Nafn: Sevilla FC
Borg: Sevilla, Andalucia
Gælunafn: Rojiblancos (Rauðu og hvítu)
Stofnað: 1905
Heimavöllur: Estadio Ramón Sánchez Pizjuán (45.511)
Þjálfari: Juande Ramos
Nágrannarígur: Sevilla - Real Betis
Um Sevilla.
Sevilla er höfuðborg Andaluciu sem er fjölmennasta hérað Spánar (Spáni er skipt upp í 17 héröð). Sevilla var stofnað árið 1905, en árið 1909 kom upp ósætti í stjórn félagsins og það klofnaði. Nokkrir úr stjórn félagsins sögðu skilið við Sevilla og stofnuðu annað lið... Real Betis. Nágrannarígurinn milli þessara tveggja liða þykir einn sá harðasti á Spáni. Fyrir stuttu gerðist atvik sem flestir muna eftir þegar stuðningsmenn Betis gengu af göflunum í leik liðanna í bikarkeppninni og rotaðist þar þjálfari Sevilla eftir að flösku hafði verið kastað í höfuð hans af áhorfanda Betis. Áhorfendur liðsins kalla sig "biris".
Fyrir þetta tímabil státaði Sevilla af mögnuðum árangri. Af 27 leikjum sem þeir höfðu spilað á heimavelli við lið utan Spánar höfðu þeir ekki tapað einum einasta leik. Í leik gegn AZ Alkmaar á heimavelli þann 14 des. síðastliðin tókst Shota Arveladze leikmanni AZ að tryggja þeim sigur með því að skora bæði mörk AZ í 1-2 sigri á Sevilla fyrst allra erlendra liða.
Sevilla er ansi merkilegt félag að því leitinu til að það er ekkert eignarhaldsfélag um liðið. Sala hlutabréfa í liðinu var gefin frjáls og því eru það mest megnis aðdáendur liðsins sem eiga liðið. Stærstu hluthafarnir eru svo stjórnarformenn liðsins.
Sevilla í dag
Sevilla er í dag eitt af toppliðunum evrópu leyfi ég mér að fullyrða. Sumir vilja jafnvel meina að þeir séu að spila best allra liða í spænsku deildinni, en þeir eru í öðru sæti fast á hæla Barca. Þeir hafa sýnt það í fyrra og nú í ár að þeir eru verðugir andstæðingar hvaða liðs sem er í evrópu. Leikmannahópur liðsins er gríðarlega sterkur. Eins og hver einasti Spursari veit spilar Fredi Kanoute fyrrum leikmaður Spurs með liði Sevilla þó svo að hann hafi ekki verið neinn yfirburðamaður á Englandi er hann það nú á Spáni. Það er nokkuð ljóst að leikstíllinn á Spáni hentar honum best. Hann var í fyrra og er nú þeirra helsti markaskorari. Hann hefur skorað 19 mörk í 26 leikjum í deildinni sem er stórkostlegur árangur.
Aðrir leikmenn sem menn annaðhvort ættu að þekkja eða ættu að taka eftir eru t.d varnarmaðurinn Javi Navarro sem er spænskur landsliðsmaður (þó ekki fastamaður í byrjunarliði). Brasilíski hægri bakvörðurinn Daniel Alves þykir einnig mjög góður. Barcelona hefur þennann mann á óskalistanum sínum, og líklegt að þeir nái að kaupa hann í sumar þrátt fyrir himinháan verðmiða. Danski miðjumaðurinn Cristian Poulsen spilar einnig með Sevilla og er þar fastamaður. Annar miðjumaður að nafni Jesus Navas hefur verið undir smásjá stórliðana í nokkurn tíma og reyndi m.a Arsenal að krækja í pillt í janúar. Arsenal reyndi einnig að krækja í miðjumann að nafni Antonio Puerta en áhugi frá Real Madrid, Man U og fleirri hækkaði verðmiðann ansi mikið og urðu þau því frá að hverfa. Eitt er víst að hann mun fá nokkur tilboð í sumar. Framherjinn Javier Chevanton er kannski ekki eitt af þekktari nöfnunum í Sevilla en mér finnst rétt að nefna hann af þeirri ástæðu að hann hefur skorað 4 mörk í 3 leikjum í Uefa. Annars fær hann lítið að spila, hefur aðeins spilað 3 leiki í deildinni. Þekktasta nafnið ásamt Kanouté hlýtur þó að vera brasilíski framherjinn Luis Fabiano, landsliðsmaður Brassa. Hann er næst markahæsti maður liðsins og þykja hann og Fredi mynda gríðarlega sterkt framherjapar.
Leikurinn
Það er nokkuð ljóst að bæði lið bera mikla virðingu fyrir hvort öðru. Leikmenn Sevilla keppast við að koma fram í fjölmiðlum til að mæra Spurs og leikmenn liðsins og telja okkur sigurstranglegri aðilann. Leikmenn Spurs hafa hinsvegar verið duglegir við að lýsa aðdáun sinni á Kanouté, og þar fram eftir götunum. Auðvitað er þetta líka sálfræði. Þjálfari Sevilla hefur séð sig knúinn til að hvetja áhorfendur til að mæta á völlinn sem að öllu jöfnu er þétt setinn. Skírdagur er nefninlega stærri hátíðisdagur þar í landi en hér, og því búist við að það hafi áhrif á aðsókn á leikinn.
Þetta verður mjög athyglisverður leikur. Ensk lið hafa oftar en ekki staðið sig vel á móti þeim spænsku en þetta er öðruvísi. Ensku liðin hafa yfirleitt komist áfram á mjög góðri vörn en við erum eiginlega ekki týpískt enskt lið. Það er því áhugavert að sjá hvernig leikaðferð okkar manna verður. Okkar menn vilja auðvitað helst pressa framarlega á vellinum. Það getur þó verið ansi hættulegt á móti liði eins og Sevilla á útivelli. Við gætum auðvitað legið aðeins til baka og treyst á skyndisóknir. En ég held að á móti góðum sóknarliðum sé það ekki vænlegt til árangurs. Ég held því að leikurinn muni fara af stað með þreyfingum en við munum svo stjórna leiknum.
Liðið
-----------------------Robbo------------------
Stalteri-----Chimb.--------Daws-------Lee
Lennon----Jenas----------Zokora-----Tainio
-------------Keane---------Berbatov----------
King, THUDD, Gardner, Ekotto og Murphy eru meiddir og Rocha er ekki löglegur í Uefa. Ef eitthvað breytist verður það líklega að Tainio detti út. Ég vill samt hafa hann þarna þar sem skarð er hoggið í vörn okkar með fjarveru Gardners og Rocha. Ég á ekki von á að Jol hvíli neina leikmenn fyrir Chelsea leikinn á laugardaginn. Jol leggur ofuráherslu á Uefa. Við erum ekki með það breiðann hóp að við getum leyft okkur að hvíla menn án þess að veikja liðið.
Ég ætla að spá leiknum 1-3. Það er gríðarleg bjartsýni því í raun ætti það að vera ásættanlegt að gera jafntefli eða jafnvel að tapa leiknum 3-2. En ég hef bara þessa tilfinningu fyrir leiknum.
Coys!
1 ummæli:
Flott upphitun. Það verður spennandi að sjá hvernig Jol bregst við Daniel Alves. Hann er mjög sókndjarfur, þannig að hugsanlega væri snjallt að hafa Tainio þarna til að hjálpa Lee. Spurning hvort hann reyni að nýta sér plássið sem gæti skapast fyrir aftan hann. Ég held síðan að lykilinn að varnarleiknum sé sá að Zokora skýli vörninni vel og eigi stórleik.
Hvenær spiluðu Spurs síðast í áttaliðaúrslitum Evrópukeppni?
Þetta verður mjög spennandi.
Skrifa ummæli