laugardagur, apríl 21, 2007
Tottenham 2 - Arsenal 2
Íslenskir Spursáhangendur sem fóru á völlinn geta glaðst yfir úrslitum leiksins þó þetta sé ekki það sem menn vonuðust eftir. Við getum allavega glaðst yfir því að við stálum sigrinum af Arsenal. Þetta geta varla talist sanngjörn úrslit. Arsenal réð ferðinni nánast allann leikinn. Það skiptir svo sem engu máli, það sem skiptir máli eru úrslit leiksins. Annars lítið annað um leikinn að segja. Enginn leikmaður spilaði hörmulega og enginn að skara framúr í liðinu. Rocha kom mér svona helst á óvart. Átti svona von á að hann ætti erfitt með að spila vinstri bakvörðinn en hann var þó sæmilegur. Robbie Keane var frábær framan af en greinilegt þegar líða tók á leikinn að hann væri ekki í 100% formi, enda var jafnvel ekki búist við að hann yrði leikfær í dag.
Við erum enn í góðri stöðu til að ná 7. sæti sem er klárlega markmið liðsins. Við erum tæknilega líka með í baráttunni um meistaradeildarsætið þó það sé svona frekar langsótt.
Undanfarnir leikir valda mér samt smá hugarangri. Eftir að hafa rifið okkur all svakalega úr lægðinni í febrúar (unnum 7 af 8 leikjum okkar) höfum við aðeins verið að dala. Orðspor Spurs um að klúðra alltaf málunum undir lok tímabilsins er réttlætanlegt. Nú höfum við aðeins sigrað einn leik af síðustu 7. Ég vill ekki ganga svo langt að segja að við séum dottnir aftur niður í lægð, því við höfum verið að spila ágætlega og verið í nokkrum meiðslavandræðum og andstæðingarnir verið heilt yfir sterkir. En þetta er vissulega eitthvað sem leikmenn og þjálfari þurfa að hugsa um.
Ég bið enn og aftur afsökunar á litlum afköstum hérna. Ég er að fara kaupa íbúð á næstunni og er að vinna eins og skeppna. Ég reyni enn að horfa á leiki og fylgjast með fréttum um Spurs og ætla mér að taka góða törn í skrifum áður en tímabilinu líkur.
föstudagur, apríl 13, 2007
Evrópudraumurinn á enda.
Leikurinn
Leikmenn Sevilla munu seint hljóta virðingu í mínum augum. Enginn leikmaður þeirra á skilið að vera kallaður fótboltaleikmaður heldur fótboltaleikarar. Þeir spiluðu óheiðarlega og komust upp með það þökk sé lélegum dómurum frá smáríkjum Lúxenburg og Austurríkis. Í leiknum í gær komst t.a.m Navarro upp með að gefa Berbatov á kjaftinn. Poulsen sparkar í höfuð Jenas. Kanoute hendir sér í jörðina að tilefnislausu þar sem hann hélt að Dawson væri á leiðinni í skallaboltann. Hægri bakvörður þeirra virtist líða vítiskvalir við minnstu snertingu og engdist um í grasinu og skokkaði svo stálsleginn í burtu eftir að sjúkraliðarnir höfðu gefið honum vatn að drekka.
Já þetta var ömurleg "spilamennska" hjá Sevilla. En það er ekki heiðarleiki sem kemur félögunum í næstu umferð, því miður. En árangur okkar er þrátt fyrir tapið frábær. Það eru líklega tugir ára síðan við náðum svona langt í evrópukeppni. Það er svo sannarlega hægt að byggja þessum árangri, og í dag eftir að vonbrigðin hafa runnið af manni er maður bara þakklátur því að hafa fengið að horfa á Tottenham ná langt í evrópukeppninni. Óska ég því þar með öllum spursurum til hamingju með glæsilegan árangur.
ps.
Það er ansi mikið að gerast hjá mér þessa daganna og lítill tími til að skrifa. Reyni samt eftir fremsta megni að koma með einn og einn pistil.
mánudagur, apríl 09, 2007
Samantekt undanfarna daga.
Leikurinn við Chelsea var þó annað mál. Ég er búinn að vellta því fyrir mér hvort úrslitin hafi verið slæm eða ekki. Auðvitað er tap alltaf slæm úrslit í deildinni en ef tekið er mið af aðstæðum er hægt að færa rök fyrir því að 1-0 tap á heimavelli englandsmeistaranna sé ekki svo slæmt. Þá er ég að taka inn í reikninginn að við hvíldum nokkra lykilleikmenn og spiluðum nokkrum örþreyttum leikmönnum og vorum í meiðslavandræðum. Kannski hefði verið eðlilegt að búast við stórtapi og þar af leiðandi hægt að segja að úrslitin hafi verið eins góð og maður þorði að vona.
Að öðru. Nú virðist allt stefna í að L.King sé að verða leikfær. Þvílíkur léttir svona á lokasprettinum. Það væri auðvitað geðveikt ef hann næði að spila kannski 3-5 leiki áður en hann meiðist á ný. Hver einasti leikur sem hann spilar er gulls í gildi fyrir okkur. Hann er jú enn kóngurinn.
Svo finnst mér svolítið magnað að lesa spjallsvæði Spurs. Það eru einhverjar svaka umræður um hvort hægt sé að kalla Ziegler til baka úr láni þar sem Lee er meiddur? Hvað er það? Til hvers? Fyrir það fyrsta eigum við tvo leikmenn í varaliðinu sem eru skárri en Ziegler. So why? Ekotto á að koma aftur ef allt gengur vel í leikinn gegn Wigan og Murphy á að vera leikfær eftir tvær vikur. Ziegler yrði ekki gjaldgengur í leikinn geng Sevilla. Er þá verið að vellta því fyrir sér að hafa Ziegler sem 3-4 kost í vinstri bakvörðinn? Eða er þetta bara gamla tröllatrúin á Ziegler? Ég hef kannski séð svona 8-10 leiki með Ziegler. Ég samt eftir að sjá leik þar sem hann spilar vel eða ásættanlega. Mér finnst eiginlega honum best lýst sem efni í að vera efnilegur leikmaður, ekkert meira en það.
Kannski er þetta bara stimpillinn sem menn eru búnir að stimpla Ekotto með, að hann sé rosalega slæmur leikmaður. Það er auðvitað bara matsatriði en mér þykir Ekotto samt sem áður vanmetnasti leikmaður Spurs nú þegar menn eru búnir að taka Zokora í sátt. Hann er allavega að mínu mati besti vinstri bakvörðurinn okkar í dag.
miðvikudagur, apríl 04, 2007
Sevilla - Tottenham
Nafn: Sevilla FC
Borg: Sevilla, Andalucia
Gælunafn: Rojiblancos (Rauðu og hvítu)
Stofnað: 1905
Heimavöllur: Estadio Ramón Sánchez Pizjuán (45.511)
Þjálfari: Juande Ramos
Nágrannarígur: Sevilla - Real Betis
Um Sevilla.
Sevilla er höfuðborg Andaluciu sem er fjölmennasta hérað Spánar (Spáni er skipt upp í 17 héröð). Sevilla var stofnað árið 1905, en árið 1909 kom upp ósætti í stjórn félagsins og það klofnaði. Nokkrir úr stjórn félagsins sögðu skilið við Sevilla og stofnuðu annað lið... Real Betis. Nágrannarígurinn milli þessara tveggja liða þykir einn sá harðasti á Spáni. Fyrir stuttu gerðist atvik sem flestir muna eftir þegar stuðningsmenn Betis gengu af göflunum í leik liðanna í bikarkeppninni og rotaðist þar þjálfari Sevilla eftir að flösku hafði verið kastað í höfuð hans af áhorfanda Betis. Áhorfendur liðsins kalla sig "biris".
Fyrir þetta tímabil státaði Sevilla af mögnuðum árangri. Af 27 leikjum sem þeir höfðu spilað á heimavelli við lið utan Spánar höfðu þeir ekki tapað einum einasta leik. Í leik gegn AZ Alkmaar á heimavelli þann 14 des. síðastliðin tókst Shota Arveladze leikmanni AZ að tryggja þeim sigur með því að skora bæði mörk AZ í 1-2 sigri á Sevilla fyrst allra erlendra liða.
Sevilla er ansi merkilegt félag að því leitinu til að það er ekkert eignarhaldsfélag um liðið. Sala hlutabréfa í liðinu var gefin frjáls og því eru það mest megnis aðdáendur liðsins sem eiga liðið. Stærstu hluthafarnir eru svo stjórnarformenn liðsins.
Sevilla í dag
Sevilla er í dag eitt af toppliðunum evrópu leyfi ég mér að fullyrða. Sumir vilja jafnvel meina að þeir séu að spila best allra liða í spænsku deildinni, en þeir eru í öðru sæti fast á hæla Barca. Þeir hafa sýnt það í fyrra og nú í ár að þeir eru verðugir andstæðingar hvaða liðs sem er í evrópu. Leikmannahópur liðsins er gríðarlega sterkur. Eins og hver einasti Spursari veit spilar Fredi Kanoute fyrrum leikmaður Spurs með liði Sevilla þó svo að hann hafi ekki verið neinn yfirburðamaður á Englandi er hann það nú á Spáni. Það er nokkuð ljóst að leikstíllinn á Spáni hentar honum best. Hann var í fyrra og er nú þeirra helsti markaskorari. Hann hefur skorað 19 mörk í 26 leikjum í deildinni sem er stórkostlegur árangur.
Aðrir leikmenn sem menn annaðhvort ættu að þekkja eða ættu að taka eftir eru t.d varnarmaðurinn Javi Navarro sem er spænskur landsliðsmaður (þó ekki fastamaður í byrjunarliði). Brasilíski hægri bakvörðurinn Daniel Alves þykir einnig mjög góður. Barcelona hefur þennann mann á óskalistanum sínum, og líklegt að þeir nái að kaupa hann í sumar þrátt fyrir himinháan verðmiða. Danski miðjumaðurinn Cristian Poulsen spilar einnig með Sevilla og er þar fastamaður. Annar miðjumaður að nafni Jesus Navas hefur verið undir smásjá stórliðana í nokkurn tíma og reyndi m.a Arsenal að krækja í pillt í janúar. Arsenal reyndi einnig að krækja í miðjumann að nafni Antonio Puerta en áhugi frá Real Madrid, Man U og fleirri hækkaði verðmiðann ansi mikið og urðu þau því frá að hverfa. Eitt er víst að hann mun fá nokkur tilboð í sumar. Framherjinn Javier Chevanton er kannski ekki eitt af þekktari nöfnunum í Sevilla en mér finnst rétt að nefna hann af þeirri ástæðu að hann hefur skorað 4 mörk í 3 leikjum í Uefa. Annars fær hann lítið að spila, hefur aðeins spilað 3 leiki í deildinni. Þekktasta nafnið ásamt Kanouté hlýtur þó að vera brasilíski framherjinn Luis Fabiano, landsliðsmaður Brassa. Hann er næst markahæsti maður liðsins og þykja hann og Fredi mynda gríðarlega sterkt framherjapar.
Leikurinn
Það er nokkuð ljóst að bæði lið bera mikla virðingu fyrir hvort öðru. Leikmenn Sevilla keppast við að koma fram í fjölmiðlum til að mæra Spurs og leikmenn liðsins og telja okkur sigurstranglegri aðilann. Leikmenn Spurs hafa hinsvegar verið duglegir við að lýsa aðdáun sinni á Kanouté, og þar fram eftir götunum. Auðvitað er þetta líka sálfræði. Þjálfari Sevilla hefur séð sig knúinn til að hvetja áhorfendur til að mæta á völlinn sem að öllu jöfnu er þétt setinn. Skírdagur er nefninlega stærri hátíðisdagur þar í landi en hér, og því búist við að það hafi áhrif á aðsókn á leikinn.
Þetta verður mjög athyglisverður leikur. Ensk lið hafa oftar en ekki staðið sig vel á móti þeim spænsku en þetta er öðruvísi. Ensku liðin hafa yfirleitt komist áfram á mjög góðri vörn en við erum eiginlega ekki týpískt enskt lið. Það er því áhugavert að sjá hvernig leikaðferð okkar manna verður. Okkar menn vilja auðvitað helst pressa framarlega á vellinum. Það getur þó verið ansi hættulegt á móti liði eins og Sevilla á útivelli. Við gætum auðvitað legið aðeins til baka og treyst á skyndisóknir. En ég held að á móti góðum sóknarliðum sé það ekki vænlegt til árangurs. Ég held því að leikurinn muni fara af stað með þreyfingum en við munum svo stjórna leiknum.
Liðið
-----------------------Robbo------------------
Stalteri-----Chimb.--------Daws-------Lee
Lennon----Jenas----------Zokora-----Tainio
-------------Keane---------Berbatov----------
King, THUDD, Gardner, Ekotto og Murphy eru meiddir og Rocha er ekki löglegur í Uefa. Ef eitthvað breytist verður það líklega að Tainio detti út. Ég vill samt hafa hann þarna þar sem skarð er hoggið í vörn okkar með fjarveru Gardners og Rocha. Ég á ekki von á að Jol hvíli neina leikmenn fyrir Chelsea leikinn á laugardaginn. Jol leggur ofuráherslu á Uefa. Við erum ekki með það breiðann hóp að við getum leyft okkur að hvíla menn án þess að veikja liðið.
Ég ætla að spá leiknum 1-3. Það er gríðarleg bjartsýni því í raun ætti það að vera ásættanlegt að gera jafntefli eða jafnvel að tapa leiknum 3-2. En ég hef bara þessa tilfinningu fyrir leiknum.
Coys!
sunnudagur, apríl 01, 2007
Tottenham 1- Reading 0
Eitt stórt vafaatriði sem geriðst í leiknum sem mig langar að minnast á. Það var dæmt af okkur mark þegar Defoe skoraði. Nú hef ég svosem enga sérfræðiþekkingu en ég held að línuvörðurinn hafi veifað á Berbatov. Þó svo að Berbatov (sem var rangstæður) hafi ekki snert knöttinn, hafði hann áhrif á leikinn því hann hljóp að boltanum og fipaði þar með markvörðinn.
Í rauninni voru tvö vafaatriði því vítaspyrnudómurinn var ansi vafasamur. Það er ekki hægt að dæma vítaspyrnu nema hann hafi viljandi handleikið knöttinn eins og lýsendur sky bentu réttilega á. Það er svolítið hart að ætla að Readingmaðurinn hafi snert boltann viljandi. Kannski má segja að vafaatriðin hafi fallið í sitthvora áttina og því ekki hægt að kenna dómaranum um úrslit leiksins.
Annars var leikurinn svona sæmilegur. Allir áttu fínann leik í okkar liði. Berbatov og Keane voru ágætir en geta miklu meira. Lennon og Zokora deila titlinum maður leiksins að mínu mati.