honum í fyrra. Hann nánast bar upp sóknarleik liðsins. Þetta var til þess að hann fór mikið úr stöðu sinni og Davids sem var oft á vinstri kanntinum átti að taka stöðu hans í bakverðinum. Davids var sjaldnast að sjá um þá hlið mála og var því Lee oft kennt um að vinstri vængurinn væri of opinn. Hann hefur hinsvegar sýnt það að hann er prýðis varnarmaður og ágætis sóknarmaður. Hann er mjög mikilvægur fyrir liðið þar sem hann getur leyst báðar bakvarðastöðurnar með sóma. Ég skal viðurkenna að Lee fær sjaldnast sanngjarna gagnrýni hjá mér. Það er eitthvað í leik hans sem mér finnst gefa það til kynna að hann sé að halda aftur af sér. Það vantar eitthvað sjálfstraust. Oft þegar hann geystis upp völlinn finnst mér eins og hann geti gert lítið úr varnarmanninum ef honum sýnist, en svo kemur sendingin til baka. Það má því segja að hann fái ekki sanngjarna gagnrýni frá mér því ég hef meiri trú á honum en hann sjálfur. Ég gleymi því ekki í fyrra þegar hann ákvað að sóla Steve Finnan upp úr skónum gegn Liverpool. Ég man svo einusinni eftir að hann hafi gert þetta á þessari leiktíð. Málið er bara að hann reynir helst ekki þessar gabbhreyfingar. Það er svo mikið vopn í höndum leikmanna sem hafa þennan hraða sem Lee hefur, að geta sett varnarmanninn út af laginu með einni eða fleirri gabbhreyfingu, þá er hann sloppinn innfyrir.

Samantekt
Lee er eins og ég kom inná ómetanlegur liðsstyrkur. Hann gefur Chimbonda og Ekotto lítið eftir og ef annar þeirra meiðist veikist liðið ekki mikið. En Lee er ekkert unglamb lengur. Mér finnst mikilvægara að Ekotto fái að dafna í vinstri bakverðinum. Ég
myndi alls ekki vilja missa Lee frá okkur.

Dorian Dervite (35)
Dervite er franskur unglingalandsliðsmaður. Hann er aðeins 18 ára gamall. Það fer kannski að missa marks ef ég minnist á að þessi leikmaður sé líka fjölhæfur, en hann er það nú samt. Þetta er einn af stærri mönnum Spurs. Hann er 193cm á hæð. Hann spilar jafnt í vinstri- bakverðinum sem og í miðri vörninni. Hann er mjög líkamlega sterkur og ákveðinn. Hann þykir einnig hafa furðugott vald á boltanum miðað við líkamsburði. Dervite Kom frá Lille í sumar þar sem miklar vonir voru bundnar við hann. Hann þykir geysilega efnilegur og hefur verið fyriliði u- 18 liðs Frakka. Dervite hefur spilað einn leik með aðaliði Spurs þegar hann spilaði bikarleikinn gegn Port Vale. Hann spilaði þá stöðu varnarmanns (dc).

Samantekt
Það sem ég veit um manninn er bara það sem ég hef lesið. Ég á enn eftir að sjá hann spila. Af því sem ég hef lesið virðist þetta vera þrælefnilegur leikmaður. Það kæmi mér ekki á óvart þó hann færi að banka hressilega á dyrnar eftir c.a 2 ár. En líklega sjáum við lítið af honum þetta tímabilið, enda aðeins 18 ára.

Reto Ziegler
Reto er skv. heimasíðu Spurs skrifaður sem vinstri bakvörður. Ég get ekki séð að hann sé góður í þeirri stöðu. Ég held að vinstri vængurinn sé miklu frekar hans staða. Allavega mun ég taka hann fyrir þegar ég fjalla um vinstri vænginn.


Heildarniðurstaða
Ég tel þessa stöðu standa mun sterkara núna heldur en í fyrra. Það er ekki aðeins vegna komu Ekotto, heldur líka komu Steed Malbranque. Nú getur vinstri bakvörðurinn spilað sem slíkur. Ég tel það ekki vera góða taktík að láta alltaf bakvörðinn geysast fram og að vængmaðurinn dekki hans stöðu á meðan. Að sjálfsögðu er gott þegar bakvörðurinn hjálpar til á vængnum með því að koma í yfirhlaup eða annað slíkt. En mér finnst það ekki ganga að í hvert sinn sem liðið sæki eigi vængmaðurinn að detta til baka og bakvörðurinn tekur stöðu hans. Koma Ekotto og Dervite hefur að sjálfsögðu mikið að segja. Þannig að við stöndum betur nú en í fyrra hvað Vinstri bakvörðinn varðar.

Næst mun ég taka fyrir stöðu Miðvarðar (dc)

mánudagur, janúar 01, 2007

Portsmouth 1 - Spurs 1

Jafntefli á móti Portsmouth hefðu talist slæm úrslit fyrir þetta tímabil. En eins og þeir hafa verið að spila það sem af er tímabili er maður bara nokkuð sáttur við úrslitin. Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir okkar menn. Hossam Ghaly missti 4 tennur og hlaut skurði á andliti þegar fyrrum leikmaður Spurs Noe Pamarot sparkaði í andlit Ghaly. Þulirnir sögðu að þetta ætti að vera gult spjald en ég veit ekki? Ghaly beygði sig ansi langt niður eftir boltanum og ég efast um að Pamarot hafi séð Ghaly. Allavega vill ég ekki saka hann um að hafa gert neitt viljandi. Það má vel vera að Pamarot hafi kannski lyft fætinum of hátt, það má vera að það réttlæti gult spjald en ég held að þetta hafi bara verið slys. Það var allavega mjög óhugnarlegt að sjá það í endursýningu þegar tennurnar spýttust úr munni Ghaly. Ghaly fær hinsvegar risastórann plús í kladdan hjá mér fyrir að spila allann fyrri hálfleikinn hálftenntur. Sem betur fer fundust allar 4 tennur Ghaly og þær sendar með honum í umslagi til tannsa í hálfleik.

Liðin voru mjög jöfn á vellinum og hvorugt liðið náði að yfirspila hitt. Portsmouth komst yfir í fyrrihálfleik. Það er ekki hægt að kenna neinum um markið. Skotið hrökk af Davenport og því náði Robbo ekki að koma í veg fyrir það. Murphy kom inná í hálfleik fyrir Ghlay og átti stoðsendinguna á Steed sem skallaði bolltann í netið. Ég hreinlega skil ekki af hverju Murphy er ekki að spila meira. Hann hefur að mínu mati verið mjög góður í þau fáu skipti sem hann fær að spila.

Það var svo mjög skemmtilegt atvik sem átti sér stað í seinni hálfleik þegar Sean Davis fyrrum leikmaður Spurs braut á Lee. Þetta var klárt brot og ekkert við það að athuga að manni fannst. Hinsvegar var Davis ekki á sama máli og til að útskýra það fyrir dómara leiksins hvað hafði gerst tók hann sig til og fleygði sér í jörðina, til að gefa það til kynna að Lee hafi nú fallið helst til of auðveldlega. Þetta var nú með því fyndnara sem ég hef séð á vellinum.

En eins og áður segir er ég nokkuð sáttur með úrslitin. Portsmouth hefur aðeins tapað einum heimaleik á tímabilinu og við aðeins unnið einn útileik. Portsmouth er líka búið að koma mikið á óvart þetta tímabilið og því var jafntefli sanngjarnt og ásættanlegt.

Besti maður Spurs var án nokkurs einasta vafa Dimitar Berbatov. Þessi leikmaður er að mínu viti einn af 5 bestu framherjum deildarinnar í dag.

Nú fá leikmenn nokkurra daga kærkomna hvíld. Ég held að Chimbonda, Defoe, Dawson og fleirri taki hvíldinni fagnandi.