miðvikudagur, febrúar 07, 2007

Á að reka Jol?

Jæja ég get því miður lítið fjallað um síðasta leik þar sem ég missti af honum. Þess vegna ætla ég að skrifa um það sem virðist vera eitt af heitustu málunum í dag.

Þeim fjölgar ört sem segja að tími Jol hjá félaginu eigi að líða undir lok hið fyrsta. Ég er svo sannarlega ekki á þeim buxunum og er alveg pollrólegur yfir þessu öllu saman. Segjum sem svo að við lendum í 10 sæti í pl og dettum út í næstu umferð FA cup og dettum út í næstu umferð UEFA. Ég yrði sem stuðningsmaður auðvitað mjög sár. En ég myndi samt vilja sjá Jol taka annað tímabil. Nú eru eflaust margir sem lesa þetta búnir að frussa kaffinu eða gosinu yfir tölvuskjáinn. Mér er þó fúlasta alvara. Ég lít þannig á að góðir hlutir gerist hægt. Það eru svo til þeir menn sem líta þannig á að góðir hlutir gerist með gjörbyltingu og stórum stökkum. Það er mín skoðun að sá hópur vilji Jol burt. Mér langar að segja ykkur sem viljið meina að Jol eigi að taka pokann sinn smá dæmisögu. En byrjum á að fara aðeins yfir það sem gerst hefur í tíð Jol (þið áttið ykkur á feitletruninni þegar á líður lesturinn):

Martin Jol tók við þjálfarastöðu Spurs þann 5 nóv 2004. Eins og menn vita byrjar tímabilið í ágúst þannig að menn voru á því að hann þyrfti tíma með liðinu til að ná árangri. Lokaárangurinn það tímabilið var viðunandi en ekkert meira en það. Við lenntum í 9 sæti og þótti það bara ásættanlegt miðað við aðstæður, og árangur undangengin ár.

Jol verslaði svo töluvert af ungum leikmönnum eftir tímabilið auk þess að kaupa nokkra stórlaxa á borð við Edgar Davids og Jenas. Árangurinn í deildinni lét ekki á sér standa þrátt fyrir að aðra sögu væri um bikarkeppnina að segja. Á örðu tímabili sínu með klúbbinn náði Jol besta árangri Spurs í deild í fjöldamörg ár. Stuðningsmenn Spurs voru sannfærðir um að nú værum við loksins kominn með mann í brúnna sem gæti leitt okkur inn í nýtt glory tímabil.

Um sumarið voru svo keyptir nokkrir leikmenn sem voru í hæsta gæðaflokki.
Leikmenn eins og Berbatov og Zokora sem voru undir smásjánni hjá mörgum af stórliðum evrópu voru fengnir til liðs við okkur. Tímabilið fór þó ekki vel af stað. Við unnum þó okkar stærsta sigur í mörg ár þegar við unnum Englandsmeistarana (stórsigur er að mínu mati ekki alltaf spurning um markamun). En við urðum líka niðurlægðir af erkifjendunum (3-0 tap). Þrátt fyrir að hafa náð í undanúrslit í bikarnum er enn óánægja. Stuðningsmenn gagnrýna leikmenn og þá helst landsliðsmarkvörðinn Paul Robinson sem er kennt um ansi mörg mörkin. Menn eru orðnir þreyttir á endalausum afsökunum hans Jol. Stuðningsmenn eru nú þegar u.þ.b 2-3 eru liðnir af þriðja tímabilinu hans Jol farnir að krefjast uppsagnar hans.

Ég held að þetta sé allt satt og rétt hjá mér. Þetta minnir ykkur kannski eins og mig á eitthvað sem áður hefur gerst á Englandi. Þetta er eiginlega svo líkt einhverju að það jaðrar við einhverju yfirnáttúrulegu. Hvað er Sicknote að fara? Jú ég skal rifja upp fyrir ykkur svolítið sem gerðist fyrir rúmum 20 árum síðan hjá Manchester United.

Þann 6 nóv. 1986 var maður að nafni Alex Ferguson ráðinn til Manchester Utd. Eins og menn vita byrjar tímabilið í ágúst þannig að menn voru á því að hann þyrfti tíma með liðinu til að ná árangri. Lokaárangurinn það tímabilið var viðunandi miðað við aðstæður. 11 sætið var lokaniðurstaðan.

Ferguson verslaði svo töluvert af ungum leikmönnum eftir tímabilið auk þess að kaupa nokkra stórlaxa
á borð við Steve Bruce og Brian McClair. Árangurinn í deildinni lét ekki á sér standa þrátt fyrir að aðra sögu væri um bikarkeppnina að segja. Á örðu tímabili sínu með klúbbinn náði Ferguson besta árangri Man U. í deild í fjöldamörg ár (2. sætið). Stuðningsmenn Man U. voru sannfærðir um að nú væru þeir loksins komnir með mann í brúnna sem gæti leitt Þá inn í nýtt glory tímabil.

Um sumarið voru svo keyptir nokkrir leikmenn sem voru í hæsta gæðaflokki. Þeirra bestur var eflaust Mark Huges. Á þessu tímabili gekk þeim illa í deildinni en komust þó í undanúrslit í bikarnum. En aðdáendur voru ekki sáttir því liðið endaði í 11 sæti deildarinnar.
Næsta tímabil byrjaði ekki vel þó þeir hafi unnið þeirra stærsta sigur í mörg ár þegar þeir unnu Englandsmeistarana (Arsenal 1 - Man U. 4). En þeir urðu líka niðurlægðir af erkifjendunum (5-1 tap gegn Man. City). Stuðningsmenn voru ákafir í að kvarta undann leikmönnum liðsins og þar fékk markmaðurinn sérstaklega slæma útreið. Jim Leighton sem var landsliðsmarkvörður á þeim tíma var kennt um mörg mörkin sem hann fékk á sig. Þegar leið á Janúarmánuð (1990) voru stuðningsmenn Man U. farnir að krefjast uppsagnar Ferguson, enda orðnir langþreyttir á endalausum afsökunum hans í fjölmiðlum. Menn gengu svo langt að mæta með spjöld á Old Trafford með slagorðunum "Three years of excuses and it's still crap. Ta ra Fergie." Fjölmiðlar voru farnir að efast um hæfni Fergie og fyrir stuttu kom það í ljós að leikur Man U. í fjórðu umferð FA cup gegn Notthingham Forrest hafi verið mikilvægasti leikur Ferguson á ferlinum þar sem úrslit hans myndu skera úr um framtíð hans. Á þessu fjórða tímabili gekk þeim hroðalega í deildinni en ágætlega í bikarnum (unnu FA.).

Í dag hugsa ég að margir glotti við tönn þegar þeir lesa um það að Ferguson hafi á þeim tíma verið talinn óhæfur stjóri af stuðningsmönnum sínum. En eins og við vitum eru margir fljótir að snúa baki við þjálfara sínum þegar í harðbakkann slær. Það er það sama að gerast hjá okkur núna. Ég vill þó taka það skýrt fram að það eru enn til þeir stuðningsmenn sem styðja Jol í starfi sínu, þannig að þetta á ekki við um alla. Til þess að sýna það enn betur hversu menn eru fljótir að snúa baki við þjálfara sínum má nefna að í fyrra kröfðust margir stuðningsmenn Man U. afsaknar Ferguson eftir að hafa hrakið Keane frá félaginu og liðið var mjög snemma slegið út úr CL gegn Benfica. Stuðningsmenn Man U. voru fljótir að finna blóraböggul og á margra vörum voru orðinn "Hann er bara búinn að missa það" eða "Honum finnst hann bara vera orðinn stærri en klúbburinn". Þessar raddir þögnuðu á meðan allt lék í lyndi það sem eftir var tímabils. Þessar raddir spruttu svo aftur upp í sumar þegar ljóst var að Ferguson hafði aðeins keypt einn stórlax. Í dag hlæjum við aftur af stuðningsmönnum Man U. á meðan við gerum nákvæmlega það sama í okkar herbúðum. Það er að snúa baki við þjálfaranum þegar illa gengur.

Þó svo að ég sé að benda á að einn af albestu þjálfurum í sögu PL (að mínu mati) hafi byrjað á nákvæmlega sama hátt og Jol
(fyrstu 4 tímabil fergie eru eins og fyrstu 3 hjá Jol) er ég ekkert að staðhæfa að Jol sé næsti Ferguson eða eitthvað slíkt. Ég bendi á þetta til að sýna að stuðningsmenn eru oft of fljótir á sér að dæma þjálfara úr leik.

Í meira en áratug höfum við haldið okkur við að ráða þjálfara og reka þá á tveggja ára fresti og stunum hafa meira að segja þjálfarar ekki náð að klára heilt tímabil áður en þeir eru reknir, krafðir uppsagnar eða taka pokann sinn. Þetta hefur skilað okkur mjög lélegum árangri. Þjálfarar hafa hugsað um skyndilausnir til að redda málunum. Þeir hafa verið að kaupa leikmenn sem eru að spila sín síðustu ár í boltanum og fást því ódýrt eða góða leikmenn sem eru alltaf meiddir.

Hér höfum við þjálfara sem hefur sýnt að hann hefur það sem til þarf til að ná árangri. Hann horfir til framtíðar með kaupum á ungum og efnilegum leikmönnum. Hann er fyrsti þjálfarinn í fjöldamörg ár sem hefur framtíðarsýn á stefnu félagsins og leikskipulag. Fyrir mitt leyti er ég tilbúinn að gefa Jol tíma. Þegar ég segji tíma þá er ég ekki að tala um næstu 5 leiki heldur alvöru tíma. Ég er tilbúinn að endurmeta stöðuna á næsta tímabili. Ég er í hjarta mínu sannfærður um hæfni Jol til að stjórna Spurs. Hann er búinn að gera mjög miklar breytingar á liðinu og er að byggja það upp. Það tekur tíma og ég er tilbúinn að gefa honum tíma til að koma Spurs aftur í fremstu röð. Á meðan hann er að byggja upp gott lið sé ég ekki vandamálið. Ef Jol fer á næstunni mun hann skilja eftir sig frábært lið, það er meira en nokkur framkvæmdarstjóri hefur geta gert í áraraðir. Mér finnst að á meðan hann er að byggja upp og taka til í félaginu sé engin ástæða að örvænta. Í versta falli myndi þá nýr þjálfari taka við frábæru búi svona eins og Benitez gerði þegar hann tók við af Houlier. Við erum búnir að prófa það í einhver 15 ár að gefa þjálfurum stuttann tíma og reka þá svo. Það hefur engu skilað. Af hverju ekki að breyta til og prófa að hafa þjálfara í 5 ár og sjá hvort það skili ekki einhverju þó það taki 2-4 tímabil. Svo fremi að við séum ekki að fara taka þátt í botnbaráttunni á þeim tíma.

Já og á meðan ég man. Ég á auðvitað eftir að fá kommentið um það að okkur vantar stöðugleika, og Jol er ekki að koma með neinn stöðugleika inn í liðið. Well! Mér skilst að síðast þegar liðið bjó við stöðugleika var Terry Venables við stjörnvölin. Síðan eru liðin 16 ár!!! Á þessum 16 árum erum við búnir að hafa 9 þjálfara. Þetta fær mann til að hugsa. Hvernig fáum við stöðugleika??? Í mínum huga er svarið ofureinfalt. Stöðugleiki fæst ekki með sífeldum breytingum, það liggur bara í hlutarins eðli. Með því að láta Jol róa erum við komnir á byrjunarreit aftur og nýr þjálfari kemur í hans stað og fær of stuttann tíma til að mynda stöðugleika og verður rekinn. Mér hryllir við tilhugsuninni um að félaginu sé ef til vill stjórnað af skammsýninni einni saman. Mig hryllir við þeirri tilhugsun að Spurs sé stjórnað af ámóta sirkusstjórn og er hjá Real Madrid.

Nú man ég eftir enn öðru sem ég myndi örugglega fá komment út af. Það eru ummæli Jol eftir leiki. Það eru allir að gagnrýna Jol vegna ummæla á borð við "we have to step up" og "we have to learn from our mistakes" eftir tapleiki. En ég spyr, skiptir einhverju máli hvað hann segir við fjölmiðla og hvað viljið þið að hann segji? Ég sé þessi tvö ummæli sem nákvæmlega það sem ég vill heyra. Ef við gerum mistök þá er það besta sem hægt er að gera úr því sem komið er að læra af þeim. Ef við erum ekki að spila nægilega vel er þá ekki það besta sem liðið getur gert að "step up" eða taka sig taki? Hvað vilja menn eiginlega að hann segji í fjölmiðlum? Á hann að væla eins og Wenger og Morinho? Á hann að segja að hann sjái engin vandamál og skilji því ekki spurninguna? Á hann að hella sér yfir leikmenn í fjölmiðlum í hvert skipti sem einhver á ekki stórleik? Ég vona að menn átti sig á því að það sem Jol segir í fjölmiðlum er ekki það sama og hann segir við leikmenn. Hann mætir ekki á fund með leikmönnum og segir "I thought we played well, but we have to learn from our mistakes" fundi slitið. Þannig að ég sé ekkert að þessum ummælum hans.

Hafið bara þetta í huga (stolið):
Veikleiki súperman er kriptonít. Martin Jol hlær að súperman fyrir að hafa veikleika.

2 ummæli:

Birgir sagði...

Skemmtilegur pistill ... hef einmitt hugsað mikið til hvernig Ferguson byrjaði feril sinn hjá United þegar fólk er að biðja um höfuð Jol á platta !!
Auðvitað á að gefa honum meiri tíma með liðið, eins og þú segir þá er hann að taka til og það þarf tíma til þess. Róm var ekki byggð á einum degi sagði spakur maður :)

Ég hef fullkomna trú á kallinum og vona að hann eigi eftir að koma okkur á stall með þeim bestu á komandi árum.
En auðvitað hafa verið lélegar, vafasamar ákvarðanir hjá honum eftir að hann kom ... vonandi á hann sjálfur eftir að læra af sínum misökum og verða betri stjóri fyrir vikið.

Spurs 4Ever

Sicknote sagði...

Það er málið Birgir. Við erum með 7 eða 8 leikmenn sem eru búnr að spila 15 leiki eða fleirri þetta tímabilið sem spiluðu lítið eða ekkert síðasta tímabil. Það liggur því í augum uppi að Jol er enn að finna réttu formúluna og mér finnst hann á hárréttri leið. Svo þegar við Jol er kominn með það lið sem hann ætlar sér hefur hann efni á að leyfa leikmönnum að þróast saman. Ég held að ástæða velgengni Man U. í ár meigi að miklu leiti þakka því að liðið er nánast óbreytt frá því í fyrra, ásamt því að hafa sloppið svona þokkalega frá meiðslum.

Nú hefur eins og þú segir Jol gert nokkur "mistök" sérstaklega í innáskiptingum og svoleiðis. En á sama tíma og mér finnst eðlilegt að gagnrýna það hef ég það líka á bakvið eyrað að ég sem stuðningsmaður er í mjög lélegri aðstöðu til að dæma um það. Nálægðin við leikmenn gerir það að verkum að Jol getur alltaf tekið upplýsta ákvörðun um innáskiptingar. Hann veit hvort maðurinn sem á að koma inná sé í nógu góðu líkamlegu og andlegu ástandi til að koma inná. Jol fær líka ráðleggingar frá sjúkraþjálfurum um heilsufar leikmanna. Þetta eru hlutir sem ég veit ekkert um. Þannig að á meðan ég spyr sjálfan mig af hverju Jol sé ekki löngu búinn að taka þennann mann útaf og setja hinn inná, getur verið að Jol viti eitthvað sem ég veit ekki. En mér finnst samt í góðu lagi að gagnrýna allt svona því annars verður umræðan ansi þunn.

Svo er kannki annað sem ég gleymdi í þessum skrifum. Það er þetta með að það sé hlutverk Jol að peppa upp mannskapinn fyrir leiki. Ég sé ekki að rausið í Jol myndi bjarga miklu. Ef að það myndast ekki stemming í hópnum þegar þú mætir á völl þar sem 30.000 áhorfendur hvetja þig til dáða og syngja um þig söngva, þá held ég að Jol geti lítið gert. Það eru áhorfendur sem mynda stemmingu en ekki þjálfari. Hvatning hans hefur auðvitað eitthvað að segja en mér finnst það ekki vera hlutverk hans að vera einhver klappstýra fyrir leikmenn. Fótbolti er ekki fiskvinnsla. Þú getur ekki bara mætt í vinnuna og beðið eftir að vinnutímanum ljúki. Þessir leikmenn fá ofurlaun fyrir að spila fótbolta á meðan tugir ef ekki hundruði þúsunda aðdáenda fylgjast með aðdáun með hverri hreyfingu þeirra. Það er ekki hægt að finna vinnu þar sem þú ert betur studdur en í fótbolta meðal þeirra bestu. Því finnst mér fáránlegt að klína lélegri stemmingu á Jol.

Það er kannski hægt að segja ef að það er ágreiningur milli leikmanna að það sé vandamál sem Jol þurfi að takast á við. En ef það væri málið held ég að Jol væri búinn að gera ráðstafanir til að leysa það fyrir löngu.

Ég held að vandamál Spurs í PL í vetur stafi af þessum ástæðum:

~Mikið breyttur hópur frá síðasta tímabili.

~Mikil meiðsli. Sérstkalega hjá lykilmönnum allt tímabilið.

~Ekki nógu breiður hópur.

~Mikið leikjaálag. Á morgunn verðum við búnir að spila jafn marga leiki og allt tímabilið í fyrra.

Það eru í raun margir samverkandi þættir sem gætu útskýrt lélega framistöðu í deildinni. En gleymum því ekki að við erum búnir að taka geypilegum framförum á öðrum sviðum. Tökum það góða með því slæma.