fimmtudagur, október 25, 2007

Jol farinn fyrir Jól.

jæja nú verður maður að koma aðeins inn í umræðuna. Ég hef haldið mig til hlés undanfarið vegna þess að innan sem utanvallar eru aðeins vandamál sem öll hafa komið fram í umræðunum. Þannig að ég hef ekki getað bætt neinu við. Nenni ekki að skrifa eitthvað ef það er bara copy/paste.

En nú getur maður ekki annað en kommentað. Jol kallinn hættur störfum. Ég á svo sannarlega eftir að sakna hans. Ég held hinsvegar að ástandið í búningsklefanum hafi verið svo slæmt að það hefði ekki lagast nema með stórkostlegum breytingum eins og þessum. Maður sá það svo augljóslega að eitthvað mikið var að. Það var enginn einhvernveginn eins og hann á að sér að vera. Dawson sem er vanur að mæta í leiki eins og grenjandi ljón, öskrandi og stjórnandi vörninni með harðri hendi, var farinn að vera eins og ljúfur kórdrengur inná vellinum. Chimbo sem er einnig vinnuhestur dauðans var hættur að nenna að verjast. Berbatov var kletturinn sem leikmenn litu upp til á síðasta tímabili. Hann hefur ekki verið skugginn af sjálfum sér á þessu tímabili. Jol sjálfur var líka orðin mjög ólíkur sjálfum sér. Hann var farinn að sitja leikina á enda með vonleysissvip. Þetta var eins augljóst og hægt var í leiknum gegn Newcastle. Þá voru þeir 3-1 yfir en Big Sam var ekkert á því að láta fara vel um sig það sem eftir var. Hann öskraði sig hásann og lét leikmenn vita að þeir ættu að klára leikinn og þeir mættu byrja að slaka á þegar dómarinn flautaði. Á meðna sat Jol sem fastast með vonleysis svipinn og horfði í gaupnir sér á meðan leikmenn voru í bullinu inná vellinum.

Við höfum farið í gegnum lægðir áður undir stjórn Jol, en núna var eitthvað meira í gangi, og kannski er það bara félaginu fyrir bestu að fá inn nýjann mann.

Hinsvegar hef ég alls ekki misst trú á Jol og hæfileikum hans. Þetta er án efa einn af 20 bestu þjálfurum evrópu í dag að mínu mati. Ég minnist veru hans hjá okkur ekki af þeim leikjum sem við töpuðum undir hans stjórn heldur þeim framförum sem liðið tók undir hans stjórn. Áður en hann tók við félaginu vorum við að staðnaðir í að vera miðlungslið í deildinni. Nú þegar hann er farinn erum við lið með stór markmið og erum að þróast í að vera ógn við stórveldin 4.

Menn hafa oft nefnt það að skýringin á velgengni okkar sé að það hafi verið eitt svo og svo mörgum milljónum í leikmenn. Það tel ég vera alrangt. Leikmenn eru ekki hlutir sem þú kaupir út í búð. Ástæða þess að við höfum geta keypt menn eins og Zokora, Berbatov, Chimbonda og fleirri (þrátt fyrir mikinn áhuga stóru liðana) er að klúbburinn hefur verið að gera góða hluti innan vallar sem utan. Leikmenn sjá Spurs sem hot prospect og vilja vera með í uppbyggingunni.

Allavega óska ég Jol velfarnaðar og kveð hann með söknuði. Ég mun halda áfram að syngja "I love Martin Jol". Svo er bara að horfa fram á veginn og vona að leikmenn fái aftur andann yfir sig.

sunnudagur, október 07, 2007

Liverpool 2 - Tottenham 2

Ekki léttist á manni lundin við þennan leik. Það var svosem margt gott í þessum leik, jafnvel meira af góðum hlutum en slæmum. En ég er bara orðinn frekar þreyttur á þessu. Þolinmæði mín hefur sín takmörk.

Það fór bara allt í taugarnar á mér í þessum leik. Ef við byrjum að fara aðeins út fyrir völlinn þá fór myndatakan gríðarlega í taugarnar á mér. Spurning um að fá hlutlausa menn á myndavélarnar. Bæði mörk Spurs nást illa. Fyrra markið kom manni í opna skjöldu. Maður þurfti tíma á að átta sig á hlutunum vegna mistaka í útsendingu. Seinna markið er svipað. Myndatökumenn vilja endursýna allt sem Liverpool gera í stað þess að fylgja Spurs eftir í sókn. Arnar Björnsson lýsti leiknum eins og fáráður. T.d fyrra mark L.pool boltanum er neglt rétt fyrir utan teig í varnarmann og boltinn lendir í jörðinni fyrir framan Robbo. Þetta eru gríðarlega erfiðir boltar og oft uppskrift af marki. Robbo nær að slæma höndum í boltann, boltinn dettur inní teig þar sem Voronin kemur einn og óvaldaður að boltanum. En markið skrifast á Robbo???? Er maðurinn ekki með öllum mjalla?

Robbo hefur ekki verið að standa sig vel undanfarið en það gerir það samt ekki að verkum að það meigi skrifa öll mistök sem verða á vellinum á hann.

Í stöðunni 1-2 held ég að flestir Spursarar hafi vonað að við myndum ná jafntefli. Ég velti fyrir mér hvort leikmenn og þjálfari þurfi ekki að kaupa sér minnisblokk, því eitthvað er að. Hversu oft hefur það virkað hjá okkur að komast yfir í leik og pakka í vörn? Kannski í 30% tilvika? Hversu oft þarf þetta að gerast til þess að menn fari að átta sig á að þetta virkar ekki? Í stöðunni 1-2 hefði að mínu viti verið gáfulegra að skipta út allri vörninni fyrir sóknarmenn og blása til stórsóknar. Það hefði þá allavega verið eitthvað nýtt í stað þess að hugsa "við klúðrum alltaf niður forskoti þegar við leggjumst í vörn... uuuhhh Strákar!!! Leggjumst í vörn"

En vissulega var margt jákvætt í þessum leik líka. Jafntefli á Anfield er alltaf ásættanlegt. Flestir leikmennirnir okkar voru að spila vel. Það var barátta í liðinu og margt fleirra. En ég bara nenni ekki að tala um það því mér finnst þetta ekki ásættanlegt að klúðra leiknum á heimskunni einni saman.

laugardagur, október 06, 2007

Orðinn frekar pirraður.

Jæja þá er maður loks tengdur veraldarvefnum á nýjan leik. Þetta hlé gæti hafa valdið kaflaskiptum hjá mér. Ég er nefninlega ekkert voðalega happy yfir stöðu mála. Ég er farinn að standa mig af því að verða mjög pirraður yfir leikjum. Ég hugsa að það sé staðan hjá mörgum öðrum. Málið er að maður sér hvað það býr mikið í liðinu í hverjum einasta leik. Þess vegna verður maður oft ansi pirraður þegar liðið missir dampinn og spilar langt undir getu og klúðrar málunum. Þessi svakalegi óstöðugleiki milli leikja fer líka svolítið í taugarnar á mér þessa dagana.

Í leiknum gegn Fulham komumst við í 1-3 og gátum svo verið ánægðir með 3-3 jafntefli í lokinn miðað við gang leiksins. Gegn villa komast gestirnir í 1-4 og við náum svo að jafna. Við vinnum Famagusta 6-1 í fyrri leiknum en náum svo aðeins jafntefli í seinni leiknum.

Ég veit ekki hverju er um að kenna. Hvað veldur því að leikmaður gengur inná völl þar sem saman eru komnir tugir þúsunda manna til að hylla hann og hann er áhugalaus? Þarf einhverja svaka þjálfararæðu til þess að þú hafir metnað til að standa þig í þessum aðstæðum? Að mínu mati er mesta mótivering sem þú getur fengið að tugir þúsunda manna hvetji þig til dáða. Ef að það hvetur þig ekki áfram þá eru engin orð sem fá þig til þess. En svo er eins og í Villa leiknum að leikmenn hafi fengið samviskubit yfir því hversu svakalega lélegir þeir voru og hafi tekið sig til við að reyna aðeins að bjarga andlitinu. Jol á líklega sök á þessu líka. Hversu vitlaust hefur hann lagt Aston Villa leikinn upp? Ég held að svarið sé að hann hafi lagt hann fullkomnlega vitlaust upp í upphafi og hafi svo náð að bjarga sér aðeins í seinni hálfleik.

Svo á morgun er það Liverpool. Það sem ég óttast mest er að við skíttöpum þessum leik. Það er ekkert í spilunum sem gefur það til kynna að við munum vinna leikinn. En eins og frasinn segir allt er mögulegt í fótboltanum. Ég veit ekki hvort er verra fyrir liðið að tapa leiknum með eins marks mun eða með 7 marka mun. Kannski mun stórtap verða til þess að við náum botninum. Kannski náðum við botninum í síðasta leik í stöðunni 1-4?