fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Arsenal 3 - Tottenham 1

Jæja nú er komið að því að standa við það sem ég lofaði í gær. Mér finnst alltaf gaman að vera með aðrar skoðanir en fjöldinn, en í fyrsta sinn get ég nánast staðhæft að hver einasti maður sem les þetta á eftir að vera mér ósammála. Þetta þýðir ekki að ég hafi myndað skoðun mína eftir að hafa verið búinn að kanna skoðanir allra hinna. Þetta er bara einlægt mat mitt á leiknum í gær. Þó svo að ég reyni að vera jákvæður var margt sem miður fór í gær og margt neikvætt hægt að segja um leikinn. Ég bara nenni ekki að spá í það, og þess vegna sleppi ég því að mestu.

Arsenal vann leikinn í gær því þeir eru með betra lið en Spurs. Það er leiðinlegt að þurfa að viðurkenna það en svona er þetta bara. Við söknuðum alltof margra lykilmanna í gær. Það er bara einfalt mál að þó Arsenal hafi ekki verið með alla sína bestu menn í gær er hópurinn það svakalega breiður hjá þeim að þeir finna lítið fyrir því. Ef að King, Lennon og Berbatov eru ekki með er það hinsvegar massíf blóðtaka fyrir okkur, og veikir liðið okkar gríðarlega.

Þó það sé sárt að tapa fyrir Arsenal vorum við þó ekki niðurlægðir á vellinum. Arsenal gat ekki unnið okkur á WHL og þeir þurftu framlengingu til að leggja okkur á heimavelli. Hvorki Everton né Liverpool geta státað af því í þessari keppni.

Baráttan.
Mér finnst svo svakalega skrítið að lesa það hvað allir eru óánægðir með baráttuna í þessum leik. Það er nánast hver einasti Tottenhammaður á Íslandi sem tekur það fram að það hafi ekki verið barátta í liðinu. Ég er svo yfir mig ánægður með hvað liðið barðist vel bróðurpart leiksins. Það er eiginlega það sem ég er hvað ánægðastur með í þessum leik.

Horfum aðeins á staðreyndirnar fyrir leik:
  • Við gátum ekki unnið Arsenal á WHL
  • Við höfum verið hörmulegir á útivöllum í vetur
  • Við töpuðum síðasta leik á Emirates mjög sannfærandi 3-0
  • Okkur vantaði lykilmenn í liðið
  • Arsenal hefur unnið alla sína leiki í þessari keppni á 90 mínútum nema síðasta leik.
  • Arsenal er sjóðandi heitt lið með sjálfstraustið heldur betur í lagi.
  • Við erum það ekki.
Þegar allt þetta er skoðað þá var það ljóst að við þurftum að berjast til síðasta blóðdropa til að eiga möguleika á jafntefli. Það er ekkert á þessu tímabili sem bendir til þess að við hefðum átt að fara ansi létt í gegnum þennann leik. Því verð ég að hrósa leikmönnum okkar fyrir fyrstu 90 mínúturnar. Leikmenn sýndu karakter og baráttu í stöðunni 1-0 og náðu að uppskera mark. Það sem gerðist í framlengingunni vill ég meina að hafi verið þreyta. Ég vill meina að okkar leikmenn hafi einfaldlega verið búnir á því framlengingunni. Ég bara trúi því ekki að nokkur leikmaður hafi verið tilbúinn að gefast upp eftir að hafa lagt svona mikið á sig í leiknum og verið komnir svo langt í keppninni. Mér finnst eins og margir séu að gleyma því að það voru tvö lið að spila leikinn. Það er ekki eins og við höfum verið eina liðið á vellinum sem vildi vinna leikinn.

Leikmenn.
Mér fannst þó nokkrir leikmenn standa sig ansi vel í gær. Það voru líka leikmenn sem áttu slakan dag. Defoe og Keane voru alls ekki að standa sig í gær. En þeir hljóta að vita það best sjálfir.
Ég ætla hinsvegar að gefa mér aðeins betri tíma í þá leikmenn sem voru að standa sig vel.

Chimbonda: Ef reiknað er út hvaða leikmaður hljóp mest í þessum leik held ég að Chimp. hafi verið efstur á blaði hjá okkar mönnum. Hann verður alla vega ekki sakaður um áhugaleysi af mér.

Dawson: Einn besti maður vallarins. Maður var bara sallarólegur þegar Arsenalmenn sendu háu boltana fram. Dawson átti þá alla með tölu. Held að þetta sé örugglega einn besti varnarmaðurinn í loftinu í dag.

Gardner: Ekki það að hann hafi verið neitt frábær. Ég á bara alltaf von á svo rosalega litlu frá honum en hann hefur þó skilað aðeins meira en ég bjóst við.

Ekotto: Frábær leikur, skilaði varnarvinnuni rosalega vel og virkaði öruggur. Ég ætla vona að áróður minn varðandi Ekotto hafi verið til þess að menn gáfu honum gaum í leiknum.

Zokora: Er líklega sá maður ásamt Chimb. sem var með hvað mestu yfirferð í leiknum. Hann var í þessum leik að vinna þá vinnu sem Carrick var að vinna í fyrra, þ.e að detta til baka og aðstoða vörnina og spila upp boltanum þegar við vinnum hann. Hann gerði líka það sem Carrick gerði ekki, það er að taka þátt í sóknarleiknum. Mjög gaman að sjá hann vera koma sterkann inn.

Auðvitað er sárt að detta út þegar við erum komnir svona langt í keppninni. En einhvernveginn get ég ekki fengið mig til að snúa baki við liðinu. Ég er ekki viss um að ég myndi nenna að standa í að fylgjast með boltanum ef ég gæti ekki séð neitt gott í því sem liðið er að gera. Ef að það er eitthvað sem maður hélt að stuðningsmenn Spurs gætu frekar en stuðningsmenn annara liða, væri það að geta stutt liðið jafnvel þegar illa gengur. Maður hélt eftir öll þessi ár sem menn hafa horft upp á liðið klúðra málunum á síðustu metrunum væru menn komnir með skráp gagnvart því. En það er nokkuð ljóst að velgengnin í fyrra hefur spillt ansi mörgum.

Ef að það er eitthvað jákvætt við leikinn í gær er það einna helst það að þetta var besta tímabil okkar í deildarbikarnum í 5 ár. Ég óska liðsmönnum og stuðningsmönnum til hamingju með þann árangur.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hárrétt kæri félagi ég er þér hjartanlega ósammála um bróðurpartinn af þessu. En ekki því að Arsenal er með betra lið en við.

Mér finnst þetta ansi þunnur þrettándi með það að okkar menn hafi verið þreyttir í framlengingunni. Bara léleg afsökun. Þegar farið er yfir liðið sjáum við að drjúgur hluti þeirra getur ekki verið að kvarta yfir þreytu. Ekotto, Gardner, Jenas(reyndar nýstiginn úr meiðslum), Zokora og Keane. Þetta eru allt leikmenn sem hafa ekki verið að spila mikið undanfarið.
Ef leikmennirnir voru að berjast svona vel þá eru þeir bara einfaldlega lélegir. Því öll þessi barátta sem þú talar um skilaði akkurat engu við vorum ekki að gera neitt í þessum leik. Þetta var bara spurning um tíma hvenær Arsenal myndi skora. Í rauninni þá finnst mér þetta vera skammarleg frammistaða.

Í sambandi við þessa leikmenn sem þér fannst standa sig vel þá verð ég að segja
Chimbonda: hann stóð sig vel og var okkar besti maður í gær að mínu mati.
Dawson: stóð sig ágætlega
Ekotto: þú hlýtur að vera grínast með hann, að hann hafi átt frábæran leik. Trekk í trekk var 17 ára unglingur á hágelgjunni að labba framhjá honum, það sem bjargaði því var hvað fyrirgjafirnar voru lélegar, hann hlýtur að hafa verið manna fegnastur þegar Walcott var skipt útaf.
Zokora: var ágætur ekkert spes, samt sem áður með hans skástu leikjum
Svo eru það tveir leikmenn sem mér væri alveg slétt sama þó væru seldir við fyrsta tækifæri það eru Galy og Keane. Galy er bara í ruglinu og Keane var það reyndar líka en hann gjörsamlega drepur niður hraðan í sókninni. Hann þarf alltaf að klappa boltanum of mikið og það er bara eitthvað sem maður með hans tækni eða öllu heldur tæknileysi ræður ekki við.

Ég er búinn að vera spursari í 30 plús ár. Á þessum árum hefur maður gengið í gegn um ýmislegt með liðinu og kemur til með að gera það áfram. Málið er bara það eru alltaf einhverjir sem maður er ósáttur við í liðinu. Það þýðir ekki að maður sé eitthvað minni spursari fyrir vikið.

Hverju er þessi besta frammistaða okkar í þessar keppni að skila okkur? Engu. Það eru lið úr fyrstu og annari sem koma upp annars lagið og standa sig vel í þessari keppni líka, eins og Wicombe, ertu að setja okkur á sama stall og þessi lið, skil ekki alveg hvað þú ert að fara með þessu eða sjá þessa ljósu punkta við þetta.

Sperran sagði...

Gott að vera jákvæður félagi! Þú talar um að það hafi vantað þarna nokkra af okkar bestu mönnum,gott og vel, en hefði það breytt nokkru? Með þjálfara sem virðist ekki vera mikill taktíker og getur að því virðist ekki mótíverað sína leikmenn? Veit þó að Berbi hefði getað gert gæfumun,kannski.Ég vil meina að ef allt væri eðlilegt, þá áttum við að slá Arse út.Það er bara enginn djörfung í Jol!Hann er enn í "We've got to learn"-pakkanum.Hafið þið tekið eftir einu? Við vinnum mjög sjaldan leiki sannfærandi,allavega í deildinni.Alltaf basl-leikir og erum að fá á okkur mörk á krítískum augnablikum eins og í blálokin á fyrri hálfleik og erum svo strögglandi alla seinni, annaðhvort að halda 3 stigum eða sleppa með jafntefli.Jol standandi á hliðarlínunni með krosslagðar hendur og skilur ekkert í neinu!Sorry, er bara orðinn létt pirraður á þessu, veit að við getum MIKIÐ betur.Annars: C.O.Y.S.!

Sicknote sagði...

Ossie.
Nú eyddi ég 90 mínútum í gærkvöldi í að horfa aftur á leikinn eftir að hafa lesið kommentið þitt. Ég var aðalega að horfa á Ekotto. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að svara þessari vitleysu því það er ekki með nokkru móti hægt að segja að Walcott hafi labbað yfir Ekotto. Þetta er ekki spurning um skoðanir heldur staðreyndir. Þér má hafa fundist Ekotto hafa verið lélegur í leiknum en staðreyndir eru staðreyndir. Ég nenni einfaldlega ekki að taka þátt í umræðum þar sem menn sniðganga staðreyndir til að geta hljómað enn neikvæðari, þess vegna er ég ekki að spjalla á spurs.is.

Sperran.
Eins og ég segi finnst mér margt neikvætt vera að gerast núna. En ég einfaldlega nenni ekki að velta mér upp úr því.

Fyrir leik eins og þennann þarf þjálfarinn ekkert að mótívera leikmenn. Leikmenn hafa lagt gríðarlega vinnu í að komast í þennann leik og vita að sigur í þessum leik þýðir að þeir fá að spila úrslitaleik um bikar. Ef að það mótíverar ekki menn, þá liggur vandamálið hjá leikmönnum en ekki þjálfaranum.

Ég held að fjarvera þessara leikmanna hafi mikil áhrif á getu liðsins. Við getum orðað þetta öðruvísi. Er getumunur á Gardner og King? Er getumunur á Ghaly og Lennon? Er getumunur á Keane og Berbatov? Ég held að ég þurfi ekki að svara þessu. Lennon hefði ekki síður en Berbatov geta breytt leiknum. Þessir þrír sem spiluðu sem staðgenglar þessara leikmanna eru töluvert frá því að vera í sama klassa.

Hvað fannst þér benda til þess að við hefðum átt að vinna þá? Ég taldi upp nokkrar ástæður fyrir því að það hefði verið allt annað en eftir bókinni.

Nafnlaus sagði...

Sorry félagi, gleymdi að hér er ég í happylandi þar sem allir eiga að svífa um á bleiku skýji. Hér virðist ekki mega tala um þá hluti sem þarf að laga, bara þá sem eru í lagi. Það þarf kannski ekki að laga neitt, þetta er allt svo frábært. Það sýnir þessi stórkostlegi árangur okkar í cc bikarnum. Gef lítið fyrir svona fyrirfram ákveðnar umræður um leiki sem menn virðast horfa á eins og dráttarklárar sem sjá ekki neitt misjafnt út undan sér.

Sicknote sagði...

Eins og ég sagði ossie er mér sama þó menn hafi aðrar skoðanir en ég. Menn meiga alveg segja að þeim hafi fundist allir leikmenn liðsins hafa spilað illa mín vegna. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þegar ég skrifa niður mína skoðun og veit á sama tíma að nánast allir aðrir eru á annari skoðun að ég fæ ekki miklar undirtektir. Enda er ég ekkert að agnúast yfir skoðunum þínum þó ég sé þeim ósammála. En þegar keppnin er orðin svo hörð um titilinn "svartsýnasti stuðningsmaðurinn" að menn eru farnir að hagræða staðreyndum til að geta látið ljós sitt skýna í þessari keppni (sagt í líkingamáli) er mér nóg boðið.

Hversu oft Walcott komst framhjá Ekotto eru ekki skoðanir. Það er tölfræði. Það er staðreynd að það skapaðist mjög sjaldan veruleg hætta af Walcott þegar Ekotto dekkaði hann.

Eins og ég segi finnst mér annað að hafa skoðun sem ég er algjörlega ósammála eða breyta staðreyndum eftir hentugleika. Þér má hafa fundist Ekotto hafa verið lélegasti maður vallarins. Það væri þá bara þín skoðun og þú hefðir rétt á að hafa hana. En staðreyndir eru ekki huglægt mat sem eru mismunandi milli manna. Staðreynd er staðreynd og ef menn eru ekki með staðreyndir á hreinu eiga þeir ekki að setja þær fram máli sínu til stuðnings. Þar skilur á milli málefnalegra og ómálefnalegra umræðna.

En ég skal greina varnarleik Ekotto eins og hann kom mér fyrir sjónir.

Ekotto var lítið í því að tækla Walcott. Walcott gat hangið á boltanum nánast eins og hann vildi. Ég sé það sem frábærann varnarleik hjá Ekotto. Hann var að spila þetta á skynseminni. Walcott er ágætur þannig séð með fínar fyrirgjafir (hann er með fleirri stoðsendingar en t.a.m Lennon). En Walcott hefur náð þessum árangri með "leynivopni" sínu. það sem Walcott reynir yðulega að gera er að hanga smá á boltanum og bíður efitr að varnarmaðurinn selji sig og þá nær hann að nýta hraðann sinn í að skjótast upp kanntinn og gefa fyrir áður en varnarmaðurinn nær honum. Ekotto vissi þetta og ákvað að falla ekki fyrir tálbeitunni. Í stað þess að mæta Walcott eða reyna að fara í tæklingu og selja sig ákvað hann þess í stað að fylgja honum og reyna að loka sendingaleiðunum. Þetta varð til þess að Walcott þurfti annaðhvort að reyna fyrirgjöf úr erfiðri stöðu eða gefa til baka. Þegar Walcott var skipt útaf fannst mér það vera vegna þess að Wenger sá að Ekotto var búinn að lesa hann og það var akkúrat ekkert að koma út úr vinstri vængnum.

Þetta er mín skoðun á varnarleik Ekotto. Svo ég segji þetta enn og aftur þá mátt þú vera algjörlega ósammála þessari greiningu og finnast varnarleikurinn afleitur, En staðreyndin er sú að Walcott fór EKKI trekk í trekk framhjá honum.

Birgir sagði...

Sicknote...
Það er í góðu lagi að vera bjartsýnn .. en passaðu þig bara að gleyma þér ekki í bjartsýnislandinu.
Ekkert er leiðinlegra en að vera bara bjartsýnn og hunsa staðreyndir !!! og at the moment, þá er rosalega lítið að gerast hjá Spurs til að vera bjartsýnn yfir... frekar leiðinlegt tímabil í gangi með miklum vonbrigðum og ekki nógu góðum árangri. Margir leikmenn að spilla illa og langt undir getu. En að vera bjartsýnn er líklega ein leið til að ignora staðreyndir ... Fyrsta skrefið er að játa vandamálið :)
Og Spurs á svo sannarlega við vandamál að stríða, og það stórt. Með þennan hóp, klassa mannskap og þennan árangur so far á þessu tímabili. Það er vandamál. Vandamál sem ég held að stjórinn eigi að leysa, en hann virðist ekki geta það. Held að það skipti engu máli hvað við kaupum marga leikmenn og hvað við eyðum miklum pening. Þetta er krónískt vandamál hjá Tottenham að leikmenn hafa ekki trú á því að Tottenham sé stór klúbbur !! Árangur Tottenham á þessu tímabili verður líklega svipaður og árangur Wigan á síðasta tímabili !!! ekki skemmtilegur samanburður þar.
En vonandi fer þetta eitthvað að batna, vonandi fara menn að berjast eins og sannir Spursarar, vonandi fara menn að leggja sig fram við að sigra leiki, vonandi á Tottenham eftir að klifra upp töfluna ... fullt of "vonandi" .
En þangað til ég sé eitthvað fara að lifna yfir þessu hjá liðinu, þá sé ekki akkúrat enga ástæðu til að sjá eitthvað jákvætt við klúbbinn að svo stöddu. En ég skal glaður endurskoða þetta þegar barátta, leikgleði, þorsti í sigur, betri árangur er að skila sér í hús. En þangað til verður maður reiður og svekktur Tottenham aðdáandi, en Tottenham aðdáandi verður maður alltaf, í gegnum súrt og sætt.
Spurs 4Ever
Birgir

Sicknote sagði...

Birgir:
Eins og ég hef nokkrum sinnum sagt áður er rosalega margt neikvætt að gerast í klúbbnum núna. Ég sjálfur er oft reiður og svona. En þó ástandið sé svart er engin ástæða til að horfa ekki líka á það sem þó er vel gert. Akkúrat núna er enginn að horfa á þessa litlu ljósu punkta sjást. Því hef ég einsett mér að reyna að benda á þá, því hvergi er hægt að lesa um þá annarstaðar.

Ef þú átt við að ég sé ekki að byrta raunsæja mynd af stöðu mála, skal ég vera 100% sammála þér. Ég er að byrta alltof jákvæða mynd af gangi mála og er eiginlega ekkert að vellta mér upp úr öllu því neikvæða sem er í gangi. Þannig að þið hittið naglann á höfuðið þegar þið talið um að ég sé í einhverju bjartsýnislandi. Ég er ekki að skrifa um allar þær staðreyndir sem sýna það neikvæða sem er í gangi. Ég er samt ekkert í því að breyta staðreyndum. Þetta er allt spurning um formerkin. Tökum dæmi:

Við erum búnir að spila 8 leiki í janúar. Við höfum aðeins tapað tveimur af þessum 8. Það er bara sæmilegt!

Þetta er rétt staðreynd og allt í lagi með hana. Hinsvegar má segja að hún byrti kolranga mynd af því sem er að gerast. Nú ætla ég að breyta formerkjunum og þá er þetta svona:

Við erum búnir að spila 8 leiki í janúar og við höfum aðeins unnið tvo af þessum 8 leikjum. Þessir tveir leikir sem við unnum eru gegn Cardiff (af því við erum ekki næginlega gott lið til að slá út Cardiff á útivelli og þurfum því að koma með þá heim til að klára þetta aulalið). Hinn leikurinn sem við unnum er gegn lélegasta liði fyrstudeildar.

Ég fer rétt með staðreyndir í báðum tilvikum en ég get byrt sæmilegustu mynd af stöðu mála með því að breyta formerkjunum eða byrt upp mjög slæma mynd af gangi mála.

Það byrtast þúsundir pistla og pósta á netinu um allt hið slæma sem er í gangi hjá Spurs. Það er hinsvegar enginn sem hefur fyrir því að minnast á ljósið í myrkrinu nema ég að mér virðist. Þess vegna einset ég mér það. Ég bara kann ekki þá tækni að peppa upp stuðningsmenn með röfli og bölvi.

Ég get ekki ýmindað mér að það sé gaman að horfa á leik og reyna að finna allt sem Spurs gerir illa. Þá einfaldlega myndi ég ekki nenna þessu. Þess vegna reyni ég að finna allt það góða sem er gert og minnist á það. Ég læt svo þessum þúsundum eftir að tönnlast á hinu neikvæða.

Mér hefur sýnst á öllu að þeir sem koma hingað inn séu flestir vel að sér um gang mála. Þess vegna finnst mér ég geta bent bara aðra hlið málsins því þeir sem koma hingað inn eru fullkunnugt um hina hlið málsins. Ég get því ekki séð það öðruvísi en svo að ég sé að gera umræðuna fjölbreyttari. Það þykir mér gott, og held einhvernveginn að mönnum líki það að lesa ekki alltaf bara um sömu hlutina... jafnvel þó þeir séu ekki sammála.

Birgir sagði...

Ég fíla það vel að koma á síðuna þína og taka þátt í skemmtilegum umræðum, og því meira sem menn eru ósammála, því betra.

Maður er alltaf bjartsýnn fyrir leiki .. og ég verð það líka á morgun gegn besta liði deildarinnar. En raunsær verður maður líka og miðað við gang mála hjá þessum liðum í dag, þá held ég að við komum ekki til með að uppskera neitt í þessum leik. En maður verður samt að halda í vonina...

Ef við töpum, þá vona ég að liðið komi alla vega til með að spila þokkalega vel. Ekkert er leiðinlegra en að horfa upp á liðið sitt spila eins og 6.flokks lið frá Raufarhöfn !!!

En eins og staðan er í dag ... þá held ég að þetta geti ekki farið á annan veg en upp á við.
Margir hafa haft það á orði að við ættum að skipta um þjálfara, þar er ég mjög ósammála, þó ég hafi stundum mínar efasemdir um hann. Læt hér fylgja nokkra punkta um árangur M.Jol með liðið síðan hann kom.
* Besti árangur í deild síðan tímabilið ´89-´90 ... 5 sætið í fyrra.
* Fyrsta skipti í 23. ár sem Tottenham kemst í Evrópukeppni í gegnum deildina... í fyrra
* Leiddi liðið til fyrsta sigurs Spurs gegn Chelsea í deildinni í 16.ár ... í ár
* Kom Tottenham í 32 liða úrslit í UEFA ( gæti verið 16 liða ) í fyrsta skipti í 14 ár.
* Besta run á heimavelli síðan ´92-´93 (sami árangur)... 6 sigurleikir í röð í deild á þessu tímabili.
* Besta run á heimavelli í öllum keppnum í hjartnær 25 ár... 11 sigurleikir í röð á heimavelli í öllum keppnum á þessu tímabili.

Þetta er nú ekki svo galið ...
Menn hefðu nú drepið mann og annan fyrir svona 4-5 árum fyrir að vera þar sem við erum núna. En betur má ef duga skal. :o)

BTW: Bið að heilsa í BJARTSÝNISLAND :o) hehe

Spurs 4Ever

Sicknote sagði...

Þarna þekki ég þig kallinn. Algjörlega sammála þér með Jol. Ef þú heldur svona áfram þarf ég bara að fara bjóða þig velkominn í "bjartsýnislandið" :)

Ef ég á að vera raunsær á leikinn á morgunn er ég ansi hræddur um að Man U eigi ekki efir að leyfa okkur að spila vel. En ég vill ekki vera raunsær á eitthvað sem hefur ekki gerst og því munum við ná að standa vel í þessum djöflum og spila vel. Allavega betur en krakkarnir á Raufarhöfn með fullri virðingu fyrir þeim.