laugardagur, maí 12, 2007

lokaumferðin

Jæja lokaumferðin á morgun. Staðan er svipuð og í fyrra, en þó ekki. Við eigum loka leikinn gegn svona miðlungsliði og getum tryggt okkur áframhaldandi evrópuþáttöku með jafntefli hið minnsta. Í ár stefnum við að 5. sætinu sem væri frábær árangur.

Menn kunna að segja sem svo að Man City ætti að verða auðveld bráð þar sem þeir hafa að engu að stefna. Ég held hinsvegar að Citymenn séu að fara mæta dýrvitlausir til leiks. Það eru ekkert lið sem er tilbúið að tapa lokaleiknum. Lokaleikurinn er álíka mikilvægur og 5 leikir á miðju tímabili, þá á ég við í hugum stuðningsmanna. Spáið í því hvað var til þess að við komumst ekki í CL í fyrra... Var það tapið gegn Bolton í nóvember? eða tapið gegn Fulham í lok janúar? Nei, var það ekki magakveisan og tapið í lokaleiknum gegn West Ham? Það eru töp og sigrar í loka leiknum sem skipta öllu máli. Það vill ekkert lið senda stuðningsmenn sína inn í sumarhléið með tap í lokaleiknum. Vinni City leikinn munu stuðningsmenn þeirra vera glaðir og fagna sigrinum. Vonbrigði yfir gengi þeirra í vetur verður ekki efst á baugi heldur frækinn sigur á stórliði Spurs. Þeir eiga von um að ná 12 sæti með sigri en 15 sæti með tapi. Þó svo að þetta sé ekki jafn háleitt markmið eins og stefna okkar á evrópukeppni er þetta næg ástæða fyrir þá til að mæta á WHL til að gefa allt í leikinn.

Ég býst því við að bæði lið munu gera sitt allra besta á morgun til að vinna leikinn. Ég á von á góðum leik þar sem bæði lið munu berjast til síðasta blóðdropa. Við munum hafa sigur að sjálfsögðu. Ég stilli þó væntingum mínum í hóf og vonast eftir evrópusæti. Endi leikurinn jafntefli og Everton tapi mun ég samt sem áður vera ánægður með liðið. Ég hef þó enga trú á að við séum að fara gera jafntefli á morgunn. Þetta verður sigur sama hvað menn tauta og raula yfir lokasprettinum undanfarin ár.

Það er annars að frétta að ég hef háleit markmið um að slútta tímabilinu með nokkrum póstum sem eru í vinnslu og mun því vonandi pósta inn nokkrum póstum á næstu dögum.

Engin ummæli: