sunnudagur, janúar 14, 2007

Tottenham 2 - Newcastle 3

Úff ég veit ekkert hvernig mér á að líða, hvað þá heldur hvað ég eigi að skrifa.

Við vorum klárlega betri aðilinn í leiknum og okkar menn mættu heldur betur til leiksins með rétt hugarfar. Mér fannst við vinna nánast hverja einustu tæklingu og leikmenn voru svo sannarlega að spila til sigurs. Nema kannski vörnin. Ég held reyndar að það hafi ekkert með hugarfar að gera eða neitt þannig. Eins og ég kom inná í upphituninni grunaði mig að vörnin myndi ekki halda. Í fjarveru King hefur vörnin verið ansi ótraust. Þó einstaklingarnir spili ágætlega spilar vörnin ekki sem heild.

Svo verð ég nú bara að fá útrás fyrir eitt atriði hérna. HVERSU LÉLEGUR TELUR JOL EKOTTO VERA???? Mér finnst það svo svakalega fáránlegt að hann skuli ekki vilja spila með vinstri bakvörð að það nær engri átt. Þó Lee hafi verið stillt upp sem bakverði á skjánum fyrir leik spilaði hann sem vinstri vængmaður. Ég veit vel að bakverðir hafa það hlutverk að hlaupa upp kanntana þegar við erum í sókn, en það er ekki það sem ég er að meina. Þegar Newcastle var í sókn var hann að reyna verjast henni á miðlínunni eða á þeirra vallarhelmingi og svo hljóp hann á eftir mönnum. Það er þannig sem vængmenn spila en ekki bakverðir. Svo þegar Lee fékk bolltann fórnaði hann oftar en ekki höndum eins og hann væri að segja "ætlar enginn að koma að sækja boltann" svo gaf hann boltann til baka. Það er auðvitað fásinna að láta Lee spila sem vængmann þar sem líklega innan við 1% fyrirgjafa hans rata á samherja. Sko Lee er langt því frá lélegur leikmaður. Hann hefur hinsvegar ekki verið að finna sig undanfarið og því furðulegt að Jol telji Lee í lægð betri en Ekotto. Ég er heldur ekki að kenna Lee um hvernig fór. Ég varð bara að koma þessu frá mér. Ég hef verið að spái í hvort Ekotto og Jol hafi nokkuð lennt saman, það er í raun eina rökrétta skýringin sem ég sé á fjarveru Ekotto.

Eflaust eru menn á spursspjallinu að rasa út um hversu lélegur Robbo er og allt það. Mér fannst hann samt ekki vera ábyrgur fyrir neinu markana. Ég get þó viðurkennt það að Robbo í sínu besta formi á það til að verja skot sem eru "óverjandi". Þess vegna get ég tekið undir það að hann er ekki að spila sitt besta tímabil sem komið er, en ég styð hann heilshugar í markinu og bið bara til guðs að hann komist í sitt besta form sem fyrst. Hann er þó langt því frá í mínum huga búinn að vera skelfilegur þetta tímabil. Hann er kannski á einum yfir pari eins og golfararnir segja.

En ég er allavega svolítið svekktur að hafa tapað þessum leik. Það er sárt að uppskera ekki því sem maður sáir. Ef að fótboltinn væri sanngjarn hefðum við unnið leikinn, en því miður getur allt gerst í fótbolta. Þessi leikur hlýtur að verða til þess að þeir mæti brjálaðir á næsta leik gegn Cardiff og skili sigri til okkar stuðningsmannanna á heimavelli.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Með ólíkindum að við skildum hafa tapað þessu í dag.
Margt gott samt við leikinn í dag... held að þetta hafi verið einhver best spilaði leikurinn af hálfu Spurs á heildina litið á tímabilinu. Vorum að yfirspila og leika okkur að liði Newcastle á stórum köflum í leiknum. Fengum fullt af færum ... vorum klaufar og óheppnir að nýta ekki fleiri. En þegar upp var staðið skoruðum við bara 2 mörk, en fengum á okkur 3 !!! eins ósanngjarnt og það var.
Alveg rétt hjá þér ... verið að grilla Robbo á spursspjallinu, frekar barnalegt !!! verið að kenna honum um mark nr. 1 !! come on .... sumir gengu svo langt að segja það sjálfsmark hjá Robbo. Eina sem ég hef út á Robbo að setja í þessum leik er kannski mark nr. 3. Hefði viljað sjá hann nota fæturna til að loka á fjærhornið í stað þess að reyna að kasta sér niður. En kannski var hann bara akkúrat í fótahreyfingu þegar skotið reif af .. maður veit ekki.
Annars heilt á litið var ég bara mjög ánægður með þennan leik í dag ( fyrir utan auðvitað úrslitin ) .. margt jákvætt í þessum leik, miklu fleiri jákvæðir punktar en neikvæðir...
Sammála þér að Spurs mæta brjálaðir í leikinn gegn Cardiff .. og rúlla þeim upp.
En við þurfum að fá KÓNGINN tilbaka. Leiðtogann í vörnina, leiðtogann í liðið .. held að hann sé mun mikilvægari en menn ætla.

Nafnlaus sagði...

gleymdi ad skrifa undir commentid mitt ... her ad ofan
kv. Birgir

Sicknote sagði...

Allt satt og rétt. Sem stuðningsmaður finnst mér mikilvægt að horfa á það sem vel fór og kannski benda á það sem betur mætti fara líka. Mér finnst alltaf jafn leiðinlegt að menn sem styðja sitt lið eru alltaf tilbúinir að rakka síma menn niður og finna liðinu allt til foráttu. Vissulega er það leiðinlegt að tapa, en það batnar ekkert með að ata sitt eigið lið sem maður elskar skít og drullu.

Nafnlaus sagði...

Sko get alveg verið sammála því að þetta var virkilega óverðskuldað tap. Miðað við hvernig leikurinn spilaðist og öll tölfræði úr leiknum gefur til kynna þá hefðum við átt að vinna leikinn nokkuð auðveldlega. Frekar en að fara rakka einhvern niður eftir þennann leik og kenna um tapið þá vill ég velta því upp að það hlýtur að vera eitthvað að hjá okkur með það að ná ekki klára svona leiki. Við hreinlega eigum leikinn með húð og hári en getum ekki notfært okkur það. Ég vil meina að þetta sé vandamál sem Jol þurfi að fara taka á sem allra fyrst ásamt því að fara vinna eins og einn og einn útileik. Hvað eru það ekki margir leikirnir sem við höfum náð að gera spennandi fyrir eigin aulaskap frekar en getu andstæðinganna. Staðan er orðin þannig að nú eru 10 stig í fjórða sætið og 3 lið á milli. Ég veit að það er fullt af leikjum eftir og nóg af stigum í pottinum, get bara ekki að því gert að ég er orðinn ansi svartsýnn á að ná þessu fjórða sæti.
Það sem ég vill sjá að gerist hjá okkur og það helst núna í þessum félagskiptaglugga, ef ekki núna þá strax í sumar. Ég vill fá nýja menn í þrjár stöður, nýjan markmann, nýjan vinstri bakvörð, og nýjan mann á miðjuna sem leikstjórnanda. Jú jú ég er einn af þeim sem finnst Robinson einfaldlega ekki nógu góður og hef verið að benda á það síðan í fyrra. Ég er þér algerlega ósammála um getu Ekotto, finnst hann ekki góður varnarlega, hvort sem hann er svo eitthvað verri en Lee er allt annað mál. Varðandi miðjumanninn þá höfum við Huddelstone en hann er nú bara 20 unglingur og hann á eftir verða þessi leiðtogi hef fulla trú á því. Í dag er hann ennþá of brothættur.

Sicknote sagði...

Ossie:
Það er mitt mat að við náðum ekki að klára leikinn vegna varnarinnar. Það var ekkert að hugarfari, baráttu eða neitt slíkt hjá leikmönnum. Við sjáum það bara hvað King er gríðarlega mikilvægur þessu liði. Það sem gerir hann svona mikilvægann er ekki aðeins getan heldur að við eigum engann varamann fyrir hann. Eins og ég reifaði einhverntíma er Davenport varamaður Dawson en ekki King. Daws og Davenport eru fínir saman þegar það kemur hár bolti inn í teig, en ef andstæðingurinn er með boltann í fótunum eru þeir að nýta sér veikleika þeirra beggja. King er hinsvegar með mjög góða fótavinnu og hefur hraðann sem Daws og Davenport hafa ekki. Enda sá maður engin hættuleg skallafæri hjá Newcastle.

Sökum þess hversu lítinn hraða og lélega fótavinnu þessir tveir menn hafa var algjört must að bakverðirnir myndu aðstoða þá vel í leiknum og vega vankannta þeirra upp. THUDD gat ekki séð um að hjálpa þeim neitt með hraðann. En bakverðirnir voru bara alltof framarlega í þessum leik og því var vörnin í raun bara hávörn ef maður tekur sér handboltafrasa í munn.

Ég skil vel að þú sést orðinn svolítið svartsýnn ef þú villt fjórða sætið. Í mínum huga hefur það aðeins verið í draumaheimi sem ég hef viljað fjórða sætið. Það væri auðvitað geðveikt en ég geri það alls ekkert að neinni lágmarkskröfu. En það er samt krafa eins og þú segir að liðið fari að taka sig smá tak á útvöllum í deildinni.

Með markmanninn. Nú vorum við að kaupa markmann, sem er reyndar mjög ungur. Það er spurning hvort hann sé tilbúinn til að spila eitthvað? Annars er ég hálfpartinn farinn að vonast eftir að Robbo verði settur á bekkinn í nokkra leiki, bara til að fá smá hvíld á þessari Robbo umræðu, hún er löngu farin úr böndunum.

Með vinstri bakvörðinn. Ég er reyndar farinn að fá smá bakþanka yfir áróðri mínum með Ekotto. Hann er búinn að vera ansi lengi úr hópnum og er eflaust kominn úr leikæfingu. Sem verður þá til þess að hann þurfi nokkra leiki til að finna leikformið og ég fái að heyra það í þessum leikjum hvað þetta er nú lélegur leikmaður. En hvað sem því líður er þetta að mínu mati góður leikmaður hvað sem öðrum kann að finnast.

En sú staða sem mér finnst vanta mest í er varamaður fyrir King. Dawson er með Gardner og Davenport sem geta coverað hann ef hann meiðist, en okkur vantar backup sem er með hraða og góða fótavinnu í miðvörðinn sem getur komið í stað King.

Svona leiðtogar eins og þú talar um held ég að sé bara þróun en ekki endilega eitthvað sem maður kaupir. Ég held að þú vinnir þér inn ákveðna virðingu í liðinu með því að spila vel og leggja þig allann í leikinn. Þannig verður þú leiðtogi liðsins. Horfðu bara á leikmenn eins og Gerard, Lampart, Makelele, Henry og fleirri þetta eru ekki menn sem komu til liðana í gær. Viera skilst mér vera núna loks að verða leiðtoginn í Juve og ekki er Ballack enn neinn leiðtogi í Chelsea og ekki náði Davids að verða neinn leiðtogi þó hann væri góð fyrirmynd á vellinum með baráttu sinni. Allavega fannst mér ég sjá það of oft í fyrra að Davids barðist eins og ljón en leikmennirnir í kringum hann héldu sínum hraða. Hefði han verið yngri og spilað þetta tímabil hefði hann eflaust orðið leiðtoginn okkar. Zokora var keyptur með því hugarfari að hann yrði okkar leiðtogi en hann hefur enn ekki náð því. Þannig að ég held að leiðtogahæfileikarnir séu áunnin virðing samherjanna en ekki verðmiði eða nafn.

Nafnlaus sagði...

Eitt sem mig langar að spyrja þá um hvað er eiginlega að King. Er þetta alltaf sömu meiðslin eða eru þetta alltaf ný meiðsli? Hef nú ekkert verið að fylgjast nákvæmlega hvað er að drengnum. Var ekki tímabilið í fyrra líka svona hjá honum, man ekki alveg en eins og mig minni það. Þá langar mig að velta einu upp, hvort það væri bara ekki best að selja manninn þar sem hann virðist vera meira meiddur en með. Hversu mikilvægur sem hann er fyrir liðið þá gerir hann lítið gagn þegar hann er meiddur. Það mætti ábyggilega fá ágætis summu fyrir hann. Sem svo hægt væri að nýta í að kaupa einmitt þennan leiðtoga. Þetta eru nú bara svona vangaveltur og pælingar. Annars þetta með leiðtogann þá held ég nú að sumu leyti þá sé þetta eitthvað meðfætt, sumir verða einfaldlega aldrei leiðtogar sama hversu vel þeir spila þó það vissulega hjálpi, hafa einfaldlega ekki skapgerðina í það. Leiðtoginn þarf ekkert endilega að vera besti spilarinn í liðinu heldur hefur hann eitthvað sem hrýfur hina með sér og það held ég að sé í flestum tilfellum meðfæddur hæfileiki.
Varðandi fjórða sætið þá vill maður bara gera betur en í fyrra það er allt og sumt. Að vissu leyti erum við samt búnir að gera betur en í fyrra samanber bikarkeppnirnar báðar.
Í sambandi við Robinson þá held ég að hann hefði einmitt gott af því að verða settur á bekkinn. Kannski er bara ekki nægilega mikil samkeppni um markmannsstöðuna í liðinu.

Sicknote sagði...

Ossie: Jú King var missti af þriðjungi tímabilsins í fyrra vegna meiðsla og ekki virðist þetta tímabil ætla að verða skárra. Ég held að það sé kannski ekki málið að selja King strax. Dawson gegg í gegnum mikla meiðsla hrinu í 1 og 1/2 ár á meðan hann var hjá Forrest. Þeir vildu glaðir losna við meiðslahrúguna. Ég vill ekki að við gerum sömu mistök og þeir. Kannski er King bara að taka út svona tímabil á ferlinum sem einkennist af meiðslum og svo er það bara búið. Heldur vill ég sjá gott backup fyrir hann á meðan hann er svona brothættur.

Það sem ég var að meina með leiðtogann var ekki að allir sem spila vel eru leiðtogar, heldur frekar að þeir sem eru ekki að spila vel eru lélegir leiðtogar. Leiðtogar eru leiðtogar af því að samherjarnir líta upp til þeirra á vellinum. Til þess að leikmenn líti upp til einhvers þarf hann að vinna sér inn þessa virðingu á vellinum. Það er mjög fátítt að samherjarnir líti upp til leikmanns sem er ekki góður leikmaður. Þetta er ekki það eina sem þarf heldur þarf þessi leikmaður að vera drýfandi og hvetjandi fyrir samherjana. Með virðingu og þess háttar karakter verða leikmenn að leiðtogum.

Við skulum sjá til hvort við fáum ekki að sjá Robbo hvíla í kvöld.