Var að kíkja á spursspjallið eins og venjan er á hverjum degi. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég ætlaði alltaf að skrifa póst sem ég hafði svo trassað og gleymt. Hérna kemur þessi póstur.
Mér finnst Björk leiðinleg söngkona, en mér finnst frábært að hún sé að gera góða hluti um allann heim og vona að henni gangi sem allra best. Ég gef heldur ekki mikið fyrir tónlist Nylon, Sigurrós eða Garðars Thors, en vona að þeim gangi sem allra best. Ég hef lítinn áhuga á sundi, en finnst frábært þegar Örn Arnarson vinnur stórmót. Ég þoli ekki golf, en vona að Birgir Leifur nái að festa sig í sessi á stórmótum. Ég fylgist lítið eitt með handbolta, en er rígmontinn af handboltamönnum okkar eins og Óla Stef., Guðjóni Val, Róberti Gunnarssyni og fleirrum. Ég vona líka að þeim gangi allt í haginn á komandi árum. Ég læt ófeiminn stuðning minn við allt þetta fólk í ljós hér og nú.
Af þeim ástæðum skil ég ekki af hverju svona margir horfa með fyrirlytningu á fólk sem studdi Stoke eða styður West Ham eða styður Eið Smára. Ég held að það viti allir hvað ég á við. Ef menn byrja að styðja lið vegna þess að íslendingur tengist því á einhvern hátt eru þeir litnir hornauga. Það er eins og það sé einhver landlæg skömm fólgin í því að styðja landa sína. Meira að segja þegar þú ferð á landsleik í fótbolta færðu fyrirlytningaglottið ef þú gerir tilraun til að öskra og hvetja liðið. En Íslendingar eiga í litlum vandræðum með að fara á völlinn á Englandi að styðja sitt lið í PL. Er það virkilega svona ömurlegt að styðja við bakið á löndum sínum? Er þjóðarskömmin svona svakaleg?
Ég að sjálfsögðu get aldrei snúið bakinu við Tottenham. En ég vona að West Ham gangi vel á meðan Eggert og félagar eru við völd. Ef krakkar velja ekki að styðja Spurs vona ég innilega að þeir velji að fylgja West Ham að málum. Þá menn sem studdu Chelsea á meðan Eiður var þar hvet ég til að styðja West Ham vilji þeir ekki styðja Spurs.
Á meðan þjóðarskömmin er svona svakaleg lít ég upp til þeirra sem þora að segja "Ég styð Eið" eða "Ég styð West Ham" þrátt fyrir alla þá vanþóknun sem aðrir kunna að sýna þeim fyrir að sýna samstöðu með löndum sínum. Ég lít líka upp til þeirra sem þora að styðja Íslenska landsliðið í fótbolta með því að standa upp og öskra sig hása þrátt fyrir augngoturnar.
Maður velltir svo líka fyrir sér hvaða ástæða fyrir að halda með klúbb gerir mann gjaldgengann sem stuðningsmann. Ég hef margoft lýst því að ég byrjaði að halda með Spurs þegar Klinsman kom til Spurs. Af viðbrögðunum að dæma virðist það vera góð og gjaldgeng ástæða, allavega hef ég sloppið við fyrilytningarsvip við þessa fullyrðingu mína. En er þessi ástæða eitthvað verri en að byrja að halda með liði því Eiður spilar með því eða af því að Eggert og félagar keyptu lið? Ef ég reyni að skilja þennann hugsunarhátt myndi ég jafnvel telja það betri ástæðu en mína. Ég get því ekki skilið þetta á annann hátt en að þjóðarskömmin sé að svo svakaleg.
Nú dýrka Argentínumenn Maradonna og Brasilíumenn Pele og þar fram eftir götunum. Þetta eru stærstu stjörnur þessara landa. En á Íslandi virðist það vera að því betri sem leikmaðurinn er því meiri fyrirlytningu hljóta þeir sem styðja hann. Sjáum t,d Eið. Stuðningsmenn Eiðs hafa alltaf verið litnir hornauga. En stuðningsmenn Charlton eða Reading hafa sloppið betur sökum þess að Íslendingarnir sem spila þar eru ekki jafn áberandi og eru þ.a.l okkur ekki jafn mikið til skammar. Eggert er nú mjög áberandi og um leið eru stuðningsmenn West Ham á Íslandi litnir hornauga á sama hátt og stuðningsmenn Eiðs/Chelsea voru litnir hornauga.
Á sama hátt og biblían segir "Ég er drottinn guð þinn þú skalt eigi aðra guði hafa" (sko maður lærði eitthvað í fermingafræðsluni í denn), mun aðeins eitt lið rúmast í hjarta mínu og það er Tottenham Hotspur.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Ágætur póstur. Held þó að þetta sé svolítið mörg ár aftur í tíman, því íslendingar eru jú farnir að styðja sín lið, eins og t.d. í landsbankadeildinni eru komnir ágætis stuðningsmannahópar sem er frábær þróun. Á landsleikjum er nú farið að heyrast aðeins meira í mönnum, en það er nú alltaf erfitt held ég á Laugardalsvelli þar sem hann er frekar stór miðað við þann hóp sem kemur þar, og svo er hlaupabraut sem gerir fjarlægðina frá vellinum of mikla og þar með ekki eins mikla stemmingu.
En Íslendingar eru að læra, og eru að færa söngvana heim til íslands frá Bretlandi því ferðirnar þangað út eru orðnar mun fleiri í dag heldur en var hér árum áður.
Held líka að það sé ekki mikið feimnismál að halda með Eið Smára. Allavegana hefur maður heyrt í mörgum sem líta mikið upp til hans og eru ekkert feimnir við það. Bara hið besta mál.
Eða, það held ég allavegana. :-)
Það er rétt hjá þér að það eru komnir fleirri stuðningsmannahópar á Íslandi. Þegar maður fer á leik í landsbankadeildinni eða landsleik eru yfirleitt svona um 10% stuðningsmanna sem eru virkilega ósparir á raddböndin og þeir halda sig yfirleitt í hópum til að vera ekki litnir hornauga sem einstaklingur. En ég var t.d á landsleik Íslands - Spánn fyrir nokkru. Þar var að sjálfsögðu stuðningsmannahópur sem reyndi sitt besta. Hinn almenni stuðningsmaður tók þátt í að klappa og muldra "áfram Ísland" og púaði svona af og til. Svo gerðist það að þegar lítið var að gerast að það reis einn maðurinn úr sæti sínu og öskraði "Takið á þessu, þetta er ekki búið!!!". Þeir sem sátu í 5 metra radíus frá þessum manni hrukku við og störðu á hann með hæðnisbros á vör. Ef þú ferð á leik á Englandi ert þú jafnvel litinn hornauga ef þú öskrar ekki á leiknum. Þetta er því alveg svart og hvítt.
Svona það sem ég man eftir í umræðunni um menn sem studdu Chelsea/Eið man ég mest eftir því að þeir stuðningsmenn láu mikið undir gagnrýni annara stuðningsmanna sem sögðu þá óbeint ekki vera ekta, því þeir væru meira að styðja einn mann frekar en liðið. Meira segja lætur fólk það fara í taugarnar á sér að það sé meira fjallað um Íslendingaliðin í íslenskum fjölmiðlum. Menn láta það fara í taugarnar á sér þegar íslenskir lýsendur hrósa öllu því sem Eiður gerir vel.
En ég veit auðvitað að þeir eru líka til sem eru stoltir af Eiði. Þeir eru líka til sem eru ánægðir með að menn styðja liðin sem Íslendingar spila með. Þeir eru líka til sem sýna þjóðarstollt sitt. Pósturinn átti ekki að vera alhæfing heldur gagnrýni á hóp manna sem virðast lifa í þjóðarskömm.
Skrifa ummæli