miðvikudagur, mars 21, 2007

Að væla yfir væli...

Nú er eitt vinsælasta umræðuefnið á spurs.is hvað Wenger og Mourinho eru að væla. Það er alveg rétt að þeir kasta sökinni oft á aðra og eru oftar en ekki áskrifendur af fyrisögnum blaða með heimskulegum aðdróttunum, kvörtunum yfir dómurum og allt það. Persónulega finnst mér þeir tveir vera með þessu að sýna snilli sína. Góður þjálfari hefur stjórn á öllu. Það eina sem þjálfarar hafa ekki stjórn á í sínum herbúðum eru blaðaskrif og umræða um liðið... Nema þeir tveir, og þá sérstaklega Mourinho.

Það sem skilgreinir velgengni blaða er salan, og til þess að slúðurblöð seljist þarf að hafa eitthvað nógu krassandi umfjöllunarefni. Blaðamenn geta verið ansi útsmognir að finna fréttina sem selur blaðið. Þeir hafa leikmenn undir smásjánni alla daga í leit sinni að næsta skandal sem mun selja blaðið. Þetta tekur á leikmenn og slúður um leikmenn er vissulega áhrifaþáttur hjá leikmönnum. C. Ronaldo sagði t.d að þegar hann var sakaður um nauðgun í fyrra að það hafi haft gríðarleg áhrif á hann. Þannig að blaðaskrif er auðvitað þáttur sem þjálfarar myndu vilja hafa stjórn á.

Mourinho hefur nú náð að stjórna blaðaskrifum með því að auðvelda blaðamönnum starfið. Þeir þurfa ekki að hafa alla leikmenn Chelsea undir smásjánni til að selja blaðið. Mourinho gefur blaðamönnum alltaf eitthvað sem getur selt blaðið þeirra. Með þessari aðferð nær Mourinho að stjórna umræðunni um Chelsea. Það er hann sem býr til fréttirnar með ummælum sínum og því er hann með blaðaskrifin líka undir control.

Það er einnig nokkuð ljóst að með því að stjórna blaðaskrifunum stjórnar hann einnig umræðunni. Stuðningsmenn annarra liða fá aldrei nóg af því að væla yfir vælinu hans Mourinho. Umræðan snýst sjaldnast um leikmenn Chelsea eða eitthvað annað tengt Chelsea. Umræðurnar snúast alltaf um Mourinho. Þannig að þegar ég sé Mourinho væla yfir einhverju eða segja eitthvað heimskulegt minnir það mig á af hverju hann er að ná góðum árangri. Hann er fær stjóri með allt í höndum sér.

Samt myndi ég aldrei vilja fá hann í staðinn fyrir Jol.

Engin ummæli: