mánudagur, júlí 31, 2006

Tvenna dagsins

Stuðningur úr óvæntri átt.
Nú þekkja allir Tottenhammenn orðið "coys". Þetta er skammstöfun á slagorðinu Come On You Spurs, eða "koma svo Spurs!". Nú eru jafnvel önnur lið í deildinni farin að nota þetta slagorð okkur til stuðnings. Það er ekkert nema gott að hjarta annara liða slái svona annað hvert slag til okkar. Ef þið klikkið á þennann link sjáið þið hvað ég á við http://www.comeonyouspurs.co.uk ;) Það væri ekkert nema gaman ef fleirri lið myndu tileinka sér þá stefnu að hvetja okkur "sofandi risana" til dáða. Manchester Utd myndi t.d hafa lénið á heimasíðu sinni "the-future is-bright-the-future-is-lillywithe" o.s.frv.

King
nú var ég að lesa ansi skrýtna frétt um það að King væri að fara í hnéuppskurð. Það kom í ljós í nóv/desember í fyrra að King þyrfti að fara í uppskurð á hnéi sem myndu kosta hann tveggja mánaða fjarveru. Jol tók það ekki til greina að það yrði gert þá vegna mikils leikjaálags og sagði að þetta væru meiðsli sem gætu beðið aðhlynningar. Talandi um að fresta vandamálunum! Af hverju er King ekki löngu farinn í þennann uppskurð? Eru menn sem metnir eru á milljarða virkilega látnir skakklappast þar til þeir hnýga niður? Ekki skrýtið að King hafi verið svona mikið meiddur í löppunum undanfarið ár!

sunnudagur, júlí 30, 2006

Tottenham 2 - Inter 1

Í aðdraganda leiksins:
Æfingaleikur okkar við Inter fór fram í dag. Eftir að hafa eytt nokkrum klukkutímum í tölvunni og eftir að hafa dánlódað fjöldanum öllum af einhverju rusli fann ég loksins stöð sem sýndi leikinn. Í örvæntingu minni ýtti ég bara stanslaust á "Yes" í hvert skiptið sem tölvan kom með spurningar. Nú er tölvan full af einhverju drasli og sjálfsagt vírusum. En þegar ég loksins komst inn á einhverja asíska stöð og leikurinn byrjaði náði ég svo góðum gæðum að ég hefði aldrei trúað því.

Leikurinn
Við spiluðum í dag í brúnum búningum ( þriðji búningurinn eins og það er kallað) með gulllituðum röndum. Ég er ekki alveg að fíla þessa búninga en það kannski kemur. Byrjunarliðið var skipað eftirfarandi mönnum (4-3-3):
------------------------Cerny----------------
Routhledge----Davenport--Daws------Ekotto --
Tainio------Huddlestone----Davids-------
-------Keane-------Berbatov------Defoe------
Leikurinn byrjaði ágætlega. Við náðum fljótt yfirhöndinni í leiknum og strjórnuðum honum nánast frá upphafi til enda. Án þess að hafa neinar tölfræði upplýsingar held ég að við höfum örugglega verið svona 65% með boltann. Það er svona mín tilfinning. Inter voru þó hættulegir í leiknum og beittu skyndisóknum með hinum fótfráa Martins í fremstu víglínu.
Leikurinn stóð aldrei undir væntingum. Þó stuðningsmenn hafa örugglega haft gaman af því að fylgjast með nýju mönnunum okkar þá var þessi leikur mjög leiðinlegur. Það er eitthvað svo niðurdrepandi að horfa á leik þar sem leikmenn eru ekki að leggja allt undir. Menn nenntu ekki að hlaupa fyrr en þeir fengu boltann í fæturna og þá stóðu hinir kjurrir og biðu eftir því að fá sendingu. Ég er ekki bara að tala um okkar menn. Það var alveg ljóst að bæði lið vissu að þetta var leikur sem skipti engu. Það voru þó nokkrir leikmenn sem voru þarna til að sanna sig fyrir þjálfaranum og reyndu sitt besta.

Fyrsta markið var sjálfsmark. Þrumufleigur frá Tainio af 20 metra færi sem fór í varnarmann og skildi Toldo eftir varnarlausann 1–0.
Skömmu síðar átti Inter skot að marki sem Cerny náði að verja glæsilega en Martins kom og hirti lausann boltann og skoraði 1-1.
Tainio innsiglaði svo sigurinn á 80 mín með glæsilegu marki, þegar hann óð upp allann völlinn og skaut vinstrifótarskoti af 20 metra færi fram hjá Toldo. 2-1 lokatölur.

Einkunir
Cerny: Stóð sig vel í markinu. Það reyndi nokkrum sinnum á hann og hann kom vel út úr leiknum (spilaði reyndar bara fyrri hálfleik). Einkun 7.

Routledge: Var einn af þeim mönnum sem voru að reyna að sanna sig á vellinum í dag. Hann lagði mikið í leikinn og gerði sitt besta. En einhvernveginn náði hann aldrei að klára það sem hann byrjaði á. Lélegar sendingar og lélegur varnarleikur. Einkun: 6

Dawson: Spilaði óaðfinnanlega eins og vanalega. Hann var svosem ekkert að henda sér í tæklingar eða aðrar dramantískar aðgerðir (enda vináttuleikur). Það reyndi nú heldur ekkert mikið á hann í leiknum. Sóknaraðgerðir Inter (þá einkum í seinni hálfleik) voru yfirleitt kæfðar á miðjunni. Einkun 8

Davenport: Mér fannst hann alls ekkert sérstakur í leiknum. Hann gerði engin mistök eða neitt, en mér fannst hann bara ekki vera í takt við leikinn. Hann hvarf alveg í fyrri hálfleik og stórann hluta seinni hálfleiks. Einkun 6

Ekotto
: Spilaði svo sem ekkert frábærlega. En maður sá samt að í þessum manni búa miklir hæfileikar og þegar hann nær að aðlagast liðinu og leiksikipulaginu verður hann brilljant. Hann er mjög góður varnarmaður og með mjög góðar sendingar. Hlakka til að sjá meira af honum í vetur Einkun 7

Tainio: Býst við að flestir fjölmiðlar velji hann mann leiksins. Ég er hins vegar á því að hann hafi ekki unnið fyrir því. Hann var ekki að spila neitt svakalega vel. En svo komu svona ein og ein sókn þar sem hann setti allt í gang og tók á rás. Það var eins og hann nennti þessu ekki en tæki svona einn og einn sprett til að sýna hvernig ætti að gera þetta. Ef hann getur gert það sem hann gerði í nokkrum sóknum í dag í 90 mínútur þá erum við í góðum málum í vetur. Einkun 7,5 fær mínus fyrir að halda ekki tempói

Huddlestone: Þessi maður er náttúrulega ekkert minna en þurs að vexti. Sýndi annað slagið góða takta en eins og margir aðrir var eins og hann væri ekki að leggja allt sitt í leikinn. Einkun 6,5

Davids: Nú hef ég ekkert verið mikill Davids aðdáandi. En hann kom bara sæmilega út úr þessum leik. Það er eitt sem maður getur bókað að fá frá honum og það er barátta. Hann var líka að taka svolítið þátt í sókninni og gerði það ágætlega. En mér finnst oft eins og baráttan sé of mikil hjá honum og það var engin undantekning í þessum leik. Davids á það oft til að hlaupa í manninn með boltann og reyna að ná honum. Þetta gerir það að verkum að hann er oft kominn úr stöðu sinni. Hann er of villtur. En í leik þar sem menn lögðu lítið á sig fær Davids klapp á bakið. Einkun 7.

Defoe: Var mjög beittur í upphafi leiksins og sýndi gamalkunna takta. Allt í einu sá ég hvað vantaði í Defoe síðari hluta síðasta tímabils. Það geyslaði af honum sjálfstraust og öryggi. Hann var frábær fyrsta hálftímann en svo fannst mér aðeins draga af honum, en hann var samt að standa sig ágætlega restina af leiknum. Einkun 7.

Berbatov: Það var gaman að sjá hann í dag. Ég sver það að þessi maður er bara klón af Mido (allavega í þessum leik). Þeir spila nákvæmlega eins. Ég get ekki komið því fyrir mér hvað það er nákvæmlega sem varð þess valdandi að mér fannst þetta en bara að horfa á hann var eins og að horfa á Mido (fyrir afríkumót). Hann var sæmilegur í þessum leik. Engin tilþrif og engar rangar ákvarðanir. Berbatov þarf að fá meiri aðstoð til að geta spilað vel. Hann lofar þó góðu. Einkun 7

Keane: Var alls ekki að spila neitt áberandi illa miðað við aðra leikmenn em mér fannst hann vera þarna á vellinum til að slaka á. Hann náttúrulega var að brillera á síðasta ári. Það var dugnaðurinn sem kom honum svona langt í fyrra. En dugnaðurinn var lítill í þessum leik. Ég man varla eftir því að hann hafi tekið sprett í leiknum. Þetta var mest bara skokk á honum. Einkun 6 því hann var bara spila á hálfu tempói.

Varamenn
Fullop: Kom inná fyrir Cerny í seinni hálfleik og fékk ekkert tækifæri til að sanna sig í markinu. Það komu engin almennileg skot og hann sást ekki. Einkun: Get ekki dæmt hann af neinu, reyndi aldrei á hann.

Ghaly: Þarna er leikmaður sem ég vill sjá meira af. Hann er léttur á sér mjög kvikur í hreyfingum og útsjónarsamur. Hann fékk reyndar bara nokkrar mínútur en var samt með flott hlaup án bolta og bauð sig í hvert skipti sem þjarmað var að leikmanni okkar. Hann gerði reyndar ekkert stórkostlegt í leiknum en maður sá á honum að hann hefur hæfileikana til að gera góða hluti. Einkun 7,5

Murphy: Hann gerði ekkert og sást ekkert í þessar nokkrar mínútur sem hann var inná. Einkun 5. Ég vill sjá hann á sölulista.

Heilt yfir
Leiðinlegur leikur! Leikmenn lögðu sig ekki fram. Þeim til varnar þá er þetta ekki leikur fyrir áhorfendur heldur til að meta stöðu liðsins og bæta það sem bæta þarf. Gaman samt að sjá okkar menn þegar þeir tóku rispur, en þær voru of fáar til að gera leikinn skemmtilegan.

Slæmar og góðar fréttir.

Nú voru að berast þær fréttir að Ledley King verði frá næstu 2 mánuðina. Þetta eru hrikalegar fréttir! Þetta fékk mig samt til að hugsa svolítið. Mér finnst Ledley vera búinn að vera mjög mikið meiddur. Hann hlýtur að flokkast undir það sem kallast "injury prone player". King missti einnig af upphafsleikjum síðasta tímabils vegna meiðsla, reyndar missti hann af einum þriðja af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla. Mér telst til að á síðasta tímabili hafi hann misst af 13 leikjum í 5 meiðslalotum svo eins og allir vita missti King af HM vegna meiðsla. Þetta eru gríðarlega mikið af veikindadögum. Nú vitum við sem eitthvað vitum um Tottenham að King er einn sá allra besti þegar hann er heill. King á að vera leiðtoginn okkar. En þegar menn eru eins mikið fjarverandi og hann hefur verið þarf að endurskoða málið. Þegar menn eru svona mikið meiddir þá er ekki lengur hægt að treysta á þá. Við þurfum að hafa varamann sem getur fyllt skarðið. Það er mitt mat að Gardner kemst ekki nálægt því að fylla skarð King í vörninni. Davenport er auðvitað ekki sá leikmaður heldur. Spurningin er þá hvort við getum ekki sett Huddlestone í vörnina. Hudd spilaði oftast sem slíkur í varaliðinu (nema undir það síðasta) við góðann orðstýr. Ég allavega get ekki treyst King til að covera þessa stöðu í vetur nema að hluta til og einhver verður að fylla skarðið hans í þeim leikjum sem hann mun koma til með að missa af.

Nú koma hinsvegar góðar fréttir til að vega upp hinar fréttirnar. Reyes vill fara frá Arsenal! Hann segist vera kominn með heimþrá og hafi í raun aldrei náð að festa rætur í London. Hann hefur með óbeinum hætti kallað á hjálp til Real Madrid. Sky Sports

laugardagur, júlí 29, 2006

Slúður dagsins!

Jæja nú ætla ég að slúðra svolítið. Það er enginn fótur fyrir neinu af þessu svo ég viti en ég ætla samt að tala svolítið um þetta. Nú hef ég sambönd inn á lokaða msn grúbbu sem snýst einvörðungu um Spurs. Þar kom maður sem sagðist hafa mjög góðar inside info um að Jol væri að fara undirbúa tilboð í Mido.
Undir lok tímabilsins vorum við í samningsviðræðum við Roma um kaupverð Mido. Það ríkti samkomulag um kaupverðið. Roma hinsvegar bakkaði með það allt saman og vildi hækka verðið um rúm 30%. Þessi viðskipti kærðu forráðamenn Spurs sig ekki um og hættu viðræðum við Roma. Roma taldi sig geta fengið góðann pening fyrir Mido þar sem þeir töldu að hann hefði sannað sig. Annað kom á daginn og einungis Blackburn hafa sýnt honum alvarlegan áhuga, en áhuginn var ekki gagnkvæmur. Nú er hinsvegar ekkert að gerast í málum Mido og hann vill finna sér nýtt lið.
Nú hafa Roma séð að Mido var ekki eins eftirsóttur og þeir héldu í upphafi. Það er því talið líklegt að þeir myndu taka tilboði í Mido sem myndi hljóða upp á ca. 4 millj £. Það var einmitt upphæðin sem Spurs voru tilbúinir að borga fyrir hann. Þar sem Jol og Mido hafa sama umboðsmann hefur það því borist Jol til eyrna að Mido sé falur fyrir þennann pening og vilji spila. Jol vill fá annann góðann stórann framherja.
Það er gaman að velta þessu fyrir sér. Ég væri glaður maður ef þetta væri satt. Ég sakna Mido. Það er líka oft sagt með þessa stóru menn að þeir þreytast fyrr í leikjum en þeir minni. Það væru endalausir möguleikar í sókninni með fjóra góða framherja. Ég bið til guðs að það leynist eitthvert sannleikskorn í þessu.
Ég ítreka enn og aftur að þetta er slúður af verstu gerð og aðeins sett fram til gamans.

föstudagur, júlí 28, 2006

Forest Gump

Carrick farinn til Utd.

Það er ekki minn siður að fara ófögrum orðum um leikmenn, en nú get ég ekki hamið mig um það.

Alltaf hef ég haft þann grun að Carrick gengi ekki alveg heill til skógar. Þá er ég ekki að ræða um hann sem knattspyrnumann heldur sem mann. Ég hef alltaf haft það á tilfinningunni að hann sé svona "on the slow side". Ég held að það gæti verið erfitt fyrir mann sem kominn er yfir kynþroskann að tala við hann. Þið skiljið hvað ég er að fara. Ég vissi alltaf að ef Carrick sæi eitthvað glitra myndi það fanga huga hans. Þess vegna kom það mér ekkert á óvart að hann vildi fara til Man Utd. Ég stóð nú samt alltaf í þeirri trú að hann hefði umboðsmann sem hefði það hlutverk að hafa vit fyrir honum.
Bandaríkjamenn eru sagðir hafa kosið Bush þar sem hann væri people's person, þ.e hann féll inn í hópinn. Nú hallast ég að því að umboðsmaður Carrick hafi verið ráðinn af sömu forsendum. Hann er á pari við Carrick í vitsmunaþroska.
Nú er það í mínum huga ljóst að hugsunin við að fara til Man U hafi verið að fara til betra liðs. Það eru held ég ekki peningar þar sem við gátum gefið honum peninga. Þannig að þeir félagar hafa haldið að grasið sé grænna hinumeginn. Það þarf engann snilling til að sjá heimskuna í þessu. Þetta lið byggir á mönnum sem eru búnir að ná hátindinum og eru á niðurleið (Giggs, Van Der Saar, Scholes, Neville). Þetta er lið sem róterar Scholes og Fletcher!!! Come on!. Liðið var rétt í þessu að selja markamaskínuna Nistelrooy. Ronaldo er jafnvel á leiðinni frá félaginu. Þetta er lið sem er með stjóra sem er búinn að fæla frá sér fjöldann allann af stórstjörnum með fáránlegri hegðun s.b.r Beckham, Staam og Nistelrooy. Carrick þarf nú að spila í skugga Roy Keane sem er hampað sem dýrlingi á Old Trafford.
Er einhver sem getur sagt mér hvar skynsemina í þessu öllu saman er að finna. Tottenham er ungt lið á uppleið á meðan Man U er á niðurleið.
Ég gæti líka tekið þann pól í hæðina að rakka Carrick niður með því að segja að hann hafi óttast samkeppnina. Að hann hafi séð fram á að vera e.t.v varamaður þar sem Zokora er kominn og Huddlestone sé að ná Carrick að getu. Það er leiðinleg leið. Auðvitað hefði Carrick alltaf verið fyrsti kosturinn í liðið. Meira segja Carrick hefur örugglega áttað sig á því.

ohhhhggg! ég er svo fúll yfir þessu! Ég á samt örugglega eftir að þakka honum fyrir tímann hjá okkur seinna. Akkúrat núna er mér bara ekki þakklæti í huga. Kannski á þessi færsla eftir að hverfa þegar mér rennur reiðin, en þangað til Enjoy!

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Nýr spursari bætist í hópinn!

Nú er staðan í vinnunni minni sú að þar eru allir Liverpoolmenn nema ég. Svo þegar nýr maður kom til okkar fyrir rúmu ári síðan var hann að sjálfsögðu spurður út í hvaða lið hann héldi með í enska boltanum. Hann svaraði þá fljótt "með besta liðinu". Ég var fljótur að stökkva upp og sagði "Ég er líka Tottenhammaður". Hann hafði ekki hundsvit á fótbolta og hefði eflaust getað spjarað sig vel í Íslensku Nördunum á Sýn. Síðan þá hef ég mikið verið að fræða hann um Spurs þó svo hann sé ekki alveg jafn áhugasamur. Hann er samt farinn að kalla sig Spursara og það er fyrsta skrefið. Hann er þó kominn svo langt að getað þulið upp allavega 12-15 leikmenn í Spurs. Nú hef ég verið að hvetja hann til að lesa bloggið mitt og reyna að koma sér svolítið betur inn í þetta. Í staðinn hef ég ákveðið að leggja mig fram um að læra svolítið inn á einhvern déskotans tölvuleik sem hann stundar. Til að fá þennann vinnufélaga minn til að glöggva sig örlítið betur á málefnum Spurs hef ég ákveðið að setja link á player profile inn á öll nöfnin á leikmönnum okkar sem ég hef skrifað um. Það er svo aldrei að vita nema þessi maður frelsist og tileinki líf sitt Tottenham Hotspurs.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Þriggja marka sigur!!!

Finaly!!!!
0-3 sigur á Stevenage borough. Þetta hefði átt að vera mun stærri sigur. 15-0, 15-1 hefði verið sanngjarnt í þessum leik. Markmaður Stevenage Borough var víst sá sem kom í veg fyrir að sigurinn yrði stærri. Lýsendur leiksins sögðu að þeir hefðu horft á markmenn eins og Grobbelar, Seamen, Clements, Schmeichel og fleirri en sjaldan séð markmann standa sig jafn vel og Danny Potter gerði í þessum leik.

Enn halda góðu fréttirnar áfram með framherjana okkar. Defoe skoraði 2 mörk í þessum leik (annað úr víti) og Berbatov eitt úr víti. Við skulum ekki gleyma því að við erum enn án HM leikmannana okkar. Við stilltum liðinu aftur upp í 4-3-3 MÖRKIN

Glæsilegt að ná að vinna sannfærandi. Ég vill sjá okkur halda þessu áfram í næstu leikjum. Næsti leikur er einmitt gegn Inter Milan á WHL 30 júlí. Það verður spennandi rimma.
------------------------------------------------------------------

Ég var að lesa alveg geggjaða grein á netinu rétt í þessu. Þarna er íþróttafréttamaður í USA sem hefur ákveðið að fylgjast með enska boltanum í vetur. Hann ákvað að velja sér lið í deildinni eftir ákveðnum prinsip reglum. Það er frábært að lesa þetta allt og gaman að sjá mann sem veit ekkert um enska boltann velta fyrir sér hvaða lið hann ætli að halda með. Hvaða lið er áhugaverðast og mest heillandi liðið til að halda með í boltanum í dag?
SMELLIÐ HÉR (ATH! 2 blaðsíður)

sunnudagur, júlí 23, 2006

Mido

Komment frá mér inná Spursspjallinu:

Ég er orðinn mjög þreyttur á að lesa hérna inni hvað menn hafa gleymt miklu varðandi Mido. Mér finnst eins og menn séu ekki alveg að átta sig á því hvað við höfum misst. Kaupin á Berbatov virðast vera nóg til að allir gleymi bara Mido. Ég ætla því að skrifa smá kveðjupóst til Mido. Nokkurskonar uppgjör.

Ég er held ég enginn rosalegur Mido dýrkandi. Ég skal viðurkenna að ég held mikið upp á hann og hef miklar mætur á kappanum. Ég vill samt meina að það skýrist af rökum en ekki vegna blindu af völdum dýrkunar. Það sem ég er að fara skrifa er kannski ekki hlutlausar staðreyndir um Mido. Ég er að reyna að rifja upp fyrir mönnum af hverju hann var jafn vinsæll á WHL og raun var (og er, við höfum nú ekki gleymt Mido).

Ég skal bara segja það strax til að koma í veg fyrir allann misskilning að Keane er sá framherji sem stóð sig best á tímabilinu. Hann var stöðugur og góður allt tímabilið. Margir segja að hann hafi ekkert verið að standa sig neitt alltof vel fyrir áramót en frábærlega eftir áramót. Ég mótmæli því algjörlega. Keane var kallaður supersub fyrir áramót og varð svo bara súber leikmaður eftir áramót.

Mido er ekki langt þar á eftir. Mido var stórkostlegur þetta tímabilið líka. Fyrir þá sem fussa og sveija núna skal ég færa rök fyrir máli mínu. Ég er búinn að liggja svolítið yfir tölfræðinni á framherjunum og hef fengið mjög athyglisverða útkomu. Ég er með tölfræði fyrir Mido, Keane og Defoe. Ég nennti ekki að hafa Rasiak eða Barnard inn í þessu.

1)Mido er eini framherjinn okkar sem er með jákvætt sigurhlutfall. Við sigruðum í 54% leikjanna sem hann byrjaði inná.

2)Mido og Keane er eina framherjaparið sem var með jákvætt sigurhlutfall. Við sigruðum í 57% leikjanna þar sem þeir byrjuðu inná saman.

3)Án Mido var Keane aðeineins með 42% vinningshlutfall, þ.e þegar hann spilaði ekki með Mido sér við hlið vann hann aðeins 5 af 12 leikjum.

4)Án Mido var Defoe aðeins með 36% vinningshlutfall. Vann 5 af 14 leikjum.

5)Mido og Defoe eru með sama vinningshlutfall og Keane og Defoe.

6) Mido er sá framherji sem hefur verið í fæstum tapleikjum okkar á tímabilinu.

Erum við að sjá einhvern samnefnara í þessu? Það væri með réttu hægt að segja að Mido hafi verið okkar sigursælasti framherji þetta tímabilið.

En það var lítið um stóra sigra á þessu tímabili og bera framherjar okkar jafna ábyrgð á því. En það voru hinsvegar nokkur stór töp á þessu tímabili. Það sem vantaði í leik okkar var stöðugleiki. Það eru samnefnarar yfir þessa leiki sem við töpuðum stórt. Það var t.a.m einn maður sem byrjaði ekki inná í leikjunum á móti Grimsby,WBA og Leichester sem við töpuðum. Ég er ekki að segja að Mido sé eina ástæðan fyrir því að við töpuðum þessum leikjum. Við getum samt horft til þess að þeir leikir sem töpuðust þegar Mido var í liðinu eru á móti Chelsea (x2),Liverpool úti, Bolton úti, Newcastle úti. Þetta eru leikir sem er “eðlilegt” að tapa. Þannig að ég vill meina að Mido hafi komið með ákveðinn stöðugleika inn í liðið.

Það er hinsvegar talað um Mido fyrir og eftir Afríkukeppnina. Ég skal viðurkenna að hann var ekki sami maður fyrir og eftir keppnina. Ég tel vera eðlilegar skýringar á þessu.

Defoe þurfti að spila mikið í lokin. Martin Jol hafði engra kosta völ. Ef hann hefði sett Defoe á bekkinn út tímabilið hefði Defoe farið. Ef hann hefði ekki fengið að spila nóg hefði hann bent á það sem ástæðuna fyrir því að hann var ekki fyrsti valmöguleiki SGE á HM. Því varð Jol að leyfa honum að spila (þetta bara kenning). Ekki gat hann sett Keane á bekkinn fyrir Mido þar sem Keane var að spila eins og engill. Þetta er ein ástæðan.

Mido fór í Afríkukeppnina sem dýrlingur í Egyptalandi. Hann vildi spila eins lengi og hægt var með spurs og vildi jafnvel fljúga til englands á milli leikja til að geta lagt okkur lið, svo mikill var ákafinn í að styðja félagsliðið sitt. En hann klúðraði málunum þarna úti. Hann varð sér til skammar og féll mikið í áliti í heimalandinu. Þetta var mikið áfall fyrir hann og ég held að hann hafi ekki alveg náð að jafna sig á því. Þetta gæti verið önnur ástæðan.

Mido var mjög óheppinn með meiðsl eftir keppnina og það spilaði stórann þátt í því að hann náði sér ekki á strik eftir keppnina.

Mido vissi ekkert um framtíð sína. Ég hef aldrei séð neinn leikmann sem er jafn “devoted” klúbbnum sínum. Hann lýsti því yfir allt tímabilið hvað hann elskaði klúbbinn og hvað hann vildi rosalega vera áfram. Hann hafði bætt sig rosalega sem leikmaður og sem einstaklingur. Það gerði honum alveg örugglega ekki gott að bæta þessum áhyggjum ofan á þær áhyggjur sem hann hafði fyrir.

Ég vorkenndi Mido rosalega eftir Afríkumótið. Hann fékk aldrei almennilega að sanna sig eftir hana. Hann byrjaði inná í leiknum á móti Wigan og stóð sig vel. Hann byrjaði inná á móti Blackburn og stóð sig ágætlega. Hann byrjaði á móti Chelsea og var ekki alveg nógu góður. Hann kom inná á móti WBA þegar við vorum 1-0 undir. Leikur liðsins gjörbreyttist við það og við unnum 2-1. Svo fékk hann að byrja inná á móti Newcastle. Það gat bara enginn neitt í þeim leik þ.á.m Mido. Þetta eru leikirnir sem hann er dæmdur af. Ég hef nú séð menn standa sig mun verr en þetta án gagnrýni.

Svo er frasi að ganga um að Mido hafi komið til baka feitur og latur. Ég skal viðurkenna að hann virtist hafa bætt aðeins á sig. En mér fannst hann alls ekki latur. Hann barðist eins og ljón og var að reyna sanna sig fram til síðustu mínútu. Hann ætlaði sér að fá samning. Hann hljóp yðulega til baka og hjálpaði til í vörninni þegar við misstum boltann og var svo kominn fram um leið og við náðum honum til baka. Ég blæs það á haf út að hann hafi verið latur eftir keppnina þó hann hafi ekki verið í jafn góðu líkamlegu formi.

Ég hefði glaður viljað gefa Mido annann séns þó hann hafi ekki brillerað í einhverjum 3-4 leikjum á lokasprettinum.

Ég á eftir að sakna Mido. Hann var ekki 7 milljón punda virði í augum Spurs. Ef Berbatov er 11 milljón punda virði gerist eitthvað stórkostlegt næsta tímabil. Það eru ekki litlar kröfur sem settar eru á Berbatov. Hann þarf í mínum augum að stórbæta tölfræðina hans Mido til að réttlæta kaupin. Ég vona svo sannarlega að hann geri það, því við þurfum góðann leikmann til að fylla upp í skarðið.

Nú þegar Mido er farinn skulum við hugsa um hvað hann gerði fyrir klúbbinn. Það er leiðinlegt að einblína alltaf á það sem hann gerði ekki. Hann á virðingu skilið fyrir framlag hans til liðsins og þeirrar jákvæðu þróunar sem átt hefur sér stað í klúbbnum. Í huga mínum var Mido einn af okkar bestu framherjum í langann tíma.

Ps’

Ég hef þurft að skrifa þetta í pörtum vegna mikilla anna. Ég biðst afsökunar á því að textinn er ekki mjög samrýmdur.

laugardagur, júlí 22, 2006

Merkilegir hlutir að gerast á undirbúningstímabilinu

Já það eru ansi magnaðir hlutir að gerast á undirbúningstímabilinu. Fyrst má nefna að við erum að spila án nokkurra lykilleikmanna en samt að standa okkur gríðarlega vel. Við erum búin að vinna:

Bordeaux 1-2
Nice 0-1
Celta Vigo 0-2
Birmingham 0-2

Ef við byrjum á markatölunni þá er hún 7-1. Það er náttúrulega frábært! En samt... Allt síðasta tímabil agnúaðist ég yfir því að við næðum ekki að taka leiki föstum tökum. Það er eins og við hættum bara þegar við erum komnir með tveggja marka forskot. Leikurinn gegn Birminham t.d var á þá leið að við komumst í 2-0 eftir 14 mínútur. Við vorum víst miklu betri aðilinn restina af leiknum án þess að skapa okkur mikið af færum. Við vorum víst að hugsa fyrst og fremst um að halda forustunni (samkvæmt spjallverjum þar ytra).

Ef við horfum á hverjir eru að skora mörkin er það einnig mjög athyglisvert. Defoe er kominn með 3 mörk og virðist vera funheitur um þessar mundir. Það er heldur betur viðsnúningur frá því fyrir nokkrum mánuðum. En það sama og var uppá teningnum síðasta undirbúningstímabil. Berbatov skoraði svo tvö mörk í leiknum gegn Birmingham. Hann virðist vera finna sig ágætlega hjá okkur og ekkert nema dúndrandi hamingja með þær fréttir.

Einnig er "óþekktur" leikmaður að skjóta upp höfðinu um þessar mundir. Hossam Ghaly er að spila glymrandi bolta nú á undirbúningstímabilinu. Þessi leikmaður var keyptur í Janúarglugganum fyrr á þessu ári. Þessi 24 ára gamli leikmaður kom til okkar frá Feyenoord. Comoli var mikill aðdáandi egypska leikmannsins og sagði hann fjölhæfann og gríðarlega hæfileikaríkann. Það er að koma á daginn að eitthvað sé til í þessum ummælum hans. Ghaly þótti standa sig vel í hægri bakvarðastöðunni í leiknum gegn Celta. Í leiknum gegn Birmingham fór hann þó á kostum hægra megin á miðjunni þar sem hann átti báðar stoðsendingarnar á Berbatov. Það er spurning hvort hann fái ekki nokkra leiki undir beltið í vetur?

Annað sem kemur svolítið á óvart. Í leiknum gegn Birmingham spiluðum við leikkerfið 4-3-3 (4-3-1-2) með Keane sem fremsta miðjumann. Þetta kom víst ágætlega út. Þetta gæti kannski virkað fyrir okkur þar sem okkur vantar alvöru leikstjórnanda á miðjuna sem getur borið upp boltann (það sem Jenas var keyptur til að gera).

Næsti leikur er gegn Stevenage Borough. Það ætti að vera leikur þar sem við getum rúllað yfir andstæðingana. Ég væri alveg til í að sjá 3-0 bara til að ég geti hætt að hugsa um þetta :)

Þessir undirbúningsleikir skipta auðvitað engu máli fyrir aðdáendur liðana þannig séð. Það myndi ekki þýða neitt sérstakt ef við myndum tapa næsta leik. Þetta eru leikirnir sem þjálfarinn fær til að skoða styrkleika og veikleika liðsins og leikmanna og prufa nýja hluti sem hann myndi að sjálfsögðu aldrei hætta á í leik sem skiptir máli. En þó leikirnir eigi ekki að skipta máli þá er það það eina sem við áhangendur fáum yfir sumarmánuðina og því um að gera að blása þá úr öllu samhengi og láta sem um úrslitaleik væri að ræða:)

Staðreyndir og slúður af leikmannamarkaði

Nú er leikmannamarkaðurinn í fullum gangi og rétt að kíkja aðeins á það sem er að gerast. Það var að koma í ljós að Daimien Duff var að ganga til liðs við Newcastle fyrir 10 milljónir punda. Við vorum búnir að bjóða 6-7 m.p. í Duff en án árangurs. Ég veit ekki hvort við hefðum átt að bjóða þessar 10 milljónir í leikmanninn. Þetta er sanngjarnt verð fyrir báða klúbbana og allt það og vinstri vængurinn var vandræða staða allt síðasta tímabil. Ég er samt mjög ánægður með að við skulum hafa reynt við Duff. Það þýðir að Jol er að hugsa um að hætta með þá leikaðferð að hafa varnarsinnaðann miðjumann á vængnum og láta bakvörðinn sækja upp. Nú er bara að vona að hann Jol finni annann leikmann í stað Duff.
Það má vel vera að Ziegler eða Routhledge séu nógu góðir leikmenn til að sinna þessari stöðu, en ég efast samt um það. Ziegler er nógu góður til að vera backup fyrir annann betri leikmann. Þetta er sú staða sem við verðum að leysa. Staða hægri bakvarðar eða stór framherji má bíða á meðann við finnum mann í þessa stöðu.
Carrick
Maður veit ekkert í hvorn fótinn maður á að stíga í málefnum Carricks. Síðustu slúðurfréttir herma að Manchester Utd. hafi boðið okkur 16 millj. punda + Silvestre eða O'Shea. Undir eðlilegum kringumstæðum myndi ég segja "nei takk!". Á meðan við erum vel stæður klúbbur sé ég enga ástæðu til að selja okkar bestu menn til liða sem eru í samkeppni við okkur um meistaradeildarsæti. Þá myndi ég frekar sætta mig við minni pening ef hann yrði seldur úr landi. Carrick er nefninlega gríðarlegur liðstyrkur fyrir hvaða lið sem er, líka okkur. Ef þetta væri svona einfalt væri ákvörðin jafn einföld. Málið er hinsvegar aðeins flóknara. Stjórn Spurs er nefninlega ekki tilbúin að borga laun í samræmi við getu leikmannsins. Carrick á aðeins 2 ár eftir af samningi sínum við Spurs og verðið á ekki eftir að hækka eftir því sem nær dregur samningslokum. Carrick hefur einnig lýst því yfir að hann vilji fara til Man Utd.
Málið er erfitt. Eigum við að selja einn mikilvægasta leikmann okkar eða halda honum? Það er alltaf leiðinlegt að hafa leikmann sem vill ekki spila með liðinu sínu. Við viljum hafa leikmenn sem hafa hjarta sem slær fyrir félagið og leggur allt undir til að tryggja árangur félagsins. Launaumræðurnar hafa verið svo fáránlegar að hálfu Spurs að Carrick ákvað að draga sig út úr þeim. Það lítur út fyrir að við séum ekki að fara semja við hann. Þannig að mitt mat er það að ef við ætlum ekki að fara út í samningviðræður af neinni alvöru og ef Carrick vill ekki vera hjá okkur eigum við að selja hann. Við ættum að reyna allt sem í okkar valdi stendur til að selja hann liði sem ekki ógnar stöðu okkar. Ef Real Madrid vill fá hann er það eflaust okkar besti kostur.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Komandi tímabil.

Já senn líður að því að nýtt tímabil hefji göngu sína. Það er nú alveg spurning hvort sálfræðingar landsins taki það ekki til greina að líta á enska boltann sem meðferð við skammdegisþunglyndi. Tímabilið hefst í þann mund er daginn tekur að stytta og þegar skammdegið er sem mest (einhverntíma rétt fyrir jól), fáum við fótboltafíklar veislu þar sem prógrammið er mjög þétt.
Já maður er orðinn ansi spenntur fyrir þessu tímabili. Það hafa spennandi hlutir gerst í sumar á leikmannamarkaðnum. Við höfum styrkt liðið okkar í sumar með kaupunum á Zokora, Berbatov og Ekotto. Reyndar höfum við misst einn stórlax (Mido). Ef Berbatov gerir það sem hann var að gera í Þýskalandi hjá okkur erum við í góðum málum.
Það er svolítið gaman að bera saman sumarið nú og í fyrra. Undirbúningstímabilið er að þróast á mjög keimlíkann hátt og í fyrra (Erum að vinna góð lið í evrópu). Við förum inn í tímabilið með nýjann miðjumann sem er bæði ungur og efnilegur (Jenas/Zokora).Við förum aftur inn í tímabilið með breiða miðju, kannski of breiða. Einn af okkar litlu framherjum eru nú orðaður við önnur lið (Kanoute/Defoe). Nú gæti verið að við fáum einn gamlingja frá Ítalíu eins og í fyrra (Davids/Thuram). Nýr "óþekktur" vinstri bakvörður sem allir lofsyngja kemur til liðsins (Lee/Ekotto). Þá er bara að vona að Jol geymi það ekki fram á síðustu stundu að kaupa stórann framherja (Rasiak).

Vörnin
Ég er ekki að sjá miklar breytingar á vörninni í vetur. Þetta verður líklega svona:
Stalteri----Dawson---- King---- Lee/Ekotto
Gardner/Huddlestone verða varaskeifur fyrir King og Dawson. Ég væri samt virkilega til í að sjá Lee fara yfir í hægri bakvörðinn og Ekotto tæki vinstri bak. Það væri svakalega sterkt sóknarlega séð.

Miðjan
Þetta verður athyglisvert! Við erum með Lennon, Routhledge, Ziegler, Davids, Tainio, Jenas, Huddlestone, Carrick, Zokora, Reid, Ghaly og Murphy að berjast um sæti sitt. Þetta eru 12 frambærilegir leikmenn að berjast um 4 stöður. Hvern getum við skilið eftir? Ég vill kannski helst sjá hvernig þessi miðja spjarar sig:
Lennon------Carrick--------Zokora-------Ziegler
Þá erum við að skilja eftir leikmenn eins og Tainio, Jenas og Murphy. Þetta er ekki auðvelt val. Ég hef það samt einhvernveginn á tilfinningunni að þetta verði sú miðja sem Jol teflir fram:
Jenas-------Carrick-------Zokora------Lennon
Það er náttúrulega bara glæpur að gera þetta. Ég held samt að þetta sé miðjan eins og hún muni líta út. Jol vill hafa Jenas inná og hann vill hafa Carrick og Lennon inná. Þetta sýndi sig í fyrra. Menn voru frekar látnir spila í vitlausum stöðum (sbr Davids á vinstri væng og Jenas á hægri) frekar en að vera settir á bekkinn. Ég er nokkuð viss um að janúar verði svipaður næsta ár eins og hann var í ár. Það verður útsala á miðjumönnum hjá okkur.

Sóknin
Þar eru það Berbatov, Keane, Defoe og Barnard sem berjast um tvær stöður. Ég er enn ekki sannfærður um að tveir litlir sóknarmenn geti spilað saman. Þannig að eins og staðan er í dag held ég að Berbatov verði fastamaður og Keane og Defoe muni berjast um hina stöðuna. Nú er Defoe að standa sig gríðarlega vel í þeim leikjum sem hann er að spila á undirbúningstímabilinu þannig að þetta gæti orðið hörð barátta þeirra á milli. Barnard mun eflaust fá nokkur tækifæri líka en verður þó aðalega í aukahlutverki.

Væntingar
Ég geri mér væntingar um að við náum inn í meistaradeild og einn titil. Það er mitt mat að við erum með besta liðið í Uefa cup. Ég get ekki séð að við séum með verra lið en Middlesbrough sem komst í úrslitaleikinn í fyrra. En ef við náum ekki evrópubikarnum þá vill ég sjá okkur taka einn titil í bikarkeppnunum heima. En ég vænti meira en bara góðum niðurstöðum. Ég vænti þess líka að við spilum skemmtilegan bolta. Ég vill sjá okkur skora mun fleirri mörk en í fyrra. Það var ekki einn leikur í fyrra sem ég get bent á og sagt "þetta er það sem ég vill sjá". Ég vænti þess líka að við gerum okkur ekki að aðhlátursefni stuðningsmanna annara liða með því að vanmeta lakari lið og tapa eins og í bikarkeppnunum í fyrra.
Þannig að væntingarnar í stuttu máli eru skemmtilegur fótbolti, ofar en 5. sæti og bikar.

Spáin fyrir deildina.
Sem Tottenhammaður held ég að við getum alveg náð þriðja sætinu.
1. Chelsea
2. Liverpool
3.Tottenham
4. Arsenal
5. Man U.

Ég býst samt við að raunsærri menn spái þessu svona:

1 Chelsea
2. Arsenal
3. Liverpool
4. Tottenham
5. Man U.

En ef Spurs stenst væntingar mínar skal ég alveg vera sáttur við seinni spánna.

Þetta er kannski full snemmt fyrir þessa færslu þar sem lið eiga eflaust eftir að kaupa og selja mikið uns yfir líkur. Eflaust eiga lið eftir að versla eitthvað á Ítölsku útsölunni áður en tímabilið hefst og það gæti svo sannarlega sett strik í reikninginn.