Vinstri bakvarðastaðan hefur oft verið vandamálastaða hjá okkur. Sú hugmyndafræði sem ég hef um bakvarðastöðuna er sú að bakverðirnir báðum megin verði að vera mjög álíkir. Það sem ég á við með þessu er að bakvörðurinn hægrameginn má ekki vera til baka þegar bakvörðurinn vinstrameginn er sókndjarfur. Þetta þótti mér vanta á síðasta tímabili. Lee og Stalteri voru alltof ólíkir. Lee var jafnvel sókndjarfari en flestir miðjumenn okkar á meðan Stalteri var mun ragari við að hætta sér fram. Færslan á liðinu var því í mjög ójöfn. Ég veit ekki hvort ég er að fara með hlutina of langt og þú sem lest hugsar "rólegur, þetta er bara fótbolti".
Í þessum skrifum nota ég skammstafanir úr ensku, sem margir þekkja úr CM leikjunum. (dc) þýðir þá "defence - Center" (lb) Þýðir þá "left back" eða vinstri bakvörður o.s.frv.
Eins og ég kom inná var Lee að sinna v-bakverðinum í fyrra. Nú virðist hann ekki eiga jafn öruggt sæti með komu Ekotto. Við skulum nú fara yfir leikmennina sem sinna þessari stöðu og taka það svo saman hvort staðan sé sterkari nú en í fyrra.
Benoit Assou-Ekotto (32)
Ekotto er 22 ára gamall Frakki/Kamerúni. Hann er fæddur 24 mars árið 1984 í Arras í Frakklandi. Foreldrar hans eru frá Kamerún og hefur því Ekotto tvöfalt ríkisfang. Ekotto fékk kall frá liðið Kamerún í Afríkukeppnina fyrr á þessu ári en hafnaði tilboðinu af persónulegum ástæðum. Margir vilja meina að hann hafi hafnað tilboðinu af þeirri ástæðu að hann setji markið á franska landsliðið.
Ekotto hóf atvinnumannaferilinn af alvöru 20 ára gamall þegar hann spilaði sinn fyrsta leik með Lens í Frakklandi gegn PSG. Ekotto kom upp í gegnum unglingastarf Lens. Hann spilaði 66 leiki með Lens og var á síðasta tímabili einn besti vinstri-bakvörðurinn í frönsku deildinni. Hann átti fast sæti í liði Lens á síðasta tímabili sem endaði í 4. sæti í deildinni. Eftir tímabilið voru mörg stór lið á eftir kappanum. Hann var talinn eitt mesta efnið í Frakklandi. Það var þó draumur hans um að spila á Englandi sem varð til þess að aldrei var spurning í hans huga á hvaða blað hann ætti að skrifa nafn sitt. Í júní skrifaði hann svo undir samning við okkur og var kaupverðið um 3,5 millj punda. Ekotto þykir fjölhæfur leikmaður og spilaði þar til fyrir 2 árum alltaf stöðu miðjumanns (mc) hann var svo fenginn eitt sinn til að leysa stöðu v-bakvarðar og vakti mikla athygli með framistöðu sinni. Hann þykir einnig liðtækur sem vinstri vængmaður.
Ekotto hefur að mínu viti tekið svolítið við hlutskipti Stalteri í fyrra (fyrrihluta tímabils). Hann er mjög yfirvegaður og er ekki mest áberandi maðurinn á vellinum. Það kann að skýra það að hann hefur ekki fengið það hrós sem hann á skilið. Hann hefur skilað varnarvinnunni mjög vel það sem af er tímabili. Þessi gagnrýni kann líka reyndar að skýrast af hluta til af því að hann er að spila í skugganum af besta hægri-bakverði í deildinni Chimbonda. Við skulum ekki gleyma því að þetta er leikmaður sem er 22 ára gamall og spilaði sinn fyrsta "top flight" (kann einhver íslenskt orð yfir þetta?) fótbolta fyrir tveimur árum. Hann kemur frá Frakklandi þar sem fótboltinn er gjörólíkur enskum fótbolta. Það er því undravert miðað við þetta hversu fljótur hann er að aðlagast liðinu. Ég tel mig sjá það í leik hans að hann gæti myndað mjög gott mótvægi við Chimbonda. Mér finnst ég sjá það á leik hans að hann er mjög góður framávið þó hann hafi ekki enn fullt sjálfstraust til að beyta sér mikið framávið. Það er í raun sorglegt að umræðan var nánast engin fram að Arsenalleiknum en eftir hann hefur hann mátt sæta mjög harðri gagnrýni.
Samantekt
Að mínu viti hefur Ekotto spilað með miklum ágætum það sem af er tímabili. Ef við tökum það með í dæmið að þetta er leikmaður sem hóf að spila alvöru fótbolta fyrir tveimur árum við gjörólíkar aðstæður er hann búinn að spila frábærlega. Við skulum ekki gleyma því að þessi leikmaður er ekki á hátindinum. Hann er enn bara ungur og efnilegur. Hann á bara eftir að verða betri. Hann er að mínu viti okkar besti kostur í vinstri-bakvörðinn. Ef hann og Chimbonda eiga eftir að ílengjast hjá liðinu eiga þeir eftir að verða okkur ómetanlegir. Ég hvet alla sem efast um leikmanninn að veita honum meiri athygli í leikjunum og horfa á hann án allra fordóma.
Young Pyo-Lee (3)
Lee er suður-kóreskur landsliðsmaður. Hann er fæddur 23 apríl 1977 og er því 29 ára gamall. Hann er 178 cm á hæð og um 70kg. Lee var keyptur frá Psv Eindhoven í ágúst árið 2005 á tæpar 1,4 millj punda. Hann er líkt og Ekotto mjög fjölhæfur leikmaður sem getur spilað hægra og vinstramegin á vellinum. Áður en hann kom til Psv spilaði hann mikið sem miðjumaður (mc). Lee býr yfir miklum hraða og ég held að hann búi einnig yfir mikilli knatttækni. Mér þykir Lee ekki enn hafa sýnt sitt besta með Spurs. Hann má eiga það að hann er ekki latur og var svolítið ranglega gagnrýndur á síðasta tímabili. Það var kannski til of mikils ætlast af honum í fyrra. Hann nánast bar upp sóknarleik liðsins. Þetta var til þess að hann fór mikið úr stöðu sinni og Davids sem var oft á vinstri kanntinum átti að taka stöðu hans í bakverðinum. Davids var sjaldnast að sjá um þá hlið mála og var því Lee oft kennt um að vinstri vængurinn væri of opinn. Hann hefur hinsvegar sýnt það að hann er prýðis varnarmaður og ágætis sóknarmaður. Hann er mjög mikilvægur fyrir liðið þar sem hann getur leyst báðar bakvarðastöðurnar með sóma. Ég skal viðurkenna að Lee fær sjaldnast sanngjarna gagnrýni hjá mér. Það er eitthvað í leik hans sem mér finnst gefa það til kynna að hann sé að halda aftur af sér. Það vantar eitthvað sjálfstraust. Oft þegar hann geystis upp völlinn finnst mér eins og hann geti gert lítið úr varnarmanninum ef honum sýnist, en svo kemur sendingin til baka. Það má því segja að hann fái ekki sanngjarna gagnrýni frá mér því ég hef meiri trú á honum en hann sjálfur. Ég gleymi því ekki í fyrra þegar hann ákvað að sóla Steve Finnan upp úr skónum gegn Liverpool. Ég man svo einusinni eftir að hann hafi gert þetta á þessari leiktíð. Málið er bara að hann reynir helst ekki þessar gabbhreyfingar. Það er svo mikið vopn í höndum leikmanna sem hafa þennan hraða sem Lee hefur, að geta sett varnarmanninn út af laginu með einni eða fleirri gabbhreyfingu, þá er hann sloppinn innfyrir.
Samantekt
Lee er eins og ég kom inná ómetanlegur liðsstyrkur. Hann gefur Chimbonda og Ekotto lítið eftir og ef annar þeirra meiðist veikist liðið ekki mikið. En Lee er ekkert unglamb lengur. Mér finnst mikilvægara að Ekotto fái að dafna í vinstri bakverðinum. Ég myndi alls ekki vilja missa Lee frá okkur.
Dorian Dervite (35)
Dervite er franskur unglingalandsliðsmaður. Hann er aðeins 18 ára gamall. Það fer kannski að missa marks ef ég minnist á að þessi leikmaður sé líka fjölhæfur, en hann er það nú samt. Þetta er einn af stærri mönnum Spurs. Hann er 193cm á hæð. Hann spilar jafnt í vinstri- bakverðinum sem og í miðri vörninni. Hann er mjög líkamlega sterkur og ákveðinn. Hann þykir einnig hafa furðugott vald á boltanum miðað við líkamsburði. Dervite Kom frá Lille í sumar þar sem miklar vonir voru bundnar við hann. Hann þykir geysilega efnilegur og hefur verið fyriliði u- 18 liðs Frakka. Dervite hefur spilað einn leik með aðaliði Spurs þegar hann spilaði bikarleikinn gegn Port Vale. Hann spilaði þá stöðu varnarmanns (dc).
Samantekt
Það sem ég veit um manninn er bara það sem ég hef lesið. Ég á enn eftir að sjá hann spila. Af því sem ég hef lesið virðist þetta vera þrælefnilegur leikmaður. Það kæmi mér ekki á óvart þó hann færi að banka hressilega á dyrnar eftir c.a 2 ár. En líklega sjáum við lítið af honum þetta tímabilið, enda aðeins 18 ára.
Reto Ziegler
Reto er skv. heimasíðu Spurs skrifaður sem vinstri bakvörður. Ég get ekki séð að hann sé góður í þeirri stöðu. Ég held að vinstri vængurinn sé miklu frekar hans staða. Allavega mun ég taka hann fyrir þegar ég fjalla um vinstri vænginn.
Heildarniðurstaða
Ég tel þessa stöðu standa mun sterkara núna heldur en í fyrra. Það er ekki aðeins vegna komu Ekotto, heldur líka komu Steed Malbranque. Nú getur vinstri bakvörðurinn spilað sem slíkur. Ég tel það ekki vera góða taktík að láta alltaf bakvörðinn geysast fram og að vængmaðurinn dekki hans stöðu á meðan. Að sjálfsögðu er gott þegar bakvörðurinn hjálpar til á vængnum með því að koma í yfirhlaup eða annað slíkt. En mér finnst það ekki ganga að í hvert sinn sem liðið sæki eigi vængmaðurinn að detta til baka og bakvörðurinn tekur stöðu hans. Koma Ekotto og Dervite hefur að sjálfsögðu mikið að segja. Þannig að við stöndum betur nú en í fyrra hvað Vinstri bakvörðinn varðar.
Næst mun ég taka fyrir stöðu Miðvarðar (dc)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Bara einn spurning, ég fór að velta fyrir mér þar sem að þú ert að telja upp leikmenn spurs.... Var ekki Emil Hallfreðs komin til baka og á hann einhvern sjéns að þínu mati.
Kveðja kiddi magg
Jú Emil var að koma til baka. Ég efast um að hann fái séns með aðalliðinu, allavega ekki á þessu tímabili. Það þarf allavega ansi mikil meiðslavandræði til þess að ég sjái hann koma þarna inn.
Annars er mál Emils algjör ráðgáta í mínum huga. Hann var að gera fína hluti sem lánsmaður hjá Malmö í sumar og liðið vildi kaupa hann. Hann hinsvegar vildi fara aftur til Spurs að reyna að vinna sig inn í liðið. Ég veit ekki alveg hversvegna hann býst við að geta unnið sig inn í liðið. Allavega virðist Jol ekkert vera að farast úr tilhlökkun við að sjá hann spila með aðalliðinu. Hann virðist frekar neðarlega í goggunarröðinni og fátt sem bendir til þess að hann nái að komast inn í varaliðið hvað þá aðalliðið.
Í stuttu máli sagt "nei hann á sama og engann séns á næstunni". Það er synd því þetta er fínn leikmaður.
Skrifa ummæli