mánudagur, maí 28, 2007

uppgjör, Tölfræði

Þá er það síðasti pósturinn í uppgjöri tímabilsins. Ég ætla að grúska svolítið í tölfræði. Ég nota tölfræðiupplýsingar frá hinum ýmsu síðum og er þetta allt skrifað með fyrirvara um að tölfræðiupplýsingarnar eiga það til að vera misjafnar. Ég ætla ekki að byrta tölfræði eins og flestar aðrar síður gera heldur ætla ég einungis að byrta þá tölfræði sem mér finnst skemmtileg/áhugaverð og skrifa kannski eitthvað í kringum þessa tölfræði.

Þær síður sem ég mun nota við þetta eru BBC, Sky, Soccernet, Jim Duncan, Paul Smith, Tottenhamhotspurs.uk, Spurs.is, Premierleague.com, Uefa.com, SpursMad, NewsNow. Ef þið viljið finna almenna tölfræði eins og leikir spilaðir, mörk skoruð, felstar stoðsendingar, gul spjöld ofl. er það allt að finna inná þessum síðum.

Spilaðir leikir.
Robinson 54 leikir allir í byrjunarliði.

Dawson 58 leikir þar af 57 í byrjunarliði.
King 27 leikir allir í byrjunarliði

Defoe 49 leikir 29 í byrjunarliði
Keane 44 leikir 31 í byrjunarliði.

Það sem er athyglisvert við þetta er að það fór aðeins einn leikur fram hjá Spurs þar sem Dawson kom ekkert við sögu... BARA EINN LEIKUR ÁN DAWSON!!! Við fengum Dawson á lítinn pening á sínum tíma sökum þess hversu lítið hann gat spilað sökum meiðsla. Það kemur skemmtilega á óvart að Dawson er sá leikmaður í ensku deildinni sem spilaði flesta leiki í byrjunarliði í öllum keppnum, á eftir Frank Lampard.

Ástæaða þess að ég setti Robbo þarna inn er sú að hann var sá sem kom næst Dawson í leikjum spiluðum.


Eins og sást á í póstinum Uppgjör Bestu... fyrir stuttu kaus ég Ledley King sem vonbrigði ársins. Ástæðan: mikil meiðsli. King spilaði aðeins 27 leiki á tímabilinu, sem er það sama og hann spilaði í fyrra. Málið er hinsvegar að í fyrra spilaði hann 67,5 prósent leikjanna. Í ár spilaði hann tæp 46% leikjanna. HANN VAR MEIDDUR Í YFIR HELMING ÞEIRRA LEIKJA SEM VIÐ SPILUÐUM!!!! Þetta er sláandi og ekki hægt að túlka þetta öðruvísi en sem vonbrigði. Það er enginn vafi á því að King er hæfileikaríkasti varnarmaður okkar. En þegar hann er ekki til staðar í yfir helming leikja okkar er ekki hægt að tala um hann sem mikilvægasta varnarmann okkar. En það er ekki út í neinn að sakast, sumir eru bara óheppnir með meiðsli. Við vonum bara að hann nái góðu tímabili næst. Ef það gerist aukast líkurnar á betri árangri töluvert.


Ástæða þess að ég byrti tölfræðina yfir Keane og Defoe er sú að mér finnst ansi merkilegt að Keane hafi einungis byrjað inná í tveimur leikjum fleirri en Defoe og að Defoe hafi allt í allt spilað fleirri leiki en Keane. Þrátt fyrir þessa tölfræði er Defoe enn einusinni sagður vera á förum frá félaginu. Hvað þaf Defoe að spila marga leiki svo pressan hætti að smjatta á þessari sömu frétt í hverjum einasta leikmannaglugga?

Framherjarnir

Í fyrra vor voru stuðningsmenn óhræddir að láta í ljós skoðun sína á Mido. Margir vildu sjá hann í burtu frá félaginu sökum þess hversu slakur hann var seinni hluta tímabils. Þeim mönnum varð tímabundið að ósk sinni þegar Mido fór í nokkra mánuði aftur til Roma. Við vorum hinsvegar 2 eða 3 sem vildum endilega hafa Mido áfram. Ég skrifaði m.a þetta eftir leiktíðina í þeim tilgangi að fá fleirri í lið með okkur sem vildum halda honum. Hvað haldið þið? Sicknote ætlar að endurtaka leikinn (nú reyndar meira í gríni en alvöru, þó tölfræðin sé rétt)

Nú ætla ég að byrta tölfræði yfir þá framherja sem spiluðu í hlutfallslega flestum sigurleikjum.
1)Mido - 62% (52%)
2)Keane - 56% (52%)
3)Berbatov - 50% (49%)
4)Defoe-48% (51%)

Á þessu sést að liðið sigraði í 62% tilfella sem Mido byrjaði inná. Einnig sést að ef teknir eru með í reikninginn þeir leikir sem hann kom inná líka er hann enn á topnum (ásamt Keane). Það er því nokkuð ljóst að við sigruðum hlutfallslega flesta leikina þegar Mido kom við sögu. Ég er í rauninni búinn að finna fleirri leiðir til að koma Mido á toppinn en ég nenni ekki að tapa mér í einhverri vitleysu. En þessi tölfræði finnst mér þó skemmtileg.

Að öllu mikilvægari tölfræði. Nú er það hvaða framherji skoraði mest per. leik. Ath. Þetta er bara meðaltal, deili einfaldlega fjölda marka niður á spilaða leiki.

1) Keane 22 mörk í 44 leikjum = Skoraði að meðaltali í 50% leikjanna sinna.
2) Berbatov 23 mörk í 49 leikjum = Skoraði að meðaltali í 47% leikjanna.
3) Defoe 18 mörk í 49 leikjum = Skoraði að meðaltali í 37% leikjanna.
4) Mido 5 mörk í 23 leikjum = Skoraði að meðaltali í 22% leikjanna.

Svo er það tölfræðin yfir framherjapörin. Ég ætla að láta Mido vera fyrir utan þetta enda nennir enginn að hlusta á að Mido og t.d Keane hafi verið besta framherjaparið. Tölfræðin nær bara yfir þau framherjör sem byrjuðu saman.

Berbatov - Keane (25 leikir)
Sigrar 15
Jafnt 4

Tap 6
(Markatala 42-31)

Berbatov - Defoe (18 leikir)
Sigrar 9
Jafnt 7

Tap 2
(markatala 34-28)

Ég held að ég útnefni Berbatov - Keane sem besta framherjaparið. Það par var með betra sigurhlutfall (60% gegn 50%), og fleirri stig per. leik (1,96 stig í leik gegn 1,89) . Auk þess skoruðu Keane (15) og Berbatov (11) 26 mörk þegar þeir spiluðu saman. Berbatov (9) og Defoe (10) skoruðu 19 mörk samanlagt. En það má ekki miklu muna á þessum tveimur pörum svona á tölfræðinni. En upplifun mín á tímabilinu hefur verið að Berbatov - Keane sé án efa okkar sterkasta par.


Ef við skiptum leiknum upp í sex 15 mínútna kafla lítur markaskorunin svona út í ensku deildinni:



Ef við höldum okkur við markaskorun liðsins í PL þá er einnig merkilegt að við skoruðum ekki eitt einasta mark í september mánuði.

Við unnum 11 af 17 leikjum okkar með eins marks mun. Við töpuðum hinsvegar 3 leikjum af 12 með meira en tveggja marka mun.

Að lokum.
Því miður eru tölfræðiupplýsingarnar sem ég gat fundið hvergi nærri nógu ýtarlegar. Ég var spenntastur fyrir því að bera saman tölfræði Carricks, Davids, Tainio og Zokora en því miður finn ég hvergi tölfræði yfir tæklingar þeirra, sendingar eða neitt slíkt. Ef einhver lumar á þeirri tölfræði væri hún vel þegin.

Svo koma hérna þrjár spurningar í lokin sem þið getið giskað giskað á svörinn við.

1) Dawson byrjaði inná í öllum leikjum tímabilsins nema tveimur. Hann kom inná sem varamaður gegn MK Dons. Spurningin er þá: Í hvaða leik á tímabilinu kom Dawson ekkert við sögu?

2) Hvaða leikmaður var oftast allra leikmanna Spurs dæmdur brotlegur (ekki spurning um gul eða rauð spjöld heldur hver braut oftast af sér)?

3) Hverjir voru keyptir og seldir í Janúarglugganum?

laugardagur, maí 26, 2007

Gareth Bale kominn

Jæja þá býður maður nýjann leikmann Spurs velkominn í hópinn. Við vorum að kaupa Gareth Bale frá Southampton (Saints). Kaupverðið er talið geta orðið allt að 10 m/p eftir árangri hans með liðinu. Hann er einungis 17 ára og var fastamaður hjá Saints á síðasta tímabili auk þess að eiga tvo landsleiki að baki með Wales. Nú keppast menn eins og Ryan Giggs, Redknapp og fleirri við að lofa manninn og segja að við höfum landað stjörnu. Ég skrifaði póst í vetur þar sem ég kallaði hugsanleg kaup á honum í janúar vitleysu. En hefur skoðun mín breyst?

Ég er eiginlega á báðum áttum hvort ég sé ánægður með kaupin. Okkur vantar ekki vinstri bakvörð að mínu viti. Við höfum Lee, Ekotto og Dervite til að leysa þá stöðu og mér finnst það í sjálfu sér nóg (veit að margir eru ósammála mér þarna). Síðasti varnarmaður sem við keyptum frá Saints var Dean Richards sem kostaði þá 8 m/p sem var líklega meiri pengur fyrir leikmann í þá daga en hann telst í dag.

Mér finnst alltaf mjög hæpið að kaupa unga leikmenn sem eru ágætir og segja "hann er bara 17 ára". Það er ekkert lögmál að menn bæti sig með tímanum. Ég man fyrir svona 3 árum hömuðust Liverpoolmenn við að segja mér hversu björt framtíðin væri hjá þeim. Þeir væru með Markmann eins og Cris Kirkland sem væri einn efnilegasti markvörður sem England hefði alið. Einnig væru þeir með Paul Welsh og fleirri unga leikmenn sem myndu komast í byrjunarliðið hjá flestum liðum í úrvalsdeildinni. Fyrir c.a 7 árum var hjá okkur leikmaður að nafni Anthony Gardner sem var ekki orðinn tvítugur og var farinn að spila nokkra leiki sem byrjunarliðsmaður. Hann var að spila með yngri landsliðum Englands og fékk meira að segja tækifæri með A landsliði Englands. Það vantaði ekki lofyrðin á þennann mann hjá okkur Spursurum, og sögusagnir um mettilboð í hann komu með reglulegu millibili. Málið er bara að það felst alltaf áhætta í að kaupa unga leikmenn. Stundum borgar áhættan sig og leikmenn verða betri og betri. Stundum standa þessir leikmenn ekki undir væntingum. Þess vegna er ég svolítið efins með að vera borga svona mikið fyrir svona ungann leikmann, því þetta er jú áhættufjárfesting. Ef hún borgar sig þurfum við samt að borga Saints hluta af verði leikmannsins ef hann verður seldur. Það er fínn díll fyrir annann aðilann.

Á hinn bóginn má benda á að Jol er enginn vitleysingur þegar kemur að því að meta unga leikmenn. Það virðast allir sem eitthvað þekkja til Bale vera sammála um að hann er með hausinn í lagi. Hann þykir víst líka skuggalega góður þó hann sé aðeins 17 ára. Ég held að Jol hafi heldur ekki endilega verið að kaupa vinstri bakvörð heldur vinstri vængmann. Það er svo bara staðreynd að það er erfitt að finna góðann örfættann leikmann í dag. Þeir leikmenn eru því orðnir mjög eftirsóttir. Það er ekki eins og við höfum úr mörgum örfættum leikmönnum að velja þegar kemur að því að velja mann í vinstri vænginn. Mér skilst að við höfum borgað 5 m/p út og svo eiga Saints möguleika á 5 m/p ef hann stendur sig hjá Spurs. Með þessu erum við búnir að takmarka áhættuna að nokkru leiti.

Þannig að ég er ekki viss um þessi kaup. Ég læt að sjálfsögðu félagið njóta vafans og fagna komu hans. Leikmaðurinn á hið minnsta skilið tækifæri til að sanna sig, og það gef ég honum. Ég er því bara nokkuð sáttur.

Ps'
Ég er enn að vinna í póstinum um tölfræði leikmanna. Það tekur töluvert lengri tíma en ég bjóst við þar sem ég þarf að mestu leiti að reikna tölfræðina sjálfur sem ég vill finna. En af því sem komið er er margt sem kemur á óvart.

sunnudagur, maí 20, 2007

Þjóðarskömmin

Var að kíkja á spursspjallið eins og venjan er á hverjum degi. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég ætlaði alltaf að skrifa póst sem ég hafði svo trassað og gleymt. Hérna kemur þessi póstur.

Mér finnst Björk leiðinleg söngkona, en mér finnst frábært að hún sé að gera góða hluti um allann heim og vona að henni gangi sem allra best. Ég gef heldur ekki mikið fyrir tónlist Nylon, Sigurrós eða Garðars Thors, en vona að þeim gangi sem allra best. Ég hef lítinn áhuga á sundi, en finnst frábært þegar Örn Arnarson vinnur stórmót. Ég þoli ekki golf, en vona að Birgir Leifur nái að festa sig í sessi á stórmótum. Ég fylgist lítið eitt með handbolta, en er rígmontinn af handboltamönnum okkar eins og Óla Stef., Guðjóni Val, Róberti Gunnarssyni og fleirrum. Ég vona líka að þeim gangi allt í haginn á komandi árum. Ég læt ófeiminn stuðning minn við allt þetta fólk í ljós hér og nú.

Af þeim ástæðum skil ég ekki af hverju svona margir horfa með fyrirlytningu á fólk sem studdi Stoke eða styður West Ham eða styður Eið Smára. Ég held að það viti allir hvað ég á við. Ef menn byrja að styðja lið vegna þess að íslendingur tengist því á einhvern hátt eru þeir litnir hornauga. Það er eins og það sé einhver landlæg skömm fólgin í því að styðja landa sína. Meira að segja þegar þú ferð á landsleik í fótbolta færðu fyrirlytningaglottið ef þú gerir tilraun til að öskra og hvetja liðið. En Íslendingar eiga í litlum vandræðum með að fara á völlinn á Englandi að styðja sitt lið í PL. Er það virkilega svona ömurlegt að styðja við bakið á löndum sínum? Er þjóðarskömmin svona svakaleg?

Ég að sjálfsögðu get aldrei snúið bakinu við Tottenham. En ég vona að West Ham gangi vel á meðan Eggert og félagar eru við völd. Ef krakkar velja ekki að styðja Spurs vona ég innilega að þeir velji að fylgja West Ham að málum. Þá menn sem studdu Chelsea á meðan Eiður var þar hvet ég til að styðja West Ham vilji þeir ekki styðja Spurs.

Á meðan þjóðarskömmin er svona svakaleg lít ég upp til þeirra sem þora að segja "Ég styð Eið" eða "Ég styð West Ham" þrátt fyrir alla þá vanþóknun sem aðrir kunna að sýna þeim fyrir að sýna samstöðu með löndum sínum. Ég lít líka upp til þeirra sem þora að styðja Íslenska landsliðið í fótbolta með því að standa upp og öskra sig hása þrátt fyrir augngoturnar.

Maður velltir svo líka fyrir sér hvaða ástæða fyrir að halda með klúbb gerir mann gjaldgengann sem stuðningsmann. Ég hef margoft lýst því að ég byrjaði að halda með Spurs þegar Klinsman kom til Spurs. Af viðbrögðunum að dæma virðist það vera góð og gjaldgeng ástæða, allavega hef ég sloppið við fyrilytningarsvip við þessa fullyrðingu mína. En er þessi ástæða eitthvað verri en að byrja að halda með liði því Eiður spilar með því eða af því að Eggert og félagar keyptu lið? Ef ég reyni að skilja þennann hugsunarhátt myndi ég jafnvel telja það betri ástæðu en mína. Ég get því ekki skilið þetta á annann hátt en að þjóðarskömmin sé að svo svakaleg.

Nú dýrka Argentínumenn Maradonna og Brasilíumenn Pele og þar fram eftir götunum. Þetta eru stærstu stjörnur þessara landa. En á Íslandi virðist það vera að því betri sem leikmaðurinn er því meiri fyrirlytningu hljóta þeir sem styðja hann. Sjáum t,d Eið. Stuðningsmenn Eiðs hafa alltaf verið litnir hornauga. En stuðningsmenn Charlton eða Reading hafa sloppið betur sökum þess að Íslendingarnir sem spila þar eru ekki jafn áberandi og eru þ.a.l okkur ekki jafn mikið til skammar. Eggert er nú mjög áberandi og um leið eru stuðningsmenn West Ham á Íslandi litnir hornauga á sama hátt og stuðningsmenn Eiðs/Chelsea voru litnir hornauga.

Á sama hátt og biblían segir "Ég er drottinn guð þinn þú skalt eigi aðra guði hafa" (sko maður lærði eitthvað í fermingafræðsluni í denn), mun aðeins eitt lið rúmast í hjarta mínu og það er Tottenham Hotspur.

laugardagur, maí 19, 2007

Uppgjör... Tímabilið

Jæja nú þegar tímabilið er á enda er rétt að gera upp tímabilið. Þetta er líklega mikilvægasti pósturinn sem komið hefur á inn á þessa síðu hingað til. Ástæða þess að ég segi það er vegna þess að það sem ég sé mest eftir af þeim póstum sem glötuðust við hökkun spjallborðs Spurs.is eru uppgjörspóstarnir eftir tímabilið. Svona einn þráður sem coverar allt tímabilið frá sjónarhorni aðdáanda.

Fyrir tímabilið var ljóst að við myndum vera án Michael Carrick sem gekk í raðir Man. U. Það var öllum ljóst að það var mikill missir af þessum frábæra leikmanni. En þetta var eini alvöru leikmaðurinn sem við misstum.

Við fengum hinsvegar marga alvöru leikmenn í staðinn. Dimitar Berbatov gekk til liðs við okkur í sumar. Það vissu um leið allir að þar var kominn frábær leikmaður. Í hreinskilni sagt held ég þó að ekki nokkur maður hafi leyft sér að vona að hann yrði eins góður og raunin hefur orðið. Hann var frábær hjá Leverkusen en enska deildin er bara allt annað og við höfum séð það alltof oft að leikmenn sem þykja góðir í utan Englands hafa átt erfitt með að fóta sig í ensku deildinni.

Við fengum einnig Pascal Chimbonda í hægri bakvörðinn. Það efaðist enginn um að hann myndi styrkja liðið þar sem hann var valinn í úrvalslið PL tímabilið áður. Það kom allavega mér á óvart hversu fljótur hann var að aðlagast liðinu.

Didier Zokora var annar leikmaður sem kom til okkar í sumar. Væntingarnar til þessa manns voru gífulegar eftir að hann hafði staðið sig stórkostlega í HM í þýskalandi um sumarið. Það tók hann hinsvegar langann tíma að aðlagast liðinu/Landinu/Deildinni. Það var ekki fyrr en í febrúar sem hann fór að sýna sitt rétta andlit og rúmlega það.

Steed Malbranque var svo fjórða stjarnan sem kom til okkar í haust. Það voru skiptar skoðanir meðal stuðningsmanna Spurs um hann en flestir voru þó sammála um að hann var skárri en þeir leikmenn sem höfðu barist um stöðu vinstri vængmanns.

Einnig kom til okkar ungur vinstri bakvörður frá Frakklandi að nafni Ekotto sem átti að veita Lee samkeppni. Fæstir bjuggust við einhverju stórkostlegu frá þessum leikmanni en töldu hann þó ágætis viðbót.

Þrátt fyrir að Carrick hafi farið voru þó flestir á því að liðið væri sterkara en það var vegna tilkomu þessara nýju leikmanna. Væntingar manna byggðust þar af leiðandi af árangri síðasta tímabils og tilkomu nokkurra heimsklassa leikmanna. Margir voru farnir að sjá fram á nýtt glory tímabil Spurs þar sem þeir myndu sigra England og Evrópu á einu bretti. Það var svo ekki til að draga úr væntingum manna að við fórum taplausir gegnum undirbúningstímabilið þrátt fyrir að nánast allir okkar bestu menn væru enn í sumarfríi vegna HM.

Premier League
Fyrsti leikur tímabilsins var því eins köld tuska framan í yfirspennta og stórhuga aðdáendur. Leikur okkar við Bolton var hreint út sagt ömurlegur á að horfa og veittum við þeim enga mótspyrnu. 4 stig úr fyrstu 6 leikjunum var því ansi hörð lending fyrir vel flesta stuðningsmenn og voru menn strax farnir að snúa baki við Martin Jol og farnir að velta fyrir sér framtíð hans.

Oktober mánuður byrjaði þó á öðrum sigri vetrarins þegar við unnum Portsmouth á heimavelli með einu umdeildasta atviki vetrarins þegar Zokora lét sig falla í vítateig andstæðinganna. Við fórum taplausir gegnum þann mánuð og það sem meira var að við vorum strax búnir að stórbæta árangurinn í CC bikarnum með 0-5 sigri á MK Dons.

Ef oktober byrjaði vel þá byrjaði Nóvember stórkostlega. Eftir að hafa unnið Club Brugge 3-1 í byrjun Nóvember komu Chelsea í heimsókn. Það þarf vart að fjölyrða um þann leik þar sem leikurinn þar sem við loksins unnum eitt af stóruliðunum mun vera greyptur í huga manna næstu árin. Mánuðurinn var líka ágætur að örðu leiti aðeins eitt tap leit dagsins ljós það sem af lifði mánaðarins. Þessi mánuður er einnig minnistæður fyrir þær sakir að það fæddist stjarna á WHL. Ungur og efnilegur leikmaður að nafni Tom Huddlestone fékk nokkur tækifæri með aðalliðinu sökum meiðsla Jenas og Tainio.

Eins og síðustu tveir mánuðir höfðu byrjað vel var byrjunin á annars ágætis desembermánuði sú ömurlegasta sem hugsast gat. 3-0 tap fyrir erkiféndunum í Arsenal var meira en menn sættu sig við. Annars samanstóð desember mánuður af 4 sigrum og 3 tapleikjum.

Það er þó óhætt að segja að leikurinn gegn Aston Villa á annann í jólum hafi markað tímamót á þessu tímabili. Við þurftum að bíða í 57 daga eftir næsta sigri í deildinni og það var meira en menn sættu sig við. Ansi margir stuðningsmenn höfðu misst trúnna á liðið, leikmenn og þjálfara.

Þó svo að ég hafi reynt að vera bjartsýnn í lægðinni (mörgum til ama) verð ég að viðurkenna að þessi lægð tók svolítið á mann. Einhvernveginn innst inni vissi ég þó að þetta var tímabundið ástand og að liðið myndi sýna mátt sinn á ný. Það var svo raunin. Eftir að hafa tapað 0-4 gegn Man U. og 2-1 gegn Sheffield var botninum náð. Leikmenn tóku sig heldur betur á og unnu hvern leikinn á fætur öðrum og skoraði endalaust af mörkum. Næstu 8 leikir samanstóðu af 7 sigrum og einu jafntefli gegn Englandsmeisturum Chelsea á útivelli.

Nú voru menn aftur orðnir bjartsýnir og þeir bjartsýnustu jafnvel farnir að gjóa augunum að meistaradeildarsæti. Þeir raunhæfu stilltu væntingunum í hóf og vonuðust eftir að komast í Uefa Cup annað árið í röð.

Undir lok aprílmánaðar var ljóst að CL væri ekki lengur möguleiki og þegar kom að lokaleiknum var staðan þannig að við þurftum hið minnsta jafntefli til að tryggja okkur í Uefa Cup og með sigri okkar og tapi eða jafntelfi Everton áttum við von á að jafna árangurinn frá því í fyrra hvað deildarkeppnina varðar með að ná 5. sæti. Og draumurinn rættist. Everton gerði jafntefli í síðasta leik sínum á meðan við sigruðum Man City 2-1, og 5. sætið því okkar.

Uefa Cup
Eftir lélegann árangur utan deildarkeppninar í fyrra, slaka byrjun tímabilsins og eftirvæntingar vorum við aðdáendur Spurs á nálum yfir þessari keppni. Við höfðum mátt bíða í allnokkurn tíma eftir að fá að sjá Spurs keppa við lið utan Englands og því var óttablandin spenna eftir þessari keppni. Við drógumst í forkeppninni gegn Slavia Prague og fyrsti leikurinn á útivelli. Við höfðum ekki unnið leik hvað þá skorað mark í Uefa frá því Gordon Durie skoraði árið 1991. Við fengum hinsvegar að sjá Jenas skora glæsilegt mark sem tryggði okkur sextugasta sigur okkar í Uefa í hundraðasta leiknum okkar í þeirri keppni. Hálfum mánuði seinna tryggðum við okkur þáttökurétt í riðlakeppninni með 1-0 sigri og samanlagt 2-0 sigri á Slavia Prague.

Það leit ekki vel út fyrir okkur að margra mati þegar uppröðun leikja var tilkynnt í riðlakeppninni. Við áttum að spila útileik við Besiktas í fyrstu umferð sem menn óttuðust mjög, einnig var útileikur gegn Leverkusen sem lagðist misjafnlega í menn. Ekki hjálpaði það til að á þessum tímapunkti vorum við í lægð og strögluðum í 14-17 sæti. En það var eins og leikmenn fengju auka kraft og viljastyrk þegar þeir spiluðu í Uefa. Við þutum í gegnum riðlakeppnina með fullt hús stiga og í flestum ef ekki öllum leikjunum unnum við verðskuldaða sigra. Eftir riðlakeppnina var svo hefðbundið c.a tveggja mánaða hlé. En við vorum dregnir gegn Feyenoord í fyrstu umferð útsláttarkeppninar. Feyenoord var hinsvegar dæmt úr keppni fyrir ólæti áhorfenda í síðasta heimaleik sínum. Spurs var því sjálfkrafa komið í næstu umferð.

Andstæðingar okkar í fjórðu umferð Uefa var belgíska liðið FC Braga. Útileikurinn fór 2-3 fyrir okkur með tveimur mörkum frá Keane og einu frá Steed. Við unnum svo seinni leikinn með sömu markatölu 3-2 þar sem Berbatov skoraði tvennu og Steed eitt. Það lá því ljóst fyrir að við vorum að fara keppa við sigurvegara Uefa frá síðasta ári Sevilla. Hvort það hafi verið mikið leikjaálag samfara meiðslavandræðum eða hvort við mættum ofjörlum okkar er ekki gott að segja en fyrsta leiknum töpuðum við 2-1. Það má svo segja að Sevilla hafi gert útaf við vonir okkar á fyrstu 10 mínútunum í seinni leiknum. Þegar staðan var orðin 0-2. En okkar menn áttu þó hrós skilið því okkur tókst að jafna leikinn með mörkum frá Defoe og Lennon. En lengra komumst við ekki.

Frammistaða okkar í þessari keppni er samt sem áður frábær. Auðvitað var maður farinn að dreyma um úrslitaleikinn og jafnvel sigur en árangurinn er engu að síður frábær.

Bikarkepnnirnar.
Það þurfti svo sem ekkert kraftaverk til að bæta árangur okkar í bikarkeppnunum frá síðasta tímabili. En við bættum árangurinn heldur betur mikið.
Þeir eru nokkrir sem halda því fram að næst besti eða þriðjibesti árangur sem lið getur náð í bikarkeppnum sé að detta út í fyrstu umferð. En það finnst mér alröng hugsun. Þvert á móti finnst mér það stolltsins vegna mikilvægara komast sem lengst í þessari keppni.

CC. Bikarkeppnin
Fyrsti leikur okkar var gegn annaradeildarliðinu MK Dons. Þó leikurinn hafi ekki verið sýndur var töluverð eftirvænting hjá stuðningsmönnum. Þetta var fyrsti bikarleikurinn á tímabilinu og með því einu að sigra þann leik höfðum við þá þegar átt betra bikarár en tímabilið áður. En við gerðum gott betur. Við unnum stærsta sigur okkar í tvö ár. Mk Dons 0 - Spurs 5. Við slóum svo út hvert neðrideildarliðið á fætur öðru og þar á meðal Southend sem hafði slegið Man U. út í umferðinni áður. Það var ekki fyrr en í undanúrslitum að við mættum erkiféndunum í Arsenal að við duttum út. Úrslitin réðust í framlengingu í seinni hálfleik, og þó að það hafi auðvitað verið sárt að tapa fyrir þeim gátum við borið höfuðið hátt. Þetta var okkar besta framistaða frá tímabilinu 2001-02.

FA Cup
Ekki var þáttaka okkar í FA mikið verri. Líkt og í C.C þurftum við aðeins einn sigur til að toppa árangurinn frá því í fyrra. Þetta leit ekkert alltof vel út í fyrsta leiknum gegn Cardiff. Úrslitin 0-0 voru ekki þau sem stuðningsmenn óskuðu sér. En í seinni leiknum á heimavelli sýndum við styrk okkar og fórum áfram með 4-0 sigri sem hefði víst auðveldlega orðið stærri. Við mættum svo Southend í annað skiptið og unnum 3-1, svo unnum við Fulham 0-4. Næsti leikur í bikarnum var svo gegn Chelsea. Við mættum með vængbrotið lið sökum meiðsla og leikjaálags á heimavöll Chelsea en öllum að óvörum var staðan í hálfleik 1-3 fyrir Spurs. En sennilega sökum mikillar þreytu misstum við leikinn niður í jafntefli. Chelsea sló okkur svo út í seinnileiknum með 1-2 sigri. Á þessum tímapunkti var eins og áður sagði mikil meiðslavandræði og stutt á milli leikja. Árangur okkar í þessari keppni er frábær. Sérstaklega ef horft er til árangurs síðasta árs.

Það er ansi gaman að vellta sér uppúr því að í fyrra settum við vafasamt met með því að vera það úrvalsdeildarlið sem hafði spilað fæsta leiki á einu tímabili (40 leikir). Í ár spiluðum við við fleirri leiki en við höfum nokkurntíma gert frá stofnun PL (óstaðfest tölfræði). Við spiluðum samtals 59 leiki í öllum keppnum þetta tímabil. Persónulega finnst mér það full mikið. En ég myndi samt umfram allt vilja að við myndum spila fleirri leiki næsta tímabil. En kannski er raunhæfara og betra markmið að ná að vinna eina keppni en að komast langt í öllum.

Ég ætla að fara að grúska eitthvað í tölfræði næstu dagana, og reyna að finna einhverja skemmtilega tölfræði um leikmenn. Ekki endilega bara hverjir skoruðu mest og eitthvað svoleiðis heldur ætla ég aðeins dýpra í þetta og láta það vera loka póstinn í uppgjörinu.

sunnudagur, maí 13, 2007

Uppgjör, Bestu ....

Nú er tímabilið á enda og þá þarf að gera það upp. Þetta er fyrsti pósturinn í uppgjörinu. Ég er búinn að búa til nokkrar svona spurningar um "bestu og verstu" í Spurs. Það væri gaman að sjá sem flesta svara þessum spurningum.

1.Besti leikmaðurinn: Berbatov er án nokkurs vafa í mínum huga besti leikmaður tímabilsins. Hann var t.a.m eini leikmaður Spurs sem komst í úrvalsliðið og er að mínu mati besti framherji deildarinnar.

2.Kom mest á óvart: Ég þarf að gera upp á milli Berbatov, Huddlestone og Robbinson. Sá síðast nefndi kom svolítið á óvart fyrir að hafa ekki staðið sig eins vel og hann getur. Berbatov kom mér mjög á óvart þó ég hafi alltaf vitað að hann væri góður leikmaður gerði ég mér grein fyrir því að fjöldinn allur af góðum leikmönnum kemur til Englands ár hvert en ná ekkert að sýna. Að Berbatov hafi strax á fyrsta tímabili sannað sig sem einn besti sóknarmaður deildarinnar ef ekki sá besti hefur komið mér á óvart. Ég held að ég láti þó Huddlestone fá viðurkenninguna þar sem ég bjóst ekki við neinu af honum. En hann varð á tímabili fastamaður í liðinu og stóð sig frábærlega.

3.Bestu kaupin: Berbatov, engin spurning.

4.Efnilegasti leikmaðurinn: Lennon er í mínum huga ekki lengur bara efnilegur heldur góður leikmaður. Ekotto og Dervite (sem mig grunar að verði hittari á næsta tímabili) eru líka efnilegir. Huddlestone er þó að mínu mati sá leikmaður sem gæti orðið gríðarlega stór stjarna með smá þjálfun. THUDD fær því mitt atkvæði.

5.Besta framistaðan í leik: Framistaða Chimbonda gegn Chelsea í nóvember er án nokkurs vafa besta framistaða leikmanns á tímabilinu. Jafnvel besta framistaða leikmanns Tottenham í áraraðir. Þegar menn fórna öllu fyrir félagið eiga menn hrós skilið. Fyrir utan það að hann var maður leiksins í stærsta sigri vetrarins þá spilaði hann leikinn meiddur og virtist ekki hlífa sér hið minnsta.

6.Vonbrigði vetrarins: Í mínum huga koma þrír leikmenn til greina. Robinson var lengi vel að spila langt undir væntingum en náði sér aðeins á strik seinni hlutann á tímabilinu. Einnig var ég fyrir nokkrum vonbrigðum með Mido. Hann á að geta svo miklu betur en hann sýndi. Það er svosem hægt að færa rök fyrir slæmu gengi hans, en ég var þó fyrir vonbrigðum. En sá sem ég var fyrir mestum vonbrigðum með var fyriliðinn Ledley King. Ég gerði mér vonir um að hann myndi vera kletturinn í vörninni í ár eftir mikil meiðsli á síðasta tímabili. En í raun var hann töluvert meira meiddur þetta tímabil en tímabilið á undann. Þó það sé ekki hægt að kenna honum persónulega um þetta þá var ég samt fyrir mestum vonbrigðum með hann.

7.Tilþrif vetrarins: Það er á nokkru að taka í þessum flokki, markið sem Robbo skoraði var auðvita eitt af tilþrifum vetrarins. Stoðsending Lennons með hælnum. Nánast hver einasta hreyfing Berbatov var tilþrif, en ég vel tilþrif tímabilsins atvikið þar sem Robbie Keane fór illa með hægri bakvörð Chelsea sem hafði haldið Ronaldinho niðri í síðasta leik sínum. Hann gjörsamlega sólaði hann upp úr skónum þar til þessi leikmaður (heitir eitthvað Boulanroux eða eitthvað) datt bara á rassinn og svo kom brilljant sending inn í teiginn frá Keano.

8.Baráttuhundur ársins: Nokkrir sem koma hérna til greina. Tainio, Chimbonda, Zokora og Dawson t.d. En Dawson vinnur þetta með nokkrum yfirburðum þó.

9.Mark vetrarins: Án nokkurs vafa mark Paul Robinson af 80 metra færi.

10.Markvarsla vetrarins: Robinson varði víti á tímabilinu. Ætli það verði ekki bara fyrir valinu.

11.Herra stöðugleiki: Dawson, man ekki eftir neinum leik þar sem hann var lélegur.

12.Herra óstöðugleiki: Að mínu mati er það Ghaly. Ghaly átti nokkra rosalega fína spretti í vetur en átti líka marga hörmulega leiki.

13.Vanmetnasti leikmaðurinn: Þeir sem hafa lesið síðuna í vetur ættu ekki að hrökkva við þegar ég segi að vanmetnasti leikmaðurinn sé Ekotto. Að mínu mati er þetta frábær leikmaður.

Liðið

14.Leikur ársins: Þetta er svona leikurinn sem stendur uppúr á tímabilinu, besta framistaða liðsins í vetur. Í mínum huga og eflaust margra annara er það leikur okkar gegn Chelsea í nóvember þegar okkur tókst loksins að vinna eitt af stórliðunum.

15.Skemmtilegasti leikurinn: Virkar kannski eins og sama spurningin og að ofan. Ég er samt að meina þetta öðruvísi, þó auðvitað gæti sami leikurinn hæft báðum þessum flokkum. Þetta er ekki endilega best spilaði leikur okkar á tímabilinu heldur bara út frá skemmtanagildi. Þó Chelsea leikurinn margumræddi komist vissulega nálægt þessu og allir evrópuleikirnir með tölu verð ég þó að velja leik okkar gegn West Ham í mars. Bæði lið spiluðu sókndjarft og skemmtilega og úrslitin 3-4 með marki Stalteri þegar 6 mínútur voru liðnar af uppbótartíma er líklega leikur sem ég á eftir að horfa á aftur.

16.Mesti karakterinn: Það er aftur um þessa tvo leiki að ræða leikinn gegn West Ham í mars og leikurinn gegn Chelsea í nóv. Ég held þó að leikurinn gegn Chelsea fái mitt atkvæði þarna.

17.Leiðinlegasti leikurinn: Frá sjónarhorni Spursara var leikurinn gegn Arsenal í des. sá leikur sem maður vill gleyma sem fyrst. En opnunarleikurinn gegn Bolton mun ég seint gleyma sama hvað ég reyni. Ég man varla eftir að hafa séð leiðinlegri leik. Bæði lið spiluðu ömurlega leiðinlegann bolta og ekkert að gerast milli marka.

5. Sætið er okkar!!!!

Já við tryggðum okkur 5. sætið annað árið í röð. Þvílíkur endir á frábæru tímabili. Ég óska öllum Spursurum til hamingju með árangurinn sem var stórkostlegur... að lokum. Ég vona að næstu daga snúist umræðan um frábærann árangur okkar, en ekki um hvað þarf að bæta í sumar... allavega ekki núna strax eftir tímabilið. Það er nægur tími til að vellta sér upp úr vandamálunum á næstu mánuðum.

Ég bara varð að óska ykkur til hamingju með 5. sætið, í augnablikinu rignir uppí nefið á mér af stolti yfir frábæru gengi okkar manna. En vonandi næ ég að klára einn póst fyrir kvöldið, sem ég hendi inn.

laugardagur, maí 12, 2007

lokaumferðin

Jæja lokaumferðin á morgun. Staðan er svipuð og í fyrra, en þó ekki. Við eigum loka leikinn gegn svona miðlungsliði og getum tryggt okkur áframhaldandi evrópuþáttöku með jafntefli hið minnsta. Í ár stefnum við að 5. sætinu sem væri frábær árangur.

Menn kunna að segja sem svo að Man City ætti að verða auðveld bráð þar sem þeir hafa að engu að stefna. Ég held hinsvegar að Citymenn séu að fara mæta dýrvitlausir til leiks. Það eru ekkert lið sem er tilbúið að tapa lokaleiknum. Lokaleikurinn er álíka mikilvægur og 5 leikir á miðju tímabili, þá á ég við í hugum stuðningsmanna. Spáið í því hvað var til þess að við komumst ekki í CL í fyrra... Var það tapið gegn Bolton í nóvember? eða tapið gegn Fulham í lok janúar? Nei, var það ekki magakveisan og tapið í lokaleiknum gegn West Ham? Það eru töp og sigrar í loka leiknum sem skipta öllu máli. Það vill ekkert lið senda stuðningsmenn sína inn í sumarhléið með tap í lokaleiknum. Vinni City leikinn munu stuðningsmenn þeirra vera glaðir og fagna sigrinum. Vonbrigði yfir gengi þeirra í vetur verður ekki efst á baugi heldur frækinn sigur á stórliði Spurs. Þeir eiga von um að ná 12 sæti með sigri en 15 sæti með tapi. Þó svo að þetta sé ekki jafn háleitt markmið eins og stefna okkar á evrópukeppni er þetta næg ástæða fyrir þá til að mæta á WHL til að gefa allt í leikinn.

Ég býst því við að bæði lið munu gera sitt allra besta á morgun til að vinna leikinn. Ég á von á góðum leik þar sem bæði lið munu berjast til síðasta blóðdropa. Við munum hafa sigur að sjálfsögðu. Ég stilli þó væntingum mínum í hóf og vonast eftir evrópusæti. Endi leikurinn jafntefli og Everton tapi mun ég samt sem áður vera ánægður með liðið. Ég hef þó enga trú á að við séum að fara gera jafntefli á morgunn. Þetta verður sigur sama hvað menn tauta og raula yfir lokasprettinum undanfarin ár.

Það er annars að frétta að ég hef háleit markmið um að slútta tímabilinu með nokkrum póstum sem eru í vinnslu og mun því vonandi pósta inn nokkrum póstum á næstu dögum.

föstudagur, maí 04, 2007

Catching up

Enþá er allt vitlaust að gera í vinnunni og ég alveg að detta úr öllu sambandi við umheiminn og fótboltann. Náði samt að horfa á bróðurpartinn á móti Middlesbrough og var bara nokkuð sáttur. Við erum með betra lið en þeir, en þeir eru svo óútreiknanlegir að það koma engin úrslit á óvart lengur þegar þeir eiga í hlut. Þeir geta unnið besta lið deildarinnar sannfærandi en geta svo skíttapað í næsta leik á móti lélegasta liði deildarinnar.

Á loka kaflanum í mótinu finnst mér engu máli skipta hvernig leikur okkar er á að horfa. Úrslitin eru það eina sem skiptir máli. Spurs hefur orð á sér fyrir að klúðra hlutunum á síðustu metrum tímabilsins, þ.a.l er eina krafan sem ég geri til liðsins að við tryggjum okkur 7. sætið.

Þar sem ég fer út á land að vinna á mánudagsmorguninn og verð fram á föstudag mun ég missa af tveimur af 3 síðustu leikjum Spurs á tímabilinu. Mér finnst það ansi grátlegt og er mjög svekktur með það. Ég held að leikurinn gegn Charlton verði mjög erfiður. Þeir eru auðvitað í bullandi fallbaráttu og þá eru liðin oft illviðráðanleg. Það skemmtilega við þetta er þó að ég veit um tvo Arsenalmenn á ísl. sem munu vonast eftir sigri Spurs þar sem þeir styðja West Ham í fallbaráttunni. Ég vill meina að síðustu tveir leikirnir séu þó alfarið í okkar höndum. Við erum á heimavelli í báðum leikjunum. Man. City mun ekki vera undir neinni virkilegri pressu um að ná sigri í síðasta leiknum og vonandi mun staðan vera sú sama hjá Blackburn (þ.e ef þeir tapa gegn Newcastle um helgina). Draumurinn væri samt auðvitað að vinna rest. Þá er 5. sætið okkar og það er bara virkilega ásættanlegur árangur. En brennt barn forðast eldinn og ég sætti mig við sjöunda sætið.

Eins og ég segi mun ég horfa á leikinn gegn City og bind ég vonir við að vera hættur allri aukavinnu á þeim tíma og þá mun ég henda inn nokkrum góðum póstum.