fimmtudagur, október 12, 2006

Aston Villa - Spurs











Laugardaginn 14 okt. Kl. 14:00 á Villa Park.

Aston Villa Fc.
Gælunafn : The Villans
Stofnað árið: 1874
Borg: Birmingham
Heimavöllur: Villa Park (42.553)
Stjóri: Martin O'Neill
Grannar: Birmingham City Fc.

Aston Villa
Þó svo Aston Villa hafi ekki verið í toppslagnum undanfarin ár er þetta ekki eitt af litlu liðunum í deildinni. Það kom mér á óvart hversu stórt félag þetta er í raun og veru í sögulegu samhengi.
Aston Villa er eitt af þeim 12 liðum sem stofnuðu ensku deildina árið 1888. A. Villa er eins og svo mörg önnur knattspyrnulið í englandi stofnað út frá krikket liði sem vildi halda sér í formi yfir vetrartímann. Árið 1897 var Villa Park leikvangurinn opnaður og var á þeim tíma einn glæsilegasti völlur Englands. Villa Park er fyrsti leikvangur í sögu Englands þar sem hefur verið spilaður landsleikur á þremur öldum (19,20 og 21 öld). Gullaldartímabil Aston Villa hófst fljótlega eftir stofnun félagsins. Árið 1894 hófst titlasöfnun Aston Villa. Aston Villa unni á árunum 1894 -1900 fimm englandsmeistaratitla og urðu tvisvar bikarmeistarar. Aston Villa hefur verið á mjög svipuðu róli og Tottenham frá upphafi úrvalsdeildar. Þeir hafa verið svona um miðja deild.

Fróðleikskorn um Aston villa
*Aston Villa er eitt af 7 úrvalsdeildarliðum (þ.á.m Spurs) í dag sem hafa enn ekki fallið um deild.

*Aston Villa er það lið sem hefur átt flesta enska landsliðsmenn í gegnum tíðina. Alls hafa 63 leikmenn Aston Villa verið valdir í enska landsliðið.

*A. Villa er það lið sem hefur spilað næst flesta leikina í efstudeild (Everton flesta). Samanlagt hafa þeir verið í efstu deild í 97 ár.

*Aston Villa er það lið sem hefur skorað flest mörk allra liða í FA cup.

*Tímabilið 1930-31 skoruðu Villamenn 128 mörk í deildinni. Það er það mesta sem hefur verið skorað á einu tímabili í ensku deildinni fyrr og síðar.

*Þegar Aston Villa unnu Uefa cup árið 1982 spiluðu þeir gegn Bayern Munchen. Þeir urðu þar með fyrsta liðið til að vinna úrslitaleik á móti Bayern.

*Í febrúar í fyrra var Aston Villa eitt af 20 ríkustu knattspyrnufélögum heims hvað innkomu varðar.

Titlar:
Uefa cup: 1
Super cup: 1
Englandsmeistarar: 7
FA cup: 7
Deildarbikar: 5

Aston Villa í dag
Aston Villa endaði í 16. sæti á síðasta tímabili aðeins 8 stigum frá fallsæti. Þeir unnu aðeins 10 leiki og þar af 7 á heimavelli. Liðið hefur þó tekið stakkaskiptum það sem af er þessu tímabili og verið að spila glymrandi bolta undir stjórn Martin O'Neill sem tók við liðinu í sumar. Þeir eru með fullt hús stiga á heimavelli sínum og hafa náð mjög góðum úrslitum í haust. Aston Villa og Everton eru einu taplausu liðin í deildinni. Þeir hafa meira að segja náð jafntefli á útivelli á móti bæði Chelsea og Arsenal. Þetta ætti að sýna okkur að þeir eru til alls líklegir. Þeir eru sem stendur í 4-7 sæti í deildinni með 5 mörk í plús. Þeir leikmenn sem við ættum kannski að kannast hvað best við eru m.a:
*Luke Moore
*Juan Pablo Angel
*Chris Sutton
*Gareth Barry
*Milan Barros
*Stillian Petrov
*Patrik Berger
*Olof Mellberg

Einnig er ungur strákur að vekja umtalsverða athygli hjá Villa. Það er tvítugur strákur að nafni Gabriel Agbonlahor. Ég hvet alla til að hafa auga með þessum strák. Hann er skotfljótur og teknískur sóknarmaður. Hann hefur verið að spila með u-19 og u-21 liðum Englands (hann hefur þrjú ríkisföng). Þetta verður líklega ein af stórstjörnum Englands á næstu árum. Annar leikmaður sem hefur heldur betur verið að stimpla sig inn þó hann sé enginn táningur er Pablo Angel. Hann hefur þótt sýna gríðarlega góða tilburði það sem af er tímabili.
Í síðasta leik mættu Villamenn Chelsea og eins og áður hefur komið fram náðu þeir 1-1 jafntefli á heimavelli Chelsea. Það var einmitt þessi Agbanlahor sem skoraði jöfnunarmarkið með góðum skalla.

Síðasti sigur okkar á Villa
Síðasti sigur okkar á Aston Villa hefur mikla þýðingu fyrir mig. Þetta var síðasti leikur okkar þar sem við náðum að skora meira en 3 mörk. Þetta var síðasti leikur okkar þar sem við náðum að vinna lið með sannfærandi markamun (að bursta andstæðinginn). Ég man eftir þessum leik eins og þetta hafi verið síðasti leikurinn sem ég sá með Spurs. Ég hef beðið ansi lengi eftir því að fá að upplifa þá tilfinnigu sem ég upplifði eftir þennan leik aftur. Það er fátt ánægjulegra en að sjá liðið sitt spila eins og það sé besta lið í heimi. En við skulum rifja upp þennann dag aðeins nánar

1. maí 2005
Tottenham 5 – Aston Villa 1

Þegar þarna var komið við sögu áttum við ennþá möguleika á evrópusæti. Við höfðum ekki tapað leik á WHL í síðustu 8 leikjum okkar þar.Aston Villa hafði hinsvegar ekki tapað leik í síðustu 5 viðureignum sínum.

Byrjunarliðið var skipað eftirfarandi leikmönnum:
----------------------Robinson-----------------------
Kelly---------Dawson------King--------Edman

Davies-------Carrick-------Davis-------Reid

---------------Kanoute------Keane-----------------


Leikurinn byrjaði með látum. Bæði lið ætluðu sér að sigra leikinn og spiluðu bæði lið sókndjarft. Fredi Kanoute skoraði fyrsta mark leiksins á 6 mínútu þegar Robbo náði boltanum eftir sókn Villamanna og sparkaði langt fram. Kanoute tók sprettinn og var kominn einn á móti markmanni þegar hann skaut. Boltinn fór í Postama í markinu og þaðan í stöngina og inn.

Á 18 mínútu fengum við hornspyrnu. Það kom sending á Andy Reid sem skaut botanum af löngu færi. Boltinn small í stönginni. Eftir nokkurt klafs inn í vítateignum barst boltinn á Ledley King sem skoraði. 2-0 eftir 19 mínútur.

Kanoute bætti sínu öðru marki við þegar 26 mínútur voru liðnar af leiknum staðan var því orðin 3-0 fyrir okkar mönnum.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk Dawson skot frá Angel í höndina innann vítateigs og Clattenburg dæmdi víti. Það var Gareth Barry sem tók spyrnuna, Robinson kom engum vörnum við og staðan 3-1.

Í seinni hálfleik var það svo Reid sem skoraði sitt fyrsta mark í Spurstreyju með glæsilegu skoti af 20 metra færi. Negla upp í þaknetið og staðan 4-1.

Það var svo Stephen Kelly sem kláraði dæmið fyrir okkur á 90 mínútu.

Maður leiksin var Simon Davies sem sýndi einhverja mögnuðustu framistöðu tímabilsins í þessum leik.

Tölfræði og staðreyndir
Við höfum mætt Aston Villa 68 sinnum á Villa park og:
Unnið 21
Tapað 29
Jafnt 18

Við höfum spilað 11 leiki á dagsetningunni 14 okt og
Unnið 6
Tapað 5
Jafnt 0

Við spiluðum síðast við Villa á þessari dagsetningu árið 1922 og töpuðum leiknum 2-1.

Tottenham
Ég staðhæfði það eftir síðasta leik að við værum komnir úr lægðinni. Ég er samt mjög smeykur fyrir þennann leik þar sem við erum að fara mæta liði sem er eitt það heitasta í dag. Ég vonast nú samt eftir sigri. Þrátt fyrir gott gengi þeirra nú eru þeir langt því frá ósigrandi. En ég tala bara um að vonast eftir sigri. Það er ansi hætt við því að leikmenn Spurs verði með hugann við evrópuleikinn gegn Besiktas síðar í vikunni. Við erum enn með nokkra menn meidda og getum því ekki stillt upp okkar sterkasta liði. Lennon, Malbranqe og Tainio eru allir meiddir og Defoe og Chimbonda eru á mörkunum að vera leikhæfir fyrir laugardaginn. Keane hefur ekki náð að sýna sitt rétta andlit sem komið er, hann þótti einnig arfaslakur í landsleikjunum í vikunni. En góðu fréttirnar eru væntanlega þær að bæði Mido og Ghaly náðu að skora mark í vikunni með landsliði Egyptalands. Samkvæmt öllu ættum við að tapa þessum leik en ekkert er fast í hendi í boltanum. Ég ætla að vona að við stuðningsmennirnir förum ekki að setjast fyrir framan skjáinn með það í huga að nú séum við að fara rústa Villa. Það er uppskrift af vonbrigðum eftir leik. Ég myndi sætta mig við jafntefli í þessum leik fyrirfram. En held í vonina að við munum eiga góðann dag og Aston Villa missi aðeins dampinn, þá er aldrei að vita nema að við gætum stolið sigrinum.

3 ummæli:

Birgir sagði...

Góður pistill að vanda.
Keep up the good work....
Annars er ég ekkert rosalega bjartsýnn fyrir þennan leik, Aston Villa búnir að vera að gera góða hluti so far á tímabilinu og eru til alls líklegir .. verðum að eiga súperleik til að fá stig út úr þessum leik.

Sicknote sagði...

Takk fyrir birgir. Nei maður er ekkert rosalega bjartsýnn á sigur. Enda er maður bara að vonast eftir jafntefli. Aston Villa hefur gert 4 jafntefli í 7 leikjum þannig að það er ekki svo langsótt.

Birgir sagði...

1 stig .... sem er alveg ágætt á útivelli. Fyrsta stigið og fyrsta markið á útivelli á tímabilinu.
Þá er bara að halda áfram að hala inn stig og við munum klifra upp töfluna hægt og rólega.