Jæja þá býður maður nýjann leikmann Spurs velkominn í hópinn. Við vorum að kaupa Gareth Bale frá Southampton (Saints). Kaupverðið er talið geta orðið allt að 10 m/p eftir árangri hans með liðinu. Hann er einungis 17 ára og var fastamaður hjá Saints á síðasta tímabili auk þess að eiga tvo landsleiki að baki með Wales. Nú keppast menn eins og Ryan Giggs, Redknapp og fleirri við að lofa manninn og segja að við höfum landað stjörnu. Ég skrifaði póst í vetur þar sem ég kallaði hugsanleg kaup á honum í janúar vitleysu. En hefur skoðun mín breyst?
Ég er eiginlega á báðum áttum hvort ég sé ánægður með kaupin. Okkur vantar ekki vinstri bakvörð að mínu viti. Við höfum Lee, Ekotto og Dervite til að leysa þá stöðu og mér finnst það í sjálfu sér nóg (veit að margir eru ósammála mér þarna). Síðasti varnarmaður sem við keyptum frá Saints var Dean Richards sem kostaði þá 8 m/p sem var líklega meiri pengur fyrir leikmann í þá daga en hann telst í dag.
Mér finnst alltaf mjög hæpið að kaupa unga leikmenn sem eru ágætir og segja "hann er bara 17 ára". Það er ekkert lögmál að menn bæti sig með tímanum. Ég man fyrir svona 3 árum hömuðust Liverpoolmenn við að segja mér hversu björt framtíðin væri hjá þeim. Þeir væru með Markmann eins og Cris Kirkland sem væri einn efnilegasti markvörður sem England hefði alið. Einnig væru þeir með Paul Welsh og fleirri unga leikmenn sem myndu komast í byrjunarliðið hjá flestum liðum í úrvalsdeildinni. Fyrir c.a 7 árum var hjá okkur leikmaður að nafni Anthony Gardner sem var ekki orðinn tvítugur og var farinn að spila nokkra leiki sem byrjunarliðsmaður. Hann var að spila með yngri landsliðum Englands og fékk meira að segja tækifæri með A landsliði Englands. Það vantaði ekki lofyrðin á þennann mann hjá okkur Spursurum, og sögusagnir um mettilboð í hann komu með reglulegu millibili. Málið er bara að það felst alltaf áhætta í að kaupa unga leikmenn. Stundum borgar áhættan sig og leikmenn verða betri og betri. Stundum standa þessir leikmenn ekki undir væntingum. Þess vegna er ég svolítið efins með að vera borga svona mikið fyrir svona ungann leikmann, því þetta er jú áhættufjárfesting. Ef hún borgar sig þurfum við samt að borga Saints hluta af verði leikmannsins ef hann verður seldur. Það er fínn díll fyrir annann aðilann.
Á hinn bóginn má benda á að Jol er enginn vitleysingur þegar kemur að því að meta unga leikmenn. Það virðast allir sem eitthvað þekkja til Bale vera sammála um að hann er með hausinn í lagi. Hann þykir víst líka skuggalega góður þó hann sé aðeins 17 ára. Ég held að Jol hafi heldur ekki endilega verið að kaupa vinstri bakvörð heldur vinstri vængmann. Það er svo bara staðreynd að það er erfitt að finna góðann örfættann leikmann í dag. Þeir leikmenn eru því orðnir mjög eftirsóttir. Það er ekki eins og við höfum úr mörgum örfættum leikmönnum að velja þegar kemur að því að velja mann í vinstri vænginn. Mér skilst að við höfum borgað 5 m/p út og svo eiga Saints möguleika á 5 m/p ef hann stendur sig hjá Spurs. Með þessu erum við búnir að takmarka áhættuna að nokkru leiti.
Þannig að ég er ekki viss um þessi kaup. Ég læt að sjálfsögðu félagið njóta vafans og fagna komu hans. Leikmaðurinn á hið minnsta skilið tækifæri til að sanna sig, og það gef ég honum. Ég er því bara nokkuð sáttur.
Ps'
Ég er enn að vinna í póstinum um tölfræði leikmanna. Það tekur töluvert lengri tíma en ég bjóst við þar sem ég þarf að mestu leiti að reikna tölfræðina sjálfur sem ég vill finna. En af því sem komið er er margt sem kemur á óvart.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli