laugardagur, maí 19, 2007

Uppgjör... Tímabilið

Jæja nú þegar tímabilið er á enda er rétt að gera upp tímabilið. Þetta er líklega mikilvægasti pósturinn sem komið hefur á inn á þessa síðu hingað til. Ástæða þess að ég segi það er vegna þess að það sem ég sé mest eftir af þeim póstum sem glötuðust við hökkun spjallborðs Spurs.is eru uppgjörspóstarnir eftir tímabilið. Svona einn þráður sem coverar allt tímabilið frá sjónarhorni aðdáanda.

Fyrir tímabilið var ljóst að við myndum vera án Michael Carrick sem gekk í raðir Man. U. Það var öllum ljóst að það var mikill missir af þessum frábæra leikmanni. En þetta var eini alvöru leikmaðurinn sem við misstum.

Við fengum hinsvegar marga alvöru leikmenn í staðinn. Dimitar Berbatov gekk til liðs við okkur í sumar. Það vissu um leið allir að þar var kominn frábær leikmaður. Í hreinskilni sagt held ég þó að ekki nokkur maður hafi leyft sér að vona að hann yrði eins góður og raunin hefur orðið. Hann var frábær hjá Leverkusen en enska deildin er bara allt annað og við höfum séð það alltof oft að leikmenn sem þykja góðir í utan Englands hafa átt erfitt með að fóta sig í ensku deildinni.

Við fengum einnig Pascal Chimbonda í hægri bakvörðinn. Það efaðist enginn um að hann myndi styrkja liðið þar sem hann var valinn í úrvalslið PL tímabilið áður. Það kom allavega mér á óvart hversu fljótur hann var að aðlagast liðinu.

Didier Zokora var annar leikmaður sem kom til okkar í sumar. Væntingarnar til þessa manns voru gífulegar eftir að hann hafði staðið sig stórkostlega í HM í þýskalandi um sumarið. Það tók hann hinsvegar langann tíma að aðlagast liðinu/Landinu/Deildinni. Það var ekki fyrr en í febrúar sem hann fór að sýna sitt rétta andlit og rúmlega það.

Steed Malbranque var svo fjórða stjarnan sem kom til okkar í haust. Það voru skiptar skoðanir meðal stuðningsmanna Spurs um hann en flestir voru þó sammála um að hann var skárri en þeir leikmenn sem höfðu barist um stöðu vinstri vængmanns.

Einnig kom til okkar ungur vinstri bakvörður frá Frakklandi að nafni Ekotto sem átti að veita Lee samkeppni. Fæstir bjuggust við einhverju stórkostlegu frá þessum leikmanni en töldu hann þó ágætis viðbót.

Þrátt fyrir að Carrick hafi farið voru þó flestir á því að liðið væri sterkara en það var vegna tilkomu þessara nýju leikmanna. Væntingar manna byggðust þar af leiðandi af árangri síðasta tímabils og tilkomu nokkurra heimsklassa leikmanna. Margir voru farnir að sjá fram á nýtt glory tímabil Spurs þar sem þeir myndu sigra England og Evrópu á einu bretti. Það var svo ekki til að draga úr væntingum manna að við fórum taplausir gegnum undirbúningstímabilið þrátt fyrir að nánast allir okkar bestu menn væru enn í sumarfríi vegna HM.

Premier League
Fyrsti leikur tímabilsins var því eins köld tuska framan í yfirspennta og stórhuga aðdáendur. Leikur okkar við Bolton var hreint út sagt ömurlegur á að horfa og veittum við þeim enga mótspyrnu. 4 stig úr fyrstu 6 leikjunum var því ansi hörð lending fyrir vel flesta stuðningsmenn og voru menn strax farnir að snúa baki við Martin Jol og farnir að velta fyrir sér framtíð hans.

Oktober mánuður byrjaði þó á öðrum sigri vetrarins þegar við unnum Portsmouth á heimavelli með einu umdeildasta atviki vetrarins þegar Zokora lét sig falla í vítateig andstæðinganna. Við fórum taplausir gegnum þann mánuð og það sem meira var að við vorum strax búnir að stórbæta árangurinn í CC bikarnum með 0-5 sigri á MK Dons.

Ef oktober byrjaði vel þá byrjaði Nóvember stórkostlega. Eftir að hafa unnið Club Brugge 3-1 í byrjun Nóvember komu Chelsea í heimsókn. Það þarf vart að fjölyrða um þann leik þar sem leikurinn þar sem við loksins unnum eitt af stóruliðunum mun vera greyptur í huga manna næstu árin. Mánuðurinn var líka ágætur að örðu leiti aðeins eitt tap leit dagsins ljós það sem af lifði mánaðarins. Þessi mánuður er einnig minnistæður fyrir þær sakir að það fæddist stjarna á WHL. Ungur og efnilegur leikmaður að nafni Tom Huddlestone fékk nokkur tækifæri með aðalliðinu sökum meiðsla Jenas og Tainio.

Eins og síðustu tveir mánuðir höfðu byrjað vel var byrjunin á annars ágætis desembermánuði sú ömurlegasta sem hugsast gat. 3-0 tap fyrir erkiféndunum í Arsenal var meira en menn sættu sig við. Annars samanstóð desember mánuður af 4 sigrum og 3 tapleikjum.

Það er þó óhætt að segja að leikurinn gegn Aston Villa á annann í jólum hafi markað tímamót á þessu tímabili. Við þurftum að bíða í 57 daga eftir næsta sigri í deildinni og það var meira en menn sættu sig við. Ansi margir stuðningsmenn höfðu misst trúnna á liðið, leikmenn og þjálfara.

Þó svo að ég hafi reynt að vera bjartsýnn í lægðinni (mörgum til ama) verð ég að viðurkenna að þessi lægð tók svolítið á mann. Einhvernveginn innst inni vissi ég þó að þetta var tímabundið ástand og að liðið myndi sýna mátt sinn á ný. Það var svo raunin. Eftir að hafa tapað 0-4 gegn Man U. og 2-1 gegn Sheffield var botninum náð. Leikmenn tóku sig heldur betur á og unnu hvern leikinn á fætur öðrum og skoraði endalaust af mörkum. Næstu 8 leikir samanstóðu af 7 sigrum og einu jafntefli gegn Englandsmeisturum Chelsea á útivelli.

Nú voru menn aftur orðnir bjartsýnir og þeir bjartsýnustu jafnvel farnir að gjóa augunum að meistaradeildarsæti. Þeir raunhæfu stilltu væntingunum í hóf og vonuðust eftir að komast í Uefa Cup annað árið í röð.

Undir lok aprílmánaðar var ljóst að CL væri ekki lengur möguleiki og þegar kom að lokaleiknum var staðan þannig að við þurftum hið minnsta jafntefli til að tryggja okkur í Uefa Cup og með sigri okkar og tapi eða jafntelfi Everton áttum við von á að jafna árangurinn frá því í fyrra hvað deildarkeppnina varðar með að ná 5. sæti. Og draumurinn rættist. Everton gerði jafntefli í síðasta leik sínum á meðan við sigruðum Man City 2-1, og 5. sætið því okkar.

Uefa Cup
Eftir lélegann árangur utan deildarkeppninar í fyrra, slaka byrjun tímabilsins og eftirvæntingar vorum við aðdáendur Spurs á nálum yfir þessari keppni. Við höfðum mátt bíða í allnokkurn tíma eftir að fá að sjá Spurs keppa við lið utan Englands og því var óttablandin spenna eftir þessari keppni. Við drógumst í forkeppninni gegn Slavia Prague og fyrsti leikurinn á útivelli. Við höfðum ekki unnið leik hvað þá skorað mark í Uefa frá því Gordon Durie skoraði árið 1991. Við fengum hinsvegar að sjá Jenas skora glæsilegt mark sem tryggði okkur sextugasta sigur okkar í Uefa í hundraðasta leiknum okkar í þeirri keppni. Hálfum mánuði seinna tryggðum við okkur þáttökurétt í riðlakeppninni með 1-0 sigri og samanlagt 2-0 sigri á Slavia Prague.

Það leit ekki vel út fyrir okkur að margra mati þegar uppröðun leikja var tilkynnt í riðlakeppninni. Við áttum að spila útileik við Besiktas í fyrstu umferð sem menn óttuðust mjög, einnig var útileikur gegn Leverkusen sem lagðist misjafnlega í menn. Ekki hjálpaði það til að á þessum tímapunkti vorum við í lægð og strögluðum í 14-17 sæti. En það var eins og leikmenn fengju auka kraft og viljastyrk þegar þeir spiluðu í Uefa. Við þutum í gegnum riðlakeppnina með fullt hús stiga og í flestum ef ekki öllum leikjunum unnum við verðskuldaða sigra. Eftir riðlakeppnina var svo hefðbundið c.a tveggja mánaða hlé. En við vorum dregnir gegn Feyenoord í fyrstu umferð útsláttarkeppninar. Feyenoord var hinsvegar dæmt úr keppni fyrir ólæti áhorfenda í síðasta heimaleik sínum. Spurs var því sjálfkrafa komið í næstu umferð.

Andstæðingar okkar í fjórðu umferð Uefa var belgíska liðið FC Braga. Útileikurinn fór 2-3 fyrir okkur með tveimur mörkum frá Keane og einu frá Steed. Við unnum svo seinni leikinn með sömu markatölu 3-2 þar sem Berbatov skoraði tvennu og Steed eitt. Það lá því ljóst fyrir að við vorum að fara keppa við sigurvegara Uefa frá síðasta ári Sevilla. Hvort það hafi verið mikið leikjaálag samfara meiðslavandræðum eða hvort við mættum ofjörlum okkar er ekki gott að segja en fyrsta leiknum töpuðum við 2-1. Það má svo segja að Sevilla hafi gert útaf við vonir okkar á fyrstu 10 mínútunum í seinni leiknum. Þegar staðan var orðin 0-2. En okkar menn áttu þó hrós skilið því okkur tókst að jafna leikinn með mörkum frá Defoe og Lennon. En lengra komumst við ekki.

Frammistaða okkar í þessari keppni er samt sem áður frábær. Auðvitað var maður farinn að dreyma um úrslitaleikinn og jafnvel sigur en árangurinn er engu að síður frábær.

Bikarkepnnirnar.
Það þurfti svo sem ekkert kraftaverk til að bæta árangur okkar í bikarkeppnunum frá síðasta tímabili. En við bættum árangurinn heldur betur mikið.
Þeir eru nokkrir sem halda því fram að næst besti eða þriðjibesti árangur sem lið getur náð í bikarkeppnum sé að detta út í fyrstu umferð. En það finnst mér alröng hugsun. Þvert á móti finnst mér það stolltsins vegna mikilvægara komast sem lengst í þessari keppni.

CC. Bikarkeppnin
Fyrsti leikur okkar var gegn annaradeildarliðinu MK Dons. Þó leikurinn hafi ekki verið sýndur var töluverð eftirvænting hjá stuðningsmönnum. Þetta var fyrsti bikarleikurinn á tímabilinu og með því einu að sigra þann leik höfðum við þá þegar átt betra bikarár en tímabilið áður. En við gerðum gott betur. Við unnum stærsta sigur okkar í tvö ár. Mk Dons 0 - Spurs 5. Við slóum svo út hvert neðrideildarliðið á fætur öðru og þar á meðal Southend sem hafði slegið Man U. út í umferðinni áður. Það var ekki fyrr en í undanúrslitum að við mættum erkiféndunum í Arsenal að við duttum út. Úrslitin réðust í framlengingu í seinni hálfleik, og þó að það hafi auðvitað verið sárt að tapa fyrir þeim gátum við borið höfuðið hátt. Þetta var okkar besta framistaða frá tímabilinu 2001-02.

FA Cup
Ekki var þáttaka okkar í FA mikið verri. Líkt og í C.C þurftum við aðeins einn sigur til að toppa árangurinn frá því í fyrra. Þetta leit ekkert alltof vel út í fyrsta leiknum gegn Cardiff. Úrslitin 0-0 voru ekki þau sem stuðningsmenn óskuðu sér. En í seinni leiknum á heimavelli sýndum við styrk okkar og fórum áfram með 4-0 sigri sem hefði víst auðveldlega orðið stærri. Við mættum svo Southend í annað skiptið og unnum 3-1, svo unnum við Fulham 0-4. Næsti leikur í bikarnum var svo gegn Chelsea. Við mættum með vængbrotið lið sökum meiðsla og leikjaálags á heimavöll Chelsea en öllum að óvörum var staðan í hálfleik 1-3 fyrir Spurs. En sennilega sökum mikillar þreytu misstum við leikinn niður í jafntefli. Chelsea sló okkur svo út í seinnileiknum með 1-2 sigri. Á þessum tímapunkti var eins og áður sagði mikil meiðslavandræði og stutt á milli leikja. Árangur okkar í þessari keppni er frábær. Sérstaklega ef horft er til árangurs síðasta árs.

Það er ansi gaman að vellta sér uppúr því að í fyrra settum við vafasamt met með því að vera það úrvalsdeildarlið sem hafði spilað fæsta leiki á einu tímabili (40 leikir). Í ár spiluðum við við fleirri leiki en við höfum nokkurntíma gert frá stofnun PL (óstaðfest tölfræði). Við spiluðum samtals 59 leiki í öllum keppnum þetta tímabil. Persónulega finnst mér það full mikið. En ég myndi samt umfram allt vilja að við myndum spila fleirri leiki næsta tímabil. En kannski er raunhæfara og betra markmið að ná að vinna eina keppni en að komast langt í öllum.

Ég ætla að fara að grúska eitthvað í tölfræði næstu dagana, og reyna að finna einhverja skemmtilega tölfræði um leikmenn. Ekki endilega bara hverjir skoruðu mest og eitthvað svoleiðis heldur ætla ég aðeins dýpra í þetta og láta það vera loka póstinn í uppgjörinu.

Engin ummæli: